Fara beint í efnið

Forsetakosningar 2024

Atkvæðagreiðsla á kjörstað

Kosning á kjördag

Sá staður sem kosið er á kallast kjörstaður. Kjósandi kýs á kjörstað í því sveitarfélagi sem hann á lögheimili í.

Hér er hægt að fletta upp hvar kjósandi á að kjósa.

Kjörstaðir eru almennt opnir frá 9 að morgni til 22 að kvöldi kjördags. 

Kjörstaðir geta verið opnir skemur en upplýsingar um opnunartíma má finna á heimasíðum sveitarfélaga.

Hvernig fer kosning fram?

Á kjörstað finnur kjósandi sína kjördeild, sem er afmarkað rými á kjörstaðnum. Raðað er í kjördeildir eftir heimilisföngum. Í minni sveitarfélögum er yfirleitt bara ein kjördeild. Listar með götuheitum og kjördeildum hanga uppi á kjörstöðum. Á flestum kjörstöðum er starfsfólk sem getur aðstoðað kjósendur við að finna rétta kjördeild, en hægt er að fá upplýsingar um í hvaða kjördeild kjósandi kýs hér.

Kjörstjórn tekur á móti kjósendum og biður um heimilisfang og skilríki, til dæmis ökuskírteini eða vegabréf, en kjósandi getur líka gert grein fyrir sér á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar. Hægt er að framvísa stafrænu ökuskírteini.

Kjörstjórn merkir við kjósanda í kjörskrá og afhendir kjörseðil. Kjósandi fer með kjörseðilinn í kjörklefa þar sem hægt er að kjósa án þess að nokkur sjái. 

Í kjörklefanum merkir kjósandi með skriffæri X í ferning fyrir framan þann valkost sem hann vill kjósa.

Hægt er að fá spjöld með blindraletri til þess að lesa og merkja við á kjörseðilinn. 

Þegar kjósandi hefur kosið er kjörseðilinn brotinn saman, farið úr kjörklefanum og kjörseðilinn settur í atkvæðakassa fyrir utan kjörklefann. 

Frambjóðendur til forseta 2024

Aðstoð við kosningu

Allir kjósendur geta fengið aðstoð við að kjósa og þurfa ekki að gefa neinar ástæður fyrir því. Kjósandi getur komið með eigin aðstoðarmann eða fengið aðstoð frá starfsfólki kosninga.

Ef kjósandi er með eigin aðstoðarmann þá gildir eftirfarandi:

  • Aðstoðarmaður þarf að fylla út sérstakt eyðublað sem afhent er á kjörstað.

  • Aðstoðarmaður má ekki vera frambjóðandi í kosningunum og ekki heldur maki, barn, systkini eða foreldri frambjóðanda.

  • Aðstoðarmaður má ekki aðstoða fleiri en þrjá kjósendur við sömu kosningar.

Ef kjósandi fær aðstoð við að kjósa á kjörstað stöðvar kjörstjórn alla umferð um kjördeildina á meðan kosningin fer fram til að tryggja að hún sé leynileg. Bókað er um aðstoðina í fundargerð.

Forsetakosningar 2024

Lands­kjör­stjórn

Hafðu samband

Sími: 540 7500

postur@landskjorstjorn.is

Heim­il­is­fang

Tjarnargata 4

101 Reykjavík

kt. 550222-0510