Landsskipulag
Landsskipulagstillaga afhent umhverfis- og auðlindaráðherra
5. mars 2021
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, hefur afhent Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, tillögu Skipulagsstofnunar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026. Afhendingin fór fram, með skírskotun til áherslna tillögunnar, í fallegu bæjarrými í góðu göngufæri við ráðuneytið, Lýðveldisgarðinum við Hverfisgötu.
Í tillögunni er sett fram stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Þær áherslur sem þar eru settar fram fléttast með ýmsum hætti saman við viðfangsefni gildandi landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 og tekur til skipulagsmála á miðhálendinu, í dreifbýli og þéttbýli og á haf- og strandsvæðum. Tillagan felur einnig í sér viðbætur við gildandi landsskipulagsstefnu varðandi skipulag haf- og strandsvæða.
Loftslagsmiðað skipulag
Í tillögu Skipulagsstofnunar er sjónum beint að því hvernig beita má skipulagsgerð sveitarfélaga á markvissan hátt til að vinna að markmiðum stjórnvalda um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu. Í tillögunni eru sett fram leiðarljós og leiðbeiningar til sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingu, bæði í þéttbýli og dreifbýli, og því beint til sveitarfélaga að nýta þá yfirsýn og langtímahugsun sem skipulagsgerð gefur kost á til að marka sér stefnu og beina þróun byggðar og landnýtingu í viðeigandi átt.
Tillagan gerir meðal annars ráð fyrir því að sveitarfélög setji sér stefnu um loftslagsmiðað skipulag, en með því er átt við að skipulag stuðli að kolefnishlutleysi og viðnámsþrótti gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Í loftslagsmiðuðu skipulagi eru loftslagsmarkmið höfð í forgrunni við útfærslu byggðar og landnotkunar og skipulagsgerð þannig beitt til að stuðla að breyttum ferðavenjum, loftslagsvænni mannvirkjagerð og varðveislu og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri, svo dæmi séu nefnd. Loftslagsmiðað skipulag getur farið vel saman við önnur samfélagsleg markmið þegar unnið er að þróun byggðar, svo sem um heilsu og vellíðan íbúa, grænna umhverfi, fjölbreytt og lifandi bæjarrými og blómlegt mannlíf.
20 mínútna bærinn og grænir innviðir
Við gerð tillögunnar var leitast við að útfæra eins og kostur er stefnu sem miðar í senn að ávinningi varðandi loftslagsmál, lýðheilsu og landslag. Tilteknar hugmyndir sem skila slíkum margþættum ávinningi koma því endurtekið fyrir í tillögunni. Þar má nefna skipulagshugmyndina um 20 mínútna bæinn sem getur allt í senn stuðlað að loftslagsvænum samgöngum, fjölbreyttum og lifandi bæjarrýmum og aukinni hreyfingu í daglegu lífi. Hugmyndin endurspeglast meðal annars í markmiðum tillögunnar um að hið byggða umhverfi dragi úr ferðaþörf og skapi forsendur fyrir göngu og hjólreiðum og öðrum vistvænum ferðamátum. Einnig má nefna áherslu á græna innviði, en auk þess að stuðla að bindingu kolefnis og viðnámsþrótti gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga geta grænir innviðir fegrað og bætt umhverfið, hvatt til útivistar og hreyfingar og aukið heilnæmi umhverfisins.
Samhljómur í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga
Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið sem sveitarfélögum ber að taka mið af við skipulagsgerð. Hlutverk landsskipulagsstefnu er einnig að samþætta áætlanir opinberra aðila sem varða þróun byggðar og landnýtingu. Þannig á landsskipulagsstefna að stuðla að auknu samræmi í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga. Liður í því er að efla stuðning ríkisins við skipulagsvinnu sveitarfélaga og gerir tillagan ráð fyrir því að Skipulagsstofnun standi fyrir gerð margvíslegra leiðbeininga og fræðsluefnis, meðal annars um loftslagsmiðað skipulag og mat á loftslagsáhrifum við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og annarra áætlana hins opinbera. Tillagan gerir auk þess ráð fyrir ýmsum öðrum framfylgdarverkefnum sem geta verið mikilvægur grundvöllur fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga. Má þar nefna verkefni sem fela í sér greiningu byggðaþróunar á vinnusóknar- og þjónustusvæði höfuðborgarsvæðisins, miðlun upplýsinga um loftslagsvæna landnotkun, flokkun og kortlagningu landslagsgerða og úttekt á áhrifum almennings á ákvarðanatöku um uppbyggingu og skipulagsmál.
Næstu skref
Mótun landsskipulagstillögunnar hefur farið fram í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök og hefur almenningur haft tækifæri til að koma á framfæri ábendingum á ýmsum stigum vinnunnar. Drög að tillögunni sem nú er afhent ráðherra lágu frammi til kynningar í átta vikur frá nóvember 2020 og fram í janúar 2021 og bárust Skipulagsstofnun á fimmta tug umsagna sem hafðar voru til hliðsjónar við lokavinnslu tillögunnar. Nánari upplýsingar um landsskipulagsferlið, gögn úr ferlinu og innsendar umsagnir má finna á vefsíðu landsskipulagsstefnu, landsskipulag.is.
Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur nú tillögu Skipulagsstofnunar til skoðunar og áætlar að leggja fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á Alþingi á yfirstandandi þingi. Landsskipulagsstefna öðlast gildi þegar hún hefur verið samþykkt sem þingsályktun.
Tillaga Skipulagsstofnunar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026
Umhverfismat viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026
Umsögn Skipulagsstofnunar um framkomnar athugasemdir við auglýsta tillögu