Fasteignagjöld og -tryggingar
Allir húseigendur greiða fasteignagjöld og nokkrar tryggingar er einnig skylt að hafa.
Gjöld og skattar
Fasteignagjöld skiptast í fjórar tegundir gjalda sem öll eru ákveðið hlutfall af fasteignamati hverrar eignar:
fasteignaskatt,
lóðaleigu,
sorphirðugjald og
gjald vegna endurvinnslustöðva.
Fasteignagjöld renna til sveitarfélaga sem ákveða álagningu þeirra og annast innheimtu.
Greiðslum fasteignagjalda er dreift jafnt yfir ákveðna gjalddaga á árinu.
Afsláttur
Elli- og örorkulífeyrisþegum er veittur afsláttur af fasteignagjöldum í sumum sveitarfélögum sem setja sér reglur um fjárhæð afsláttar og tekjumörk umsækjenda.
Upplýsingar og umsóknir um afslátt af fasteignagjöldum er að fá hjá hverju sveitarfélagi um sig og á heimasíðum þeirra.
Húsnæðistryggingar
Brunatrygging
Allir húseigendur verða að brunatryggja eign sína hjá tryggingafélagi. Eigendum er líka skylt að brunatryggja hús meðan á smíði þess stendur.
Upphæð brunatryggingar, eða iðgjald, er byggð á brunabótamati.
Brunabótamat er gert þegar byggingu húss er lokið eða það tekið í notkun. Eigendum er fram að því skylt að tryggja eign sína með brunatryggingu á smíðatíma og er upphæð þeirrar tryggingar samkomulagsatriði milli eiganda og tryggingafélags hans.
Brunatrygging fellur ekki úr gildi við uppsögn fyrr en ný hefur tekið gildi.
Lögbundin brunatrygging nær aðeins yfir húseignina sjálfa en innbú er hægt að tryggja sérstaklega hjá tryggingafélögum.
Aðrar húsnæðistryggingar
Allir húseigendur greiða náttúruhamfaratryggingagjald og gjald í ofanflóðasjóð.
Náttúruhamfaratrygging bætir tjón á húsum vegna eftirtalinna náttúruhamfara: snjóflóða, skriðufalla, jarðskjálfta, eldgosa og vatnsflóða.
Ofanflóðasjóður stendur straum af kostnaði við gerð varnarmannvirkja á snjóflóðasvæðum.
Gjöld þessi eru miðuð við brunabótamat eignarinnar og innheimt af tryggingafélagi samhliða iðgjaldi brunatryggingar.
Rétt er að kynna sér vel tryggingaskilmála annarra keyptra trygginga á eignum og afkomu.
Vefur Náttúruhamfaratryggingar Íslands
Til minnis
Gæta þess að bygging í smíðum sé brunatryggð samkvæmt reglum og að tryggingafélagi sé gert viðvart þegar byggingu er lokið.
Sækja um brunabótamat innan fjögurra vikna frá því nýtt húsnæði er tekið í notkun.
Óska eftir endurmati hafi verðmæti húseignar aukist vegna endurbóta.
Tilkynna vátryggingafélagi tjón án tafar. Sé það ekki gert innan árs frá því að kröfuhafi veit um atburðinn, fellur bótaréttur niður.
Elli- og örorkulífeyrisþegar geta kannað hvort sveitarfélagið veitir þeim afslátt af fasteignagjöldum.