Forsetakosningar 2024
Umboðsmenn frambjóðenda
Umboðsmenn frambjóðenda og aðstoðarmenn þeirra
Umboðsmenn eru fulltrúar framboðs við kosningar og hlutverk þeirra er að fylgjast með að framkvæmd kosninga sé í samræmi við kosningalög og reglugerðir settar samkvæmt þeim.
Umboðsmaður skal sinna hlutverki sínu af kostgæfni og gæta þess að valda ekki röskun eða truflun á framkvæmd kosninga, flokkun eða talningu atkvæða.
Umboðsmenn geta gert athugasemdir við kjörstjórn og kjörstjóra ef þeir telja eitthvað athugavert við framkvæmd kosninga og bókað athugasemdir sínar í gerðabækur.
Umboðsmenn skulu bera skilríki sem gefin eru út af yfirkjörstjórnum við störf sín. Þannig geta kjörstjórar, kjörstjórnir og kjósendur áttað sig á að þeir komi fram sem slíkir. Skilríkin skulu að jafnaði vera tilbúin þegar utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst.
Almennt fá umboðsmenn tilkynningar og boðanir í tölvupósti nema ef frestir eru skammir, þá með símtali.
Umboðsmenn mega m.a.:
Innsigla öll gögn sem kjörstjórn/kjörstjóri innsiglar. (10. gr. umb.rgl.)
Bóka athugasemdir sem þeir hafa í gerðabækur kjörstjórna og skrá kjörstjóra. (11. gr. umb.rgl.)
Vera viðstaddir:
fund um gildi framboðs, (12. gr. umb.rgl.)
atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi sem og undirbúning og frágang á kjörfundi, (16. gr. og 1. mgr. 19. gr. umb.rgl.)
þegar kjörstjórn opnar atkvæðakassa með utankjörfundaratkvæðum frá kjörstjórum og þegar kjörstjórar flokka atkvæði úr samnýttum atkvæðakössum, (18. gr. umb.rgl.)
flokkun atkvæða og talningu, (21. gr. umb.rgl.)
fund landskjörstjórnar um gildi ágreiningsseðla og lýsingu úrslita kosninganna. (28. gr. umb.rgl.)
Umboðsmenn mega m.a. ekki:
vera viðstaddir atkvæðagreiðslu í heimahúsi (16. gr. umb.rgl.)
trufla framgang kosninga, flokkunar atkvæða eða talningar, (29. gr. umb.rgl.)
koma með eða hafa á brott með sér gögn er varða kosninguna úr kjörfundarstofu (1. mgr. 15. gr. umb.rgl.)
taka upp, mynda eða miðla með öðrum hætti út úr kjörfundarstofu um það sem þar fer fram (2. mgr. 15. gr. umb.rgl.)
taka með sér síma, tölvu, heyrnatól, snjallúr eða annað fjarskiptatæki við flokkun og undirbúning talningar, (3. mgr. 22. gr. umb.rgl.)
Vera í beinum samskiptum við starfsfólk sem vinnur að flokkun og talningu (nema yfirkjörstjórn heimili annað), (1.mgr. 22. gr. umb.rgl.)
Umboðsmenn eru boðaðir sérstaklega eða fá tilkynningu um:
hvar og hvenær fundur um yfirferð framboðs fer fram og þegar gerð er grein fyrir meðferð á einstökum framboðum (12. gr. og 14. gr. umb.rgl.)
hvar og hvenær kjörstjóri innsiglar atkvæðakassa - með fyrirvara ef því verður við komið, (3. mgr. 10. gr. umb.rgl.)
þegar kjörstjóri rýfur innsigli og flokkar atkvæði úr samnýttum atkvæðakössum fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög innan umdæmis hans, (2. mgr. 18. gr. umb.rgl.)
hvenær áætlað er að skipta um atkvæðakassa á kjördag, ef það er gert, (5. mgr. 10. gr. umb.rgl.)
hvar og hvenær flokkun atkvæða og talning fer fram – a.m.k. sjö dögum fyrir kjördag, (1. mgr. 20. gr. umb.rgl.)
þegar kjörstjórn opnar atkvæðakassa sem henni berst frá kjörstjórum. (1. mgr. 21. gr. umb.rgl.)
Innsiglun
Umboðsmönnum er heimilt að setja innsigli sín á öll þau kjörgögn, atkvæðakassa og annað sem kjörstjórn og kjörstjóri innsigla samkvæmt kosningalögum og reglum um gerðabækur og innsigli.
Kjörstjóri skal tilkynna umboðsmönnum með hæfilegum fyrirvara áður en atkvæðakassar eru innsiglaðir, nema óhjákvæmilegt sé að innsigla þá án tafar (t.d. ef þeir fyllast hraðar en von var á).
Innsigli framboða skulu ekki skilja eftir sig far á yfirborði, vera merkt framboðum eða vera í sama eða svipuðum lit og innsigli landskjörstjórnar. Innsigli umboðsmanna skulu ekki hylja innsigli kjörstjóra eða kjörstjórna.
Við utankjörfundaratkvæðagreiðslu er umboðsmönnum heimilt að setja innsigli sín á atkvæðakassa óháð kjördæmi eða sveitarfélagi.
Dæmi: umboðsmaður í Reykjavík norður getur sett innsigli sín á alla atkvæðakassa sem eru á utankjörfundarstað í Holtagörðum, þótt þeir séu merktir Reykjavík suður, Kópavogi, Hafnarfirði o.s.frv. og umboðsmaðurinn sé ekki umboðsmaður í þeim kjördæmum.
Bókanir
Umboðsmenn eiga rétt á að fá athugasemdir sínar og ágreining milli þeirra og kjörstjórna eða kjörstjóra bókaðan í gerðabók kjörstjórnar eða í skrá kjörstjóra. Þeir skulu leitast við að hafa bókanirnar stuttar og skýrar. (11. gr. umb.rgl.)
Ef kjörstjórn eða kjörstjóri neitar að bóka eitthvað eiga umboðsmenn rétt til þess að bóka það sjálfir og undirrita. (57. gr. kosningalaga)
Reglur um gerðabækur og innsigli má finna hér þar sem farið er yfir hvað kjörstjórnum er skylt að bóka.
Atkvæðagreiðsla
Atkvæðagreiðsla utankjörfundar og á kjördag Umboðsmenn mega vera viðstaddir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjördegi og við undirbúning kjörstjórna að morgni kjördags og þegar kjörfundi er slitið. Þeir skulu tilkynna sig þegar þeir mæta á staðinn og þegar þeir fara. Umboðsmenn mega ekki vera viðstaddir atkvæðagreiðslu í heimahúsi.
Umboðsmenn mega:
sitja við borð í kjörfundarstofu og hafa aðstöðu við utankjörfundaratkvæðagreiðslu.
fá aðgang að merkingum kjörstjóra í skrá sína og aðgang að kjörskrám í kjörfundarstofu og leiðbeiningar um kosningarnar.
Umboðsmenn mega ekki:
merkja við kjósendur í kjörskrá.
koma með eða hafa á brott með sér gögn er varða kosninguna úr kjörfundarstofu.
taka upp, mynda eða miðla með öðrum hætti upplýsingum um það sem fer fram í kjörfundarstofu eða utan kjörfundar.
Ef umboðsmenn fara ekki að fyrirmælum getur þeim verið vikið af kjörstað.
Flokkun og talning atkvæða
Ekki síðar en sjö dögum fyrir kjördag fá umboðsmenn tilkynningu frá yfirkjörstjórn kjördæmis um hvar og hvenær flokkun og talning fer fram. Þeir eiga rétt á að vera viðstaddir alla þessa framkvæmd og fylgjast með henni. (20. og 21. gr. umb.rgl.)
Móttaka utankjörfundaratkvæða
Kjörstjórn boðar umboðsmenn þegar hún opnar atkvæðakassa frá kjörstjórum og þegar kjörstjóri flokkar og afhendir kjörstjórn utankjörfundaratkvæði úr samnýttum atkvæðakassa (þegar einn kassi er notaður fyrir mörg sveitarfélög) (5. mgr. 77. gr. kosningalaga og 18. gr. umb. rgl.) Allt sem varðar flokkun og talningu er viðkvæmt ferli þar sem mikilvægt er að ró og friður ríki og athygli starfsfólks ekki trufluð. Þess vegna eru ákveðnar skorður settar við því hvernig eftirliti umboðsmanna á talningarstað er háttað en eftirlit þeirra er þó afskaplega mikilvægt og mikilvægt að yfirkjörstjórnir virði það. (23. gr. umb.rgl.)
Yfirkjörstjórn heldur upplýsingafund með umboðsmönnum um flokkun og talningu atkvæða þar sem farið er yfir hlutverk allra aðila, reglur og heimildir umboðsmanna. (9. gr. umb. rgl.)
Umboðsmenn eiga að fá aðstöðu á flokkunar- og talningarstað. (2. mgr. 20. gr. umb.rgl.)
Óheimilt er að hafa með sér síma, tölvu, heyrnartól, snjallúr eða annað fjarskiptatæki og hvers konar myndavélar eða hljóðupptökutæki við flokkun atkvæða. Þetta er gert svo ekki sé hægt að koma upplýsingum frá flokkunarstað sem haft geta áhrif á kosninguna, því kjörstaðir eru enn opnir þegar flokkun fer fram. (3. mgr. 22. gr. umb.rgl.)
Sé grunur um að umboðsmaður hafi slík tæki í fórum sínum og neiti hann að afhenda yfirkjörstjórn tækið er honum óheimilt að vera viðstaddur flokkun atkvæða og talningu.
Umboðsmenn fá tengilið frá yfirkjörstjórn sem þeir eiga að vera í samskiptum við en ekki starfsfólk sem vinnur að flokkun og talningu (nema yfirkjörstjórn heimili það sérstaklega). Þetta er gert til þess að ekki verði truflun við flokkun og talningu. (1. mgr. 22. gr. umb. rgl.) Yfirkjörstjórn þarf að tryggja að umboðsmenn geti með góðu móti fylgst með flokkun og talningu atkvæða án þess þó að þeim sé heimilt að fara inn á afmarkað flokkunar- og talningarsvæði. (23. gr. umb.rgl.)
Umboðsmenn mega vera viðstaddir þegar yfirkjörstjórn úrskurðar um hvort kjörseðill er gildur eða ógildur og þegar utankjörfundaratkvæði eru tekin til úrskurðar. à Almennt er úrskurðað um vafaatkvæði jafnóðum og þau koma fyrir en yfirkjörstjórn er heimilt að úrskurða um vafaatkvæði í fyrstu og annarri talningarlotu saman í lok síðari talningarlotu séu umboðsmenn sammála því. (1. mgr. 20.gr. talningarreglugerðar)
Kjörseðill telst vera ógildur séu yfirkjörstjórn og umboðsmenn sammála því. (2. mgr. 20.gr. talningarreglugerðar)
Ef ágreiningur er um það hvort kjörseðill sé gildur milli yfirkjörstjórna og umboðsmanna er seðillinn sendur í sérstöku umslagi til landskjörstjórnar til úrskurðar með upplýsingum um ágreininginn. (5. mgr. 20.gr. talningarreglugerðar)
Ef umboðsmenn eru ekki viðstaddir undirbúning talningar eða talningu skal yfirkjörstjórn kalla til fólk úr sama framboði til að gæta réttar framboðsins. Gangi það ekki eftir skal yfirkjörstjórn engu að síður tryggja að einhver sé viðstaddur til að gæta hagsmuna framboðsins (2. mgr. 21. gr. umb.rgl.)
Ef hlé er gert á talningu eða fundi er frestað á meðan á talningu stendur skulu umboðsmenn yfirgefa talningarsvæði. Yfirkjörstjórn ber að tryggja að kjörgögn séu varðveitt með öruggum hætti og fyrir luktum, innsigluðum dyrum. (21. gr. talningarreglugerðar)
Kjörstjórn eða kjörstjóri hefur heimild til þess að vísa umboðsmanni af kjörstað eða talningarstað ef umboðsmaður lætur ekki af hegðun sem veldur röskun eða truflun á framkvæmd kosninga. (2. mgr. 29. gr. umb. rgl.)
Niðurstaða talningar
Athugið að niðurstaða talningar er ekki það sama og kosningaúrslit.
Kosningaúrslitum er lýst á fundi landskjörstjórnar sem auglýstur er með 14 daga fyrirvara eftir að gögn frá yfirkjörstjórnum hafa borist landskjörstjórn. (2. mgr. 120. gr. kosningalaga) Yfirkjörstjórn færir niðurstöðu talningar í gerðabók þegar atkvæði hafa verið talin undir eftirliti umboðsmanna. (22. gr. talningarreglugerðar)
Kosningaúrslit
Umboðsmenn eiga rétt á að vera viðstaddir fund landskjörstjórnar þegar hún úrskurðar um gildi ágreiningsseðla og lýsir úrslitum kosningarinnar. (1. mgr. 28. gr. umb. rgl.) Landskjörstjórn auglýsir þennan fund með 14 daga fyrirvara eftir að hún hefur fengið gögn frá yfirkjörstjórnum. (120. gr. kosningalaga)
Sé ágreiningur milli umboðsmanna og landskjörstjórnar um ágreiningsseðla og úrslit kosninga eiga umboðsmenn rétt á að fá ágreininginn bókaðan í gerðabók landskjörstjórna. (2. mgr. 29.gr. talningarreglugerðar)
Ef það er munur á því sem stendur í lögum, reglugerðum, reglum, fyrirmælum eða öðru og því sem hér stendur þá gang þau alltaf framar en þessar leiðbeiningar. Nánar er farið yfir réttindi og skyldur umboðsmanna í 53.-59. gr. kosningalaganna og reglugerð um réttindi og skyldur umboðsmanna nr. 499/2024. Mikilvægt er að umboðsmenn kynni sér öll þau lög, reglugerðir, reglur og fyrirmæli sem um kosningar gilda.