Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Lögheimili barns fært á milli foreldra

Beiðni foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns

Hægt er að gera samning um að færa lögheimili barns frá öðru foreldrinu til hins þegar foreldrar eru með sameiginlega forsjá. Forsjárlaust foreldri getur ekki farið fram á flutning lögheimilis barns, en getur sótt um breytingu á forsjá.

Áður en samningur er gerður er mikilvægt að kynna sér þau margvíslegu áhrif sem skráning lögheimilis hefur.

Börn geta ekki haft tvö lögheimili. Skylt er að gera samning um meðlag samhliða því að samið er um forsjá eða lögheimili.

Þegar foreldrar eru sammála 

Foreldrar gera með sér samning um breytingu á lögheimili og senda hann til sýslumanns. Staðfesti sýslumaður samninginn tilkynnir hann Þjóðskrá Íslands um breytta skráningu lögheimilis barns.

Sýslumaður getur synjað um staðfestingu á samningi um lögheimili og meðlag ef hann þykir andstæður hag og þörfum barns. 

Tímabundin breyting lögheimilis

Samningur um lögheimili getur verið tímabundinn, þó ekki til skemmri tíma en 6 mánaða. Að tímabilinu loknu flyst lögheimili til fyrra horfs á ný. Til þess að það gerist þarf að tímabilinu loknu að senda sérstaka flutningstilkynningu til Þjóðskrár Íslands, nægilegt er að sú tilkynning sé undirrituð af foreldrinu sem barn er að flytjast til á ný.

Fylgiskjöl með umsókn um staðfestingu samnings

  • Forsjárvottorð frá Þjóðskrá Íslands sem sýnir að forsjá foreldra sé sameiginleg

  • Skjal sem sýnir núgildandi skipan meðlags. Skjalið getur verið staðfesting eða úrskurður sýslumanns, dómsátt eða dómur. Skjalið kann þegar að liggja fyrir hjá sýslumanni.

Þegar foreldrar eru ósammála

Ef ágreiningur er milli foreldra með sameiginlega forsjá getur annað foreldri sótt um breytt lögheimili til sýslumanns.

Sýslumaður heldur upplýsingafund með foreldrum þegar berst beiðni um breytingu lögheimilis. 

Ef foreldrar eru ekki sammála er málinu vísað í sáttameðferð hjá sýslumanni.

Sýslumaður tekur ekki ákvörðun í ágreiningsmáli um lögheimili barns. Foreldri getur ákveðið að höfða dómsmál til að krefjast lögheimilis barns.

Tilkynning um fyrirhugaðan flutning lögheimilis

Þegar annað foreldra á umgengnisrétt við barn samkvæmt samningi, úrskurði, dómi eða dómsátt, ber hvoru foreldri að tilkynna hinu með minnst sex vikna fyrirvara, ef foreldri hyggst flytja lögheimili sitt og/eða barnsins hvort sem er innan lands eða utan.

Tilkynningarskylda hvílir á báðum foreldrum án tillits til þess hvernig forsjá er háttað.  

Afhending gagna

Sýslumaður sendir skjöl vegna mála í pósthólf aðila hjá www.island.is. Til að fá tilkynningu um að skjal hafi borist, þarf að stilla pósthólfið þannig.

Beiðni foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns

Þjónustuaðili

Sýslu­menn