Kjörforeldrar sem hafa fengið forsamþykki fyrir ættleiðingu erlendis frá eiga rétt á ættleiðingarstyrk.
Skilyrði
Um frumættleiðingu er að ræða. Þá er barn ekki barn eða kjörbarn maka umsækjanda, sambúðarmaka eða maka í staðfestri samvist.
Erlend ættleiðing verður að hafa verið staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi gefið út.
Kjörforeldrar eru með skráð lögheimili á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá.
Lesa meira um forsamþykki fyrir ættleiðingu.
Réttur
Réttur fellur niður eftir sex mánuði frá því að erlend ættleiðing er staðfest hér á Íslandi eða ættleiðingarleyfi gefið út hér á landi.
Það er ekki hægt að framselja rétt til ættleiðingarstyrks.
Sækja um
Það þarf að sækja um styrkinn innan sex mánaða frá því að ættleiðingin var staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi gefið út.
Nauðsynleg fylgigögn
Forsamþykki ættleiðingar, útgefið af sýslumanni.
Staðfestingarbréf erlends stjórnvalds um ættleiðinguna, stimplað eða áritað af sýslumanni.
Upphæð
Ættleiðingarstyrkur er 823.108 krónur árið 2024 og er föst upphæð.
Upphæð styrksins er endurskoðuð í tengslum við afgreiðslu fjárlaga ríkisins á tveggja ára fresti.
Fleiri en eitt barn
Ef kjörforeldrar hafa ættleitt fleiri en eitt barn samtímis er veittur styrkur vegna hvers barns umfram eitt sem nemur 20% af framangreindri fjárhæð. Ef börnin eru tvö verður styrkurinn því 987.730 krónur og svo framvegis.
Greiðsla
Ættleiðingarstyrkur er eingreiðsla. Styrkurinn er undanþeginn staðgreiðslu skatta.
Frádráttur frá tekjum
Frádráttur frá tekjum er leyfður sem byggist á sannanlegum kostnaði kjörforeldra við ættleiðingu barns eða barna. Skilyrði fyrir frádrættinum er að fullnægjandi reikningar liggi að baki.
Aldrei er þó leyfð hærri fjárhæð til frádráttar en talin yrði til tekna sem ættleiðingarstyrkur. Ef fjárhæð frádráttar verður lægri en styrkurinn ber að greiða tekjuskatt af mismuninum.
Á skattframtali er styrkurinn talinn upp sem tekjur samkvæmt útgefnum launamiða en framteljendur/kjörforeldrar verða sjálfir að skrá kostnað á móti.
Þjónustuaðili
Vinnumálastofnun