Landsskipulag
Loftslag, landslag, lýðheilsa
8. febrúar 2019
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Skipulagsstofnun að vinna að mótun skipulagsstefnu um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu sem komi til viðbótar við Landsskipulagsstefnu 2015−2026 sem samþykkt var á Alþingi árið 2016.
Gert er ráð fyrir að Landsskipulagsstefna 2015−2026 gildi áfram en að mótuð verði nánari stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Jafnframt verði gildandi stefna um skipulagsmál haf- og strandsvæða yfirfarin og litið til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við mótun stefnunnar.
Landsskipulagsstefna er unnin á grundvelli skipulagslaga. Umhverfis- og auðlindaráðherra felur Skipulagsstofnun gerð tillögu að landsskipulagsstefnu en skipar jafnframt ráðgjafarnefnd sem er Skipulagsstofnun til ráðgjafar við mótun stefnunnar. Áætlað er að Skipulagsstofnun skili tillögu sinni til umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2020.
Ráðgjafarnefnd
Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í desember sl. ráðgjafarnefnd sem skal vera Skipulagsstofnun til ráðgjafar við mótun tillögunnar. Ráðgjafarnefndin kom saman til fyrsta fundar nú í lok janúar og má segja að það marki upphaf nýs landsskipulagsferlis.
Í ráðgjafarnefndinni sitja:
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, formaður, skipuð án tilnefningar.
Sigrún Birna Sigurðardóttir, skipuð án tilnefningar.
Arnór Snæbjörnsson, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Erla Sigríður Gestsdóttir, tilnefnd af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hanna Dóra Hólm Másdóttir, tilnefnd af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Hrafnkell Á. Proppé, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Sigurður Örn Guðleifsson, tilnefndur af forsætisráðherra.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, áheyrnarfulltrúi, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Samráðsvettvangur
Sem fyrr verður starfræktur samráðsvettvangur við mótun landsskipulagsstefnu. Aðilar sem skrá sig á samráðsvettvanginn fá sendar upplýsingar um framvindu verkefnisins, útgáfu nýs efnis og um kynningar- og samráðsfundi. Allir sem hafa áhuga á að fylgjast með starfinu geta skráð sig á samráðsvettvanginn á hér.
Kynning lýsingar og samráð um áherslur
Áformað er að kynna lýsingu fyrir verkefnið í mars næstkomandi. Þar verður gerð grein fyrir þeim viðfangsefnum sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fyrir, sem og hvernig fyrirhugað er að standa að mótun tillögunnar hvað varðar efnistök, umhverfismat og samráð. Lýsingin verður kynnt á vefnum og á kynningarfundum út um landið. Á sömu fundum verður boðið til samráðs um hvaða áherslur eigi að setja á oddinn við mótun stefnunnar. Kynning lýsingar og samráðsfundir verða auglýstir á næstu vikum.