Fara beint í efnið

Bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd

Bráðabirgðadvalarleyfi

Umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem vill vinna á meðan umsókn um vernd er til meðferðar, verður að sækja um bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi. Ekki er heimilt að byrja að vinna fyrr en slíkt leyfi hefur verið útgefið.

Leyfið er einungis veitt sem tímabundið úrræði þar til umsókn um vernd hefur verið afgreidd. Leyfið myndar ekki grundvöll fyrir ótímabundnu dvalarleyfi og er háð ákveðnum skilyrðum.

Einstaklingar sem fá útgefið bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi eiga ekki rétt á húsnæði og framfærslu sem umsækjendur um vernd. Þeim skal þó gefinn hæfilegur tími til að verða sér úti um húsnæði og afla sér nægilegra tekna með tilliti til aðstæðna.

Umsókn um bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi verður synjað ef hún er lögð fram eftir að útlendingur hefur fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd frá Útlendingastofnun, enda telst það til ástæðna sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda.

Skilyrði

Skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðardvalarleyfis eru meðal annars eftirfarandi:

  • Tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda.

  • Ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er.

    • Heimilt er að veita undanþágu frá þessu skilyrði þegar sérstaklega stendur á, til dæmis þegar ósanngjarnt eða ómögulegt er að ætlast til þess að umsækjandi framvísi fullnægjandi skilríkjum.

  • Ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda.

    • Slík ástæða liggur fyrir þegar útlendingur hefur fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd frá Útlendingastofnun.

  • Ekki liggi fyrir beiðni um að annað ríki taki við umsækjanda á ný.

    • Heimilt er að veita undanþágu frá þessu skilyrði ef meira en 90 dagar eru liðnir frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst íslenskum stjórnvöldum.

  • Umsækjandi hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Uppfylli umsækjandi ekki ofangreind skilyrði getur hann ekki gengið út frá því að fá útgefið leyfi. Óski umsækjandi eftir undanþágu frá ofangreindum skilyrðum þá metur Útlendingastofnun í hverju tilfelli hvort skilyrði séu til staðar til að veita undanþágu.

Upplýsingar um skilyrði fyrir veitingu bráðabirgða atvinnuleyfis er að finna á vef Vinnumálastofnunar.

Fylgigögn með umsókn

Annað sem þarf að liggja fyrir svo hægt sé að afgreiða umsókn

  • Sjúkratrygging

    • Umsækjandi þarf að leggja fram staðfestingu tryggingar sem gildir jafn lengi og bráðabirgðadvalarleyfið frá tryggingafélagi með starfsleyfi á Íslandi.

Að opna bankareikning

Þegar bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi hefur verið útgefið getur handhafi þess opnað bankareikning með því að fara í útibú banka sem hann velur að vera í viðskiptum við og framvísað bráðabirgðadvalarleyfiskortinu. Sumir bankar gera þar að auki kröfu um að afriti af vegabréfi sé framvísað.

Umsækjendum um alþjóðlega vernd ber að afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem þeir hafa í fórum sínum. Þessi skilríki eru ekki afhent aftur fyrr en afgreiðslu máls er lokið, ýmist með veitingu alþjóðlegrar verndar eða þegar viðkomandi yfirgefur landið í kjölfar synjunar.

Hægt er að óska eftir afriti af vegabréfi sem hefur verið afhent með því að senda tölvupóst á utl@utl.is og fæst afritið þá sent rafrænt.

Lög

Bráðabirgðadvalarleyfi er veitt á grundvelli 77. greinar laga um útlendinga

Bráðabirgðadvalarleyfi

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun