Skip to main content

1. Almennt.

1.1 Loftbrú, (hér eftir einnig nefnd „afslátturinn“), er fyrirkomulag greiðsluþátttöku íslenska ríkisins (hér eftir „ríkið eða „stjórnvöld“) í flugfargjöldum íbúa sem eiga lögheimili á landsbyggðinni og búa fjarri höfuðborgarsvæðinu.

1.2 Vegagerðin hefur umsjón með Loftbrú fyrir hönd ríkisins.

1.3 Um afslátt með Loftbrú gilda skilmálar þessir sem og gildandi skilmálar flugfélagsins á hverjum tíma, s.s. almennir flutningsskilmálar flugrekanda fyrir farþega og farangur, reglur um fargjöld og aðrir samningsskilmálar sem gilda um útgáfu farseðla.

1.4 Upplýsingar um þau flugfélög sem eru aðilar að Loftbrú er að finna á vef Vegagerðarinnar, www.loftbru.is

2. Almennt um Loftbrú.

2.1 Þeir sem geta fengið afslátt með Loftbrú eru íbúar sem eiga lögheimili á landsbyggðinni á þeim búsetusvæðum á Íslandi sem tilgreind eru í fylgiskjali 1 með skilmálum þessum (hér eftir nefndur „afsláttarþegi“).

2.2 Loftbrú veitir afslátt af flugfargjaldi fyrir tiltekinn fjölda flugferða á ári í áætlunarflug innanlands, frá búsetusvæði afsláttarþega til og/eða frá höfuðborgarsvæðinu. Upplýsingar um hlutfall afsláttarins og fjölda flugleggja sem afslátturinn tekur til er að finna á vef Loftbrúar, www.loftbru.is

2.3 Með flugferð í samningi þessum er átt við einn fluglegg, óháð tengiflugi. Dæmi um einn fluglegg er flug frá Akureyri til Reykjavíkur eða frá Grímsey til Reykjavíkur með tengiflugi um Akureyrarflugvöll. Allar nánari upplýsingar um flugleggi og fjölda þeirra sem falla undir Loftbrú er að finna á vef Loftbrúar, www.loftbru.is.

2.4 Loftbrú tekur ekki til flugferða sem farnar eru í viðskiptalegum tilgangi. Með flugferðum í viðskiptalegum tilgangi er átt við hvers kyns ferðir á vegum annarra en afsláttarþega, s.s. fyrirtækja, samtaka, eða opinberra aðila, óháð því hvort ferð sé einnig farin í einkaerindum.

3. Um notkun afsláttar og breytingar á fargjöldum.

3.1 Sótt er um afsláttinn áður en flug er bókað með því að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á www.loftbru.island.is og sækja þar afsláttarkóða. Sækja þarf nýjan afsláttarkóða fyrir hverja bókun. Hver afsláttarkóði er virkur í 24 klst. eftir að hann er sóttur á www.loftbru.island.is og gildir fyrir eina bókun. Sé hann ekki notaður innan þess tíma þarf að sækja nýjan afsláttarkóða.

3.2 Börn (17 ára og yngri), sem uppfylla skilyrði fyrir afslætti og eiga rafræn skilríki geta sótt um afsláttinn á www.loftbru.island.is. Forsjáraðili getur einnig sótt um afsláttinn á www.loftbru.island.is.

3.3 Hver afsláttarkóði gildir einungis um flugfargjöld sem eru bókuð á útgáfuári afsláttarkóðans.

3.4 Afsláttarkóðinn er nýttur hjá viðkomandi flugfélagi við bókun flugfargjalds og veitir hann afslátt á flugferð með áætlunarflugi í samræmi við skilmála þessa og gildandi skilmála og skilyrði viðkomandi flugfélags.

3.5 Einungis er hægt að nýta afsláttarkóðann við bókun flugfargjalds með þeim bókunar- og greiðsluaðferðum sem flugfélagið heimilar við bókun. Ekki er hægt að nýta afslátt með Loftbrú eftir að greitt hefur verið fyrir ferð.

3.6 Afslátturinn reiknast við bókun af heildarflugfargjaldi fyrir viðkomandi flugferð gegn framvísun afsláttarkóða, þ.e. af flugfargjaldi ásamt bókunargjaldi, flugvallargjaldi og öðrum óundankræfum gjöldum, sem flugfélag kann að innheimta á viðkomandi flugleið. Afslátturinn tekur ekki til viðbótarþjónustu sem keypt er af flugfélagi, t.d. aukna farangursheimild, sætisval eða aðra valkvæða þjónustu

3.7 Ef flugmiða er breytt miðast afsláttur með Loftbrú ávallt við fjárhæð upphaflegs flugfargjalds. Við breytingu á flugmiða reiknast afslátturinn því ekki af breytingargjöldum og mismun á flugfargjöldum. Að öðru leyti gilda skilmálar viðkomandi flugfélags um flugmiðann.

3.8 Ef flug er afbókað eða ef flugferð er aflýst af flugfélagi endurnýjar viðkomandi flugfélag afsláttinn á viðkomandi farþega. Sækja þarf nýjan afsláttarkóða til að nýta afslátt við bókun á nýju flugi. Að öðru leyti gilda skilmálar viðkomandi flugfélags um flugmiðann og endurgreiðslu fargjaldsins.

3.9 Afslátturinn gildir ekki um sérfargjöld eða sérvörur, t.d. hópafargjöld, pakkatilboð eða inneignir.

3.10 Ekki er mögulegt að gera nafnabreytingu á flugmiðum þar sem afsláttur með Loftbrú er nýttur.

3.11 Upplýsingar um stöðu á notkun afsláttar má sjá við innskráningu á www.loftbru.island.is.

3.12 Veittur afsláttur af flugfargjaldi með Loftbrú er ekki skattskyldur hjá afsláttarþega.

4. Ábyrgð afsláttarþega.

4.1 Afsláttarþegi ber fulla ábyrgð á sínum afsláttarkóða og þeim aðgerðum sem framkvæmdar eru með honum.

4.2 Afsláttarþegi skal tryggja að óviðkomandi aðilar fái ekki aðgang að útgefnum afsláttarkóða honum til handa.

4.3 Ekki er heimilt er að nýta afslátt sem Loftbrú veitir fyrir aðra en þann sem úthlutað hefur verið afsláttarkóða samkvæmt skilmálum þessum.

5. Takmörkun ábyrgðar.

5.1 Vegagerðin ber ekki ábyrgð á notkun á útgefnum afsláttarkóðum.

5.2 Vegagerðin ber ekki ábyrgð á óþægindum, kostnaði eða öðru fjártjóni, hvort sem um ræðir beint eða óbeint tjón, sem rekja má til lokana, aðgangstruflana eða annarrar röskunar á Loftbrú.

5.3 Vegagerðin ber enga ábyrgð á tjóni sem rekja má til athafna eða athafnaleysis þriðja aðila eða ágalla á veitingu afsláttar með Loftbrú sem rekin er af þriðju aðilum.

5.4 Vegagerðin ber ekki ábyrgð á samningum um kaup á flugfargjöldum milli flugfélags og einstaklinga sem nýta sér afsláttinn. Útgefnir farseðlar eru háðir þeim takmörkunum sem kynntir eru í skilmálum þessum og þeim skilmálum sem kynntir eru við bókun farmiða hjá viðkomandi flugfélagi. Það er á ábyrgð afsláttarþega að kynna sér reglur um fargjöld.

5.5 Vegagerðin ber enga skaðabótaábyrgð á flugfarseðlum sem eru gefnir út á grundvelli þessa skilmála sem berast seint, týnast, skemmast eða eru sendir á rangan stað, vegna vanrækslu, annmarka eða ásetnings eða misbrests af hálfu kaupanda, flugfélags eða ferðaskrifstofu.

5.6 Villur sem tengjast kaupum á farseðlum með afsláttarkóða samkvæmt skilmálum þessum skulu tilkynntar flugfélaginu fyrir flug. Vegagerðin ber ekki ábyrgð á slíkum villum eða því tjóni sem af þeim kann að leiða.

5.7 Vegagerðin ber ekki ábyrgð á framboði og verðlagningu flugferða.

6. Önnur ákvæði.

6.1 Stjórnvöld ákveða einhliða þann afslátt sem Loftbrú veitir á hverjum tíma, fjölda flugferða sem Loftbrú veitir afslátt af og fyrirkomulag afsláttar. Stjórnvöld geta fellt úr gildi Loftbrú eða breytt hlutfalli afsláttar, fjölda afsláttarferða, afmörkun afsláttarsvæða og afsláttarþega að öðru leyti einhliða, hvenær sem er, án fyrirvara og án þess að við það skapist bótaréttur handa afsláttarþegum. Slíkar breytingar taka strax gildi án nokkurs fyrirvara nema annað sé tekið fram.

6.2 Vegagerðin getur breytt skilmálum þessum einhliða og fyrirvaralaust, án tilkynningar. Slíkar breytingar taka strax gildi án fyrirvara nema annað sé tekið fram.

6.3 Vegagerðinni er heimilt að rjúfa aðgang að Loftbrú um stundarsakir, fyrirvaralaust og án tilkynningar ef þörf krefur, til dæmis vegna uppfærslu, breytinga á kerfum eða af öðrum ástæðum og án þess að við það skapist bótaréttur handa afsláttarþeganum eða flugfélagi.

6.4 Allar nánari upplýsingar um Loftbrú má finna á vef Loftbrúar, www.loftbru.is og www.loftbru.island.is

6.5 Ábendingum og fyrirspurnum um Loftbrú skal beint til Vegagerðarinnar á netfangið loftbru@vegagerdin.is eða í síma 1777.

6.6 Komi upp vandræði við notkun afsláttarkóða í bókunarkerfum flugfélaga skal fyrirspurnum um það beint að viðkomandi flugfélagi.

Skilmálar þessir taka gildi 9. september 2020.

Listi yfir póstnúmer sem falla undir Loftbrú

380 Reykhólahreppur
381 Reykhólahreppur
400 Ísafjörður
401 Ísafjörður
410 Hnífsdalur
415 Bolungarvík
416 Bolungarvík
420 Súðavík
421 Súðavík
425 Flateyri
426 Flateyri
430 Suðureyri
431 Suðureyri
450 Patreksfjörður
451 Patreksfjörður
460 Tálknafjörður
461 Tálknafjörður
465 Bíldudalur
466 Bíldudalur
470 Þingeyri
471 Þingeyri
510 Hólmavík
511 Hólmavík
512 Hólmavík
520 Drangsnes
522 Kjörvogur
523 Bær
524 Norðurfjörður
540 Blönduós
541 Blönduós
545 Skagaströnd
546 Skagaströnd
550 Sauðárkrókur
551 Sauðárkrókur
560 Varmahlíð
561 Varmahlíð
565 Hofsós
566 Hofsós
570 Fljót
580 Siglufjörður
581 Siglufjörður
600 Akureyri
601 Akureyri
603 Akureyri
604 Akureyri
605 Akureyri
606 Akureyri
607 Akureyri
610 Grenivík
611 Grímsey
616 Grenivík
620 Dalvík
621 Dalvík
625 Ólafsfjörður
626 Ólafsfjörður
630 Hrísey
640 Húsavík
641 Húsavík
645 Fosshóll
650 Laugar
660 Mývatn
670 Kópasker
671 Kópasker
675 Raufarhöfn
676 Raufarhöfn
680 Þórshöfn
681 Þórshöfn
685 Bakkafjörður
686 Bakkafjörður
690 Vopnafjörður
691 Vopnafjörður
700 Egilsstaðir
701 Egilsstaðir
710 Seyðisfjörður
711 Seyðisfjörður
715 Mjóifjörður
720 Borgarfjörður eystri
721 Borgarfjörður eystri
730 Reyðarfjörður
731 Reyðarfjörður
735 Eskifjörður
736 Eskifjörður
740 Neskaupstaður
741 Neskaupsstaður
750 Fáskrúðsfjörður
751 Fáskrúðsfjörður
755 Stöðvarfjörður
760 Breiðdalsvík
761 Breiðdalsvík
765 Djúpivogur
766 Djúpavogur
780 Höfn í Hornafirði
781 Höfn í Hornafirði
785 Öræfi
900 Vestmannaeyjar

Loftbrú