Forsetakosningar 2024
Rafræn söfnun meðmæla í forsetakosningum
1. mars 2024
Opnað hefur verið fyrir rafræna söfnun meðmæla fyrir forsetaframboð á Ísland.is.
Opnað hefur verið fyrir rafræna söfnun meðmæla fyrir forsetaframboð á Ísland.is. Frambjóðendur geta stofnað söfnun með rafrænum skilríkjum og að því loknu deilt hlekk með kjósendum á söfnunina. Kjósendur geta þá mælt með frambjóðandanum eða öðrum sem eru í framboði. Aðeins má mæla með einum frambjóðanda. Ef meðmælendur skipta um skoðun er hægt að draga fyrri meðmæli til baka og mæla með öðrum frambjóðanda þangað til söfnuninni er lokað. Eftir það er ekki hægt að draga meðmælin til baka.
Hver frambjóðandi þarf að skila inn 1.500 – 3.000 meðmælum, skipt eftir landsfjórðungum. Fjöldi meðmæla í hverjum fjórðungi skiptist svona:
Sunnlendingafjórðungur: 1.233 til 2.465.
Vestfirðingafjórðungur: 56 til 112.
Norðlendingafjórðungur:157 til 314.
Austfirðingafjórðungur: 54 til 109.
Frambjóðendum er einnig heimilt að safna meðmælum á blaði. Mælst er til þess að þeir frambjóðendur sem safna meðmælum þannig skili einnig inn kennitölum meðmælenda í töflureikni (t.d. Excel formi) til þess að auðvelda yfirferð. Skila þarf inn frumgögnunum þegar tilkynnt er um framboð. Listinn með kennitölum verður keyrður inn í meðmælakerfið á Ísland.is þegar framboðsfresti lýkur til yfirferðar. Það er einnig gert til þess að kanna hvort einstaklingar hafi mælt með tveimur framboðum, en þá ógildast bæði meðmælin. Hægt er að nálgast sniðmát fyrir innsláttinn á kosning.is.
Landskjörstjórn mun taka við framboðstilkynningum þann 26. apríl næstkomandi og þann 2. maí verður auglýst hver eru í framboði.
Söfnun rafrænna meðmæla er samstarfsverkefni Stafræns Íslands, landskjörstjórnar og Þjóðskrár Íslands. Þjóðskrá veitir aðstoð við notkun kerfisins á kosningar@skra.is eða í síma 515 5300.
Nánari upplýsingar um forsetakosningarnar 2024 er að finna á kosning.is