Fara beint í efnið

Heilbrigðismál

Blóðbanki og líffæragjöf

Fjöldi fólks gefur blóð í Blóðbankann en framlagið er ómissandi fyrir ýmsa starfsemi á sjúkrahúsum. Á Íslandi verða allir þegnar sjálfkrafa líffæragjafar við andlát, hafi þeir ekki áður lýst sig andvíga líffæragjöf.

Blóðbankinn

Blóðbankinn, sem er eina sérhæfða stofnunin á sínu sviði í landinu, tekur við blóði heilbrigðra einstaklinga til hjálpar sjúkum.

Þeir sem koma til greina sem blóðgjafar eru á aldrinum 18 til 60 ára, yfir 50 kíló, heilsuhraustir og lyfjalausir.

Blóðbankinn er opinn mánudaga til fimmtudaga, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hann hefur einnig yfir að ráða blóðsöfnunarbíl sem safnar blóði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum.

Líffæragjöf

Í líffæragjöf felst að líffæri eða önnur lífræn efni eru fjarlægð úr lifandi eða látinni manneskju og grædd í sjúkling sem þarfnast þeirra.

Íslendingar byggja löggjöf sína um líffæragjafir á ætluðu samþykki og verða því allir þegnar sjálfkrafa líffæragjafar við andlát, hafi þeir ekki áður lýst sig andvíga líffæragjöf. Þeir sem kunna að vera andvígir því að gefa líffæri geta skráð það á Mínum síðum á Heilsuveru. Einnig má leita aðstoðar heimilislækna og hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar við að skrá afstöðu.

Hver sem orðinn er 18 ára getur gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama svo lengi sem lífi og heilsu líffæragjafa er ekki stofnað í augljósa hættu.

Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar gilda um réttindi líffæragjafa þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir