Fara beint í efnið

Hafskipulag

Landsskipulagstillaga afhent umhverfis- og auðlindaráðherra

5. mars 2021

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, hefur afhent Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, tillögu Skipulagsstofnunar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026. Í tillögunni er sett fram stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Þær áherslur sem þar eru settar fram fléttast með ýmsum hætti saman við viðfangsefni gildandi landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 og tekur til skipulagsmála á miðhálendinu, í dreifbýli og þéttbýli og á haf- og strandsvæðum.

img 3117 nota

Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur nú tillögu Skipulagsstofnunar til skoðunar og áætlar að leggja fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á Alþingi á yfirstandandi þingi. Landsskipulagsstefna öðlast gildi þegar hún hefur verið samþykkt sem þingsályktun.

Viðbætur við gildandi stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum

Í 4. kafla gildandi Landsskipulagsstefnu 2015–2026 er mörkuð stefna um skipulag haf- og strandsvæða og er sú stefna grundvöllur fyrir gerð strandsvæðisskipulags. Landsskipulagstillagan sem nú hefur verið afhent ráðherra felur í sér, auk nýrra kafla um loftslag, landslag og lýðheilsu, viðbætur við stefnuna um skipulag á haf- og strandsvæðum. Tilgangur breytinganna er annars vegar að skerpa á áherslum stefnu um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða og hins vegar að fjalla um á hvaða afmörkuðu svæðum skuli gera strandsvæðisskipulag.

Gagnagátt og kortavefsjá um útgefin leyfi

Í tillögunni er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun setji á stofn gagnagátt og kortavefsjá um útgefin leyfi fyrir framkvæmdum og annarri starfsemi á haf- og strandsvæðum. Lagður var grunnur að þessu verkefni í lögum um skipulag haf- og strandsvæða, en leyfisveitendum ber samkvæmt lögunum að senda Skipulagsstofnun upplýsingar um öll útgefin leyfi á haf- og strandsvæðum. Miðað er við að vefsjáin verði komin í rekstur á árinu 2022 og verði aðgengileg á hafskipulag.is. Einnig kemur til álita að hún verði hluti nýrrar samráðs- og upplýsingagáttar um skipulag og framkvæmdir sem einnig er fjallað um í tillögunni.

Áhrif loftslagsbreytinga

Í samræmi við markmið laga um skipulag haf- og strandsvæða er í tillögunni sett fram stefna um að við gerð strandsvæðisskipulags verði tekið mið af bestu fáanlegu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga, svo sem um breytingar á sjávarborði og röskun á búsvæðum. Þessi viðbót við stefnu um skipulag haf- og strandsvæða kallast á við aðra umfjöllun landsskipulagstillögunar um loftslagsmál, en meðal meginmarkmiða hennar er að skipulag byggðar, samgangna og landnotkunar stuðli að kolefnishlutleysi og efli viðnámsþrótt byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga.

Gerð strandsvæðisskipulags – afmörkun nýrra svæða

Einn tilgangur stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum er að segja fyrir um á hvaða svæðum verði unnið að gerð standsvæðisskipulags. Í tillögu Skipulagsstofnunar er lagt til að unnið verði strandsvæðisskipulag í Eyjafirði og á Skjálfanda, en beiðni um það hefur borist frá annars vegar svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar og hins vegar Norðurþingi. Aðstæður á báðum þessum svæðum eru taldar kalla á samþættingu ólíkrar nýtingar og verndarsjónarmiða, en þar fer nú fram fjölbreytt starfsemi, auk þess sem áform eru um nýja starfsemi og auðlindanýtingu.

Samkvæmt skipulagslögum ákveður umhverfis- og auðlindaráðherra sameiginlega með ráðherrum sjávarútvegsmála, orkumála, ferðamála og samgöngumála á hvaða afmörkuðu svæðum skuli sett fram áform um að vinna strandsvæðisskipulag. Nú þegar liggur fyrir afstaða ráðherranna um að gert skuli strandsvæðisskipulag í Eyjafirði. Þeir hafa hinsvegar ekki tekið afstöðu til tillögu um að unnið verði strandsvæðisskipulag á Skjálfanda, en þess er að vænta að niðurstaða þeirra um það liggi fyrir áður en tillaga að landsskipulagsstefnu verður lögð fyrir Alþingi.

strandsvaedi bls -22

Í landsskipulagstillögunni er jafnframt lagt til að Skipulagsstofnun standi fyrir heildstæðu mati á landsvísu á þörf fyrir gerð strandsvæðisskipulags á afmörkuðum svæðum og setji fram tillögu um forgangsröðun svæða fyrir næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu.

Mótun tillögunnar

Mótun landsskipulagstillögunnar hefur farið fram í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök og hefur almenningur haft tækifæri til að koma á framfæri ábendingum á ýmsum stigum vinnunnar. Drög að tillögunni sem nú hefur verið afhent ráðherra lágu frammi til kynningar í átta vikur frá nóvember 2020 og fram í janúar 2021 og bárust Skipulagsstofnun á fimmta tug umsagna sem hafðar voru til hliðsjónar við lokavinnslu tillögunnar. Nánari upplýsingar um landsskipulagsferlið, gögn úr ferlinu og innsendar umsagnir má finna á vefsíðu landsskipulagsstefnu, landsskipulag.is.