Fara beint í efnið

Landsskipulag

Tímabært að móta nánari stefnu um vegamál á miðhálendinu

17. maí 2021

Tímabært að móta nánari stefnu um vegamál á miðhálendinu

Vegagerðin stóð í liðinni viku fyrir málþingi um framtíð þjóðvega á hálendinu, þar sem kallað var eftir viðhorfum og skoðunum ólíkra hópa til málsins, en samkvæmt samgönguáætlun 2020–2034 skal móta stefnu um hönnun vega á hálendi Íslands í samræmi við áherslur landsskipulagsstefnu. Upptöku af málþinginu er að finna á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Sérstaða miðhálendisins verði útgangspunktur stefnumótunar

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar var meðal frummælenda og bar erindi hennar yfirskriftina Skipulagsforsendur vegakerfis og veghönnunar á miðhálendinu. Ásdís Hlökk lagði í erindi sínu áherslu á að sérstaða og gildi miðhálendisins verði útgangspunktur í vinnu að frekari stefnumótun um samgönguinnviði og umferð á miðhálendinu. Hún vísaði í því sambandi til ýmissa eiginleika miðhálendisins, svo sem víðfeðmra víðerna, viðkvæmrar náttúru og óvæginnar veðráttu.

Fyrirliggjandi stefna

Í erindi sínu rakti Ásdís Hlökk helstu markmið og áherslur landsskipulagsstefnu sem varða miðhálendið. Þar er lögð áhersla á að standa vörð um náttúru og landslag miðhálendisins og að viðhalda sérkennum og náttúrugæðum þess, meðal annars með því að halda vegaframkvæmdum í lágmarki og að hönnun vega taki mið af náttúruvernd.

Ásdís Hlökk vísaði jafnframt til ýmissa áfanga á sviði löggjafar og stefnumótunar á undanförnum árum sem hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á stefnumótun um vegagerð og veghönnun á miðhálendinu. Þar á meðal ýmissa ákvæða nýlegra náttúruverndarlaga, tillögu að viðauka við landsskipulagsstefnu og gildistöku Landslagssamnings Evrópu hér á landi. Þá benti hún á ýmislegt sem unnið hefur verið að á síðustu misserum og árum sem gagnast við skipulagsvinnu á miðhálendinu, meðal annars flokkun og kortlagningu landslagsgerða sem Skipulagsstofnun gaf út á liðnu ári.

Viðhorf til vega á hálendinu

Ásdís Hlökk gerði einnig að umtalsefni niðurstöður rannsóknarverkefnis, sem kynntar voru nýlega, um sýn ferðaþjónustunnar á vegakerfi miðhálendisins. Þar kemur meðal annars fram að ferðaþjónustuaðilar telja aðdráttarafl og gildi miðhálendisins mikið. Það felist fyrst og fremst í náttúrulegu yfirbragði svæðisins – ósnortinni náttúru, víðernum, takmörkuðum mannvirkjum og fámenni. Miðhálendið sé áfangastaður þeirra sem séu tilbúnir að leggja á sig að ferðast um erfiða vegi og njóta takmarkaðrar þjónustu. Niðurstöður könnunar meðal ferðaþjónustuaðila sem kynntar eru í skýrslu rannsóknarverkefnisins sýna að margir telja vegi á miðhálendinu þurfa betra viðhald en að helstu vegir ættu að haldast óbreyttir. Fáir vilja sjá þar uppbyggða vegi og bundið slitlag. Jafnframt kemur fram í könnuninni að 60% telja að takmarka eigi umferð ferðamanna inn á hálendið. Í því sambandi er vert að hafa í huga að þótt fjöldi erlendra ferðamanna hérlendis hafi tífaldast á síðustu 20 árum, hefur umferð um hálendisvegi haldist nokkuð stöðug. Virðist því sem ástand vega á hálendinu virki í dag sem aðgangsstýring að svæðinu.

Lærum af öðrum

Ásdís Hlökk benti á að útfærsla nánari stefnu um vegamál á hálendinu kalli á að mótuð verði sérstök hönnunarviðmið fyrir hálendisvegi sem taki mið af aðstæðum þar. Hér á landi er ekki mikil hefð fyrir útfærðri stefnu eða hönnunarviðmiðum fyrir vegakerfi og veghönnun í óbyggðum og lítt snortinni náttúru. Þetta er hinsvegar vel þekkt viðfangsefni meðal annarra þjóða og því víða hægt að leita góðra fyrirmynda um hönnunarforsendur og hönnunarviðmið þar sem skipulags- og samgönguyfirvöld hafa þurft að takast á við vegagerð um óbyggðir, fjallendi og náttúruverndarsvæði.

Samstarfsverkefni skipulags- og samgönguyfirvalda um vegakerfi miðhálendisins

Ásdís Hlökk vék í erindi sínu sérstaklega að framfylgdarverkefni sem skilgreint er í landsskipulagsstefnu og felur í sér að unnið verði að nánari stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins í samstarfi skipulags- og samgönguyfirvalda, með aðkomu hlutaðeigandi stofnana og hagsmunaaðila. Verkefninu er ætlað að fela í sér greiningu á kostum varðandi þróun samgöngukerfisins og útfærslu vega á miðhálendinu. Ásdís Hlökk sagðist vonast til þess að málþing Vegagerðarinnar geti orðið upptaktur að vinnu við þetta verkefni. Tímabært sé að blása til endurskoðunar og útfærslu stefnu um vegamál á miðhálendinu.