Fara beint í efnið

Landsskipulag

Samantekt um tengsl lýðheilsu og skipulags

22. apríl 2020

Samantekt
um tengsl lýðheilsu og skipulags

Skipulagsstofnun vinnur nú að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu. Til grundvallar þeirri vinnu hefur stofnunin hleypt af stokkunum margvíslegum forsendu- og greiningarverkefnum sem m.a. er ætlað að draga fram fyrirliggjandi þekkingu um þau viðfangsefni sem fjallað verður um í stefnunni. Meðal áhersluatriða nýs viðauka er lýðheilsa, þar sem mótuð er stefna og leiðbeiningar um hvernig skipulag getur stuðlað að bættri heilsu og vellíðan.

Tillögur um heilsuvænar áherslur

Í nýrri samantekt um lýðheilsu og skipulag sem Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, vann fyrir stofnunina er tekin saman þekking og dæmi um hvernig unnt er að útfæra markmið á sviði lýðheilsu í skipulagsáætlunum. Í samantektinni dregur Matthildur fram náin tengsl umhverfis, skipulags og lýðheilsu og fjallar um hvernig tilteknar skipulagsáherslur geta skapað umhverfi sem hvetur til hollra lifnaðarhátta og styður við andlega, félagslega og líkamlega heilsu. Í lok samantektarinnar setur hún fram tillögur að áherslum í landsskipulagsstefnu sem geta nýst breiðum hópi hér á landi og snúa að gönguvænu þéttbýli, hjólastígum í dreifbýli og grænum rýmum og útivistarsvæðum.

Matthildur kynnti verkefnið á fjórða fundi morgunfundaraðar Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu sem fram fór í mars. Fundurinn var tileinkaður lýðheilsu og þeirri spurningu hvernig skipulag geti stuðlað að heilsuvænni byggð.

Lýðheilsa og skipulag – samantekt fyrir Skipulagsstofnun vegna mótunar landsskipulagsstefnu um lýðheilsu