Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Ríkar sanngirnisástæður

Orðalagið „ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því“ er að finna á nokkrum stöðum í lögum um útlendinga í tengslum við undanþáguheimildir frá almennum reglum laganna. Orðalagið vísar til þess að um sé að ræða undanþáguheimildir sem túlka skal þröngt og byggja á mati á persónubundnum aðstæðum í hverju máli fyrir sig.

Ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því getur meðal annars verið heimilt:

  • Að leyfa áritunarskyldum umsækjanda um dvalarleyfi að koma til landsins áður en leyfi hefur verið veitt.

  • Að leyfa umsækjanda, sem er undanþeginn áritunarskyldu, að dvelja hér á landi umfram 90 daga á Schengen-svæðinu meðan umsókn um dvalarleyfi er til vinnslu.

  • Að leyfa útlendingi að dvelja á landinu á meðan umsókn um endurnýjun sem barst of seint er afgreidd án þess að rof myndist í samfellda dvöl.

  • Að veita handhafa dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar eða sambúðar nýtt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Til að ríkar sanngirnisástæður séu taldar vera til staðar í tilteknu máli getur eftirfarandi komið til skoðunar:

  • Umsækjandi hefur dvalist lengi á landinu í lögmætri dvöl.

  • Umsækjandi hefur rík fjölskyldutengsl á Íslandi. Með fjölskyldu er átt við maka, sambúðarmaka, börn yngri en 18 ára í forsjá og á framfæri viðkomandi og foreldrar eldri en 67 ára. Þá þarf fjölskyldan að dvelja hér á landi í lögmætri dvöl.

  • Umönnunarsjónarmið eru til staðar, það er umsækjandi er háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða einhver aðstandandi umsækjanda hér á landi er honum háður.

  • Alvarleg veikindi eða slys hér á landi. Umsækjandi þarf að leggja fram fullnægjandi gögn, til dæmis læknisvottorð frá sérfræðingi á viðkomandi sviði.

  • Miklir hagsmunir séu í húfi til dæmis ófyrirséðar ástæður svo sem náttúruhamfarir, stríðsátök eða slæmar aðstæður í heimaríki umsækjanda.

Ríkar sanngirnisástæður eru ekki:

  • Tímaskortur.

  • Að umsækjandi sé með bráðabirgðadvalarleyfi á Íslandi.

  • Efnahagslegar ástæður, til dæmis kostnaður við flugmiða eða húsnæði.

  • Hagsmunir vinnuveitanda af því að hafa umsækjanda í starfi.

  • Að skóli sem umsækjandi ætli að stunda nám við sé hafinn eða að rof verði á námi.

  • Að gleyma að sækja um dvalarleyfi eða vandkvæði við öflun ferðaskilríkja.

  • Að vera í góðri trú um að annar aðili, til dæmis umboðsmaður, hafi ætlað að leggja fram umsókn fyrir sig.

Athugaðu að þessi listi er ekki tæmandi.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

Útlendingastofnun

Þjónustuver

Afgreiðslan er opin 9 - 14 alla virka daga Þjónustuverið er opið mán - fim: 9 - 14 & fös 9 - 12

Dalvegur 18, 201 Kópavogi (sjá kort)

Netspjall

Sendu okkur línu

Sími +354 444 0900