Fara beint í efnið

Landsskipulag

Loftslagsbreytingar, húsnæðismál og orkuskipti meðal viðfangsefna í drögum að nýrri landsskipulagsstefnu

21. september 2023

Loftslagsbreytingar, húsnæðismál og orkuskipti meðal viðfangsefna í drögum að nýrri landsskipulagsstefnu

Drög að hvítbók um skipulagsmál hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er lögð fram endurskoðuð landsskipulagsstefna til fimmtán ára ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 31. október nk. Stefnudrögin verða einnig kynnt og rædd á Skipulagsdeginum sem haldinn verður 19. október.

Í landsskipulagsstefnu er sett fram stefna ríkisins um skipulagsmál á landsvísu. Hún tekur til hálendis Íslands, dreifbýlis, þéttbýlis og haf- og strandsvæða. Stefnan byggist á eftirfarandi framtíðarsýn í skipulagsmálum: „Að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun og lífsgæðum, styðji samkeppnishæfni og sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Það er afskaplega ánægjulegt að nú liggi fyrir drög að nýrri landskipulagsstefnu til fimmtán ára með skýrum markmiðum og aðgerðum til að fylgja henni eftir. Kröfur til skipulagsgerðar eru nú fleiri en þegar gildandi landsskiplagsstefna var lögð fram á Alþingi haustið 2015. Tekið hefur verið mið af fleiri áætlunum og opinberum stefnum og Ísland hefur einnig undirgengist fleiri alþjóðaskuldbindingar sem hafa þýðingu fyrir skipulagsmál. Stefnan setur einnig fram skýr viðfangsefni í takt við mikilvæg viðfangsefni samfélagsins, þ.á m. loftslagsmál, húsnæðismál, landnotkun og orkuskipti, svo aðeins nokkur séu nefnd. Mikilvægt er að fá góða umræðu um þessar tillögur í samfélaginu og á Alþingi á haustþingi,“ segir Sigurður Ingi.

Samræmd stefna fyrir landið í heild

Landsskipulagsstefnu er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingar. Þannig er landsskipulagsstefnu fyrst og fremst framfylgt með skipulagsgerð sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana.

Níu viðfangsefni

Í hvítbókinni eru skilgreind níu lykilviðfangsefni landsskipulagsstefnu. Þau eru:

  1. Loftslagsbreytingar

  2. Jafnvægi í uppbygging húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi.

  3. Uppbygging þjóðhagslegra mikilvægra innviða

  4. Landnotkun í dreifbýli

  5. Landnotkun á miðhálendi Íslands

  6. Orkuskipti í samgöngum og fjölbreyttir ferðamátar

  7. Skipulag haf og strandsvæða

  8. Skipulag vindorku

  9. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni

Markmið landsskipulagsstefnu

Í tillögu um landsskipulagsstefnu eru sett fram þrjú markmið stjórnvalda í skipulagsmálum sem byggjast á sjálfbærri þróun og hafa skýra tengingu við framtíðarsýn og meginmarkmið ráðuneytisins, en þau felast í:

  1. Vernd umhverfis og náttúru

  2. Góðu samfélagi

  3. Samkeppnishæfu atvinnulífi

Sautján aðgerðir til fimm ára

Í hvítbók um skipulagsmál eru settar fram samtals 17 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum landsskipulagsstefnu. Aðgerðirnar miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum.

Nánar um verkefnið

Húsnæðis- og skipulagsráð í samstarfi við Skipulagsstofnun vann tillögu að landsskipulagsstefnu og aðgerðaáætlun í samræmi við áherslur ráðherra. Ráðherraskipuð ráðgjafarnefnd var einnig húsnæðis- og skipulagsráði og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við endurskoðun landsskipulagsstefnu.

Þessi frétt birtist fyrst á vef innanríkisráðuneytisins.