Hafskipulag
Ný lög um skipulag haf- og strandsvæða
5. júlí 2018
Tekið hafa gildi ný lög um skipulag haf- og strandsvæða nr. 88/2018 sem samþykkt voru á Alþingi 12. júní síðastliðinn. Lögin fela annarsvegar í sér að setja skuli fram almenna stefnu um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum og hinsvegar að gera skuli nánara svæðisbundið skipulag á tilteknum svæðum við strendur landsins.
Móta skal stefnu um skipulag haf- og strandsvæða innan efnahagslögsögunnar (200 sjómílur). Stefnan verður hluti af landsskipulagsstefnu, sem unnin er á grundvelli skipulagslaga.
Strandsvæðisskipulag skal unnið fyrir afmörkuð svæði við strendur landsins, en strandsvæðisskipulag er skipulagsáætlun sem tekur til fjarða og flóa á tilteknu svæði, frá netlögum að annesjum. Fyrst skal unnið strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði og Vestfirði. Þar verður mörkuð stefna og sett ákvæði um nýtingu og vernd viðkomandi svæðis, hliðstætt því sem gert er á landi í aðal- og svæðisskipulagi. Það getur til dæmis varðað orkuvinnslu á hafi, eldi nytjastofna, efnistöku, vernd, siglingaleiðir og ferðaþjónustu.
Umhverfis- og auðlindaráðherra mun skipa svæðisráð um gerð hvers strandsvæðisskipulags. Í svæðisráðum munu eiga sæti fulltrúar ráðuneyta og sveitarfélaga sem lögsögu eiga að viðkomandi strandsvæði, auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá skipar ráðherra einnig samráðshóp við gerð strandsvæðisskipulags, sem í sitja fulltrúar ferðamála-, útivistar- og umhverfisverndarsamtaka auk fulltrúa Samtaka atvinnulífsins.
Skipulagsstofnun verður svæðisráðum til ráðgjafar og mun annast gerð strandsvæðisskipulags i þeirra umboði. Stofnunin mun einnig annast gerð tillögu að stefnu um skipulag haf- og strandsvæða sem hluta af landsskipulagsstefnu.
Auk ofangreinds kveða lögin á um að leyfisveitendur skuli senda Skipulagsstofnun upplýsingar um útgefin leyfi á haf- og strandsvæðum sem verði birt í landupplýsingagátt á vef stofnunarinnar.
Í sumar verður unnið að reglugerð á grundvelli hinna nýju laga, sem og að undirbúningi vinnu að gerð strandsvæðisskipulags fyrir Austfirði og Vestfirði. Nánari upplýsingar verða birtar um þetta efni á vef Skipulagsstofnunar þegar líður fram á haustið.
Lög um skipulag haf- og strandsvæða