Fara beint í efnið

Lögheimili barns fært á milli foreldra

Samningur foreldra með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns og meðlag

Foreldrar með sameiginlega forsjá geta óskað eftir því að flytja lögheimili barna sinna á milli foreldra og færa um leið meðlagsgreiðslur með barninu/börnunum til nýs lögheimilisforeldris.

Ef samkomulag er um flutning og meðlag er hægt að útbúa samning hér á Ísland.is sem báðir foreldrar undirrita rafrænt og fer í staðfestingarferli hjá sýslumanni. Staðfesti sýslumaður samninginn er staðfestingin send í pósthólf beggja foreldra á Island.is.

Samningur um lögheimili getur verið varanlegur (til 18 ára aldurs barns) eða tímabundinn, þó ekki til skemmri tíma en 6 mánaða. Að tímabilinu loknu flyst lögheimili barnsins til fyrra horfs á ný.

Hvaða áhrif hefur breytingin?

Breytingin hefur áhrif á nokkra þætti og er mikilvægt að foreldrar kynni sér vel hvað hún felur í sér. Lögheimilisforeldri hefur ríkari heimildir til ákvarðanatöku um málefni barns en þarf að leitast við að hafa samráð við umgengnisforeldri þegar teknar eru afgerandi ákvarðanir. Lögheimilisforeldrið hefur rétt á að fá meðlag frá hinu foreldrinu og auk þess falla barnabætur og aðrar greiðslur frá hinu opinbera sem fylgja barninu til þess. Barn hefur rétt til að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sem það býr ekki hjá.

Nánar um lögheimili barns og áhrif þess

Er ágreiningur um breytinguna?

Athugið af ef ágreiningur er um breytingu á lögheimili barns er þetta umsóknarferli, sem lýkur með því að báðir foreldrar undirrita samning, ekki ákjósanlegur farvegur. Foreldri sem óskar eftir því að flytja lögheimili barns til sín getur sent rökstudda beiðni á sýslumann.

Sýslumaður heldur þá upplýsingafund með foreldrum eftir að beiðni berst. Ef foreldrar eru ekki sammála er málinu vísað í sáttameðferð hjá sýslumanni. Sýslumaður tekur ekki ákvörðun í ágreiningsmáli um lögheimili barns. Foreldri getur ákveðið að höfða dómsmál til að krefjast lögheimilis barns.

Beiðni foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns

Ertu með frekari spurningar?

Þú getur haft samband við sýslumann í þínu umdæmi fyrir nánari upplýsingar.

Hafa samband við sýslumann í þínu umdæmi

Listi yfir öll eyðublöð hjá sýslumönnum

Samningur foreldra með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns og meðlag

Þjónustuaðili

Sýslu­menn