Fara beint í efnið

VS afli

VS-afli er afli sem landaður er utan aflamarks þess skips sem veiðir aflann og rennur andvirði aflans í Verkefnasjóð sjávarútvegs. 

Skipstjóra er heimilt að ákveða að hluti afla í veiðiferð reiknist ekki til aflamarks skipsins og skráir aflann sem VS-afla. Þessi heimild takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla og er háð því skilyrði að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn og skráður sérstaklega.

Þá er það einnig skilyrði að aflinn sé boðinn upp og seldur á fiskmarkaði. Útgerð skipsins fær 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar. Sá fiskmarkaður sem býður aflann upp sér um að skila andvirði aflans í ríkissjóðs að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið.

  • VS-aflaheimildin skiptist í fjögur þriggja mánaða tímabil á fiskveiðiárinu og er reiknuð út frá lönduðum afla skipsins.

  • Ekki er heimilt að flytja ónýttar heimildir milli tímabilanna.

  • Þó má miða ýsuafla og afla sem fæst sem meðafli við grásleppuveiðar, við heimild fiskveiðiársins í heild.

Þjónustuaðili

Fiski­stofa