Alþjóðasóttvarnir
Skipaskoðanir
Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO-1948) hefur frá stofnun m.a. haft forystu um að samhæfa sóttvarnaráðstafanir til að stemma við að smit berist með farartækjum milli landa. Í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni frá 1969 var, hvað þetta varðar, megin markmið að fyrirbyggja þrjá smitsjúkdóma; svarta dauða, kóleru og gulusótt. Skoðun skipa miðaðist þá einkum við að kanna hvort rottur væru um borð í skipunum og var það á ábyrgð héraðslækna að kalla til meindýraeyði til að annast slíka skoðun. Að lokinni skoðun var gefið út svokallað rottueyðingarvottorð en nú er hætt að gefa út slík vottorð því þetta eftirlit er orðið hluti af því sem kannað er við skipaskoðun (sjá síðar í textanum).
Árið 2005 var samþykkt ný alþjóðaheilbrigðisreglugerð (AHR) sem öðlaðist gildi árið 2007 og hafa ákvæði hennar verið sett inn í íslenska löggjöf. Hún fjallar um aðgerðir til að hindra útbreiðslu smitjúkdóma af völdum baktería, veira, frumdýra og meindýra og koma í veg fyrir að eiturefni og geislavirk efni dreifist. Sóttvarnalæknir er tengiliður Íslands við samsvarandi tengilið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í samræmi við ákvæði AHR.
Samkvæmt alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni eiga öll skip sem hyggjast koma að landi:
að skila yfirlýsingu um heilbrigði sæfarenda (Maritime Declaration of Health), sjá bls 59 og 60 í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni og
hafa til reiðu gilt sóttvarnaundanþáguvottorð (ekki eldra en 6 mánaða), sjá bls. 52 og 53 í
Skipaskoðanir – undanþága frá sóttvörnum eða vottorð vegna sóttvarna
Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin kveður á um í 39. grein að skip þurfi að undirgangast sérstaka skoðun a.m.k. á 6 mánaða fresti til að fá það vottað að ekkert sé í skipinu sem ógnað geti lýðheilsu. Slíkt vottorð fæst eftir vandaða skoðun, sem gerð er samkvæmt Handbók Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar um skipaskoðanir, af þar til þjálfuðum aðilum (heilbrigðisfulltrúum). Við skipaskoðanir nota heilbrigðisfulltrúar einnig Evrópska handbók um hollustuháttaviðmið og eftirlit með smitsjúkdómum í farþegaskipum (2. útgáfa 2016), og útgáfu sóttvarnaundanþága og sóttvarnavottorða samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin heldur skrá yfir þær hafnir sem geta veitt skipum þessa þjónustu, Ísland er á bls. 33. Ef skoðun leiðir í ljós að einhverju er ábótavant er gefið út sóttvarnavottorð sem skilgreinir þær aðgerðir sem skal framkvæma á skipinu svo það geti fengið sóttvarnaundanþáguvottorð og siglt óhindrað milli landa. Þessi vottorð koma í stað rottueyðingarvottorða, sem áður voru nefnd. Millilandaskip munu framvegis geta fengið slíka skoðun í ýmsum höfnum Íslands en þær eru tilgreindar í viðauka reglugerðar 747/2009 um breytingu á hollustuháttarreglugerð og fengið viðeigandi vottorð. Vottorðin þarf að endurnýja á 6 mánaða fresti og greiða skip fyrir þessa þjónustu samkvæmt gjaldskrá viðkomandi Heilbrigðiseftirlits.
SHIPSAN ACT Joint action er samstarfsverkefni 32 aðila frá 24 Evrópulöndum. Ísland átti aðild að samstarfinu sem stóð yfir frá 2013-2016. Verkefnið tók á þeim heilsufarsáhrifum sem fylgt geta sjóflutningum vegna líffræðilegra, efnafræðilegra og geislavirkra skaðvalda, þ.á m. smitsjúkdóma.
Markmið:
Fara yfir stöðu þessara mála hvað varðar allar tegundir skipa.
Samræma skoðunaraðferðir á öllum tegundum skipa og þjálfun skoðunaraðila og sjá til þess að upplýsingum sé miðlað greiðlega á milli skoðunaraðila.
Móta leiðbeiningar um áhættumat og viðbrögð vegna efna- eða geislunaratvika.
Koma á og halda við upplýsingamiðlunarkerfi SHIPSAN ACT:
Skapa möguleika og greiða fyrir rafrænum samskiptum, t.d. frá skipi til hafnar, milli hafna eða frá höfn til sóttvarnalæknis.
Upplýsingakerfi vegna útgáfu sóttvarnavottorða skv. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni.
Gagnabanki til að halda utan um framkvæmdar skipaskoðanir.
Standa fyrir námskeiðum bæði innan hvers lands og innan Evrópu.
Móta ramma fyrir aðferð til að gera áhættumat og heilsufarsafleiðingar eftir tegundum flutningaskipa.
Sjá nánar: http://www.shipsan.eu/
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis