Veiðigjald
Greiða þarf veiðigjald af öllum lönduðum afla.
Skráðir eigendur íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar greiða ákveðna krónutölu fyrir hvert kílógramm óslægðs afla. Séu eigendur fleiri en einn, bera þeir allir sömu ábyrgð á greiðslu gjaldsins.
Í hvað fer veiðigjaldið
Fiskistofa leggur veiðigjaldið á aflann og tekjurnar renna í ríkissjóð.
Tekjurnar eru notaðar til að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu. Veiðigjaldið tryggir þjóðinni hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Upphæðir
Fyrir 1.desember ár hvert gerir Ríkisskattstjóri tillögu um fjárhæð veiðigjalds hvers nytjastofns fyrir komandi veiðigjaldsár. Ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál auglýsir gjaldið fyrir áramót.
Gjalddagar
Gjalddagi veiðigjalds er 1. hvers mánaðar vegna veiða þarsíðasta mánaðar.
Eindagi er 15. hvers mánaðar.
Ef krafa er ógreidd eftir eindaga reiknast dráttavextir frá gjalddaga. Sé veiðigjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga fellir Fiskistofa almennt veiðileyfi hlutaðeigandi skips niður. Kröfum um greiðslu veiðigjalds fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi skipi í fjögur ár frá gjalddaga.
Þjónustuaðili
Fiskistofa