Fasteignafélagið Þórkatla
Upplýsingar um skil á seldu íbúðarhúsnæði til Þórkötlu
17. apríl 2024
Fasteignafélagið Þórkatla vill koma eftirfarandi upplýsingum til Grindvíkinga.
Mikilvægt er að hafa í huga að þó að lög um kaup Fasteignafélagsins Þórkötlu á fasteignum í Grindavík byggist á þeirri óvissu sem ríkir um byggð í Grindavík, þá vinnur félagið á þeim nótum að í framtíðinni verði þar aftur blómleg byggð. Félagið leggur áherslu á að taka við fasteignum Grindvíkinga í frambærilegu ásigkomulagi og mun eftir því sem aðstæður leyfa í framtíðinni leita eftir því að leigja eða selja Grindvíkungum eignirnar aftur. Því gerir félagið sömu almennu kröfur til skila á eignunum eins og í hverjum öðrum fasteignaviðskiptum.
Upplýsingar um skil á seldu íbúðarhúsnæði til Þórkötlu.
Fylgifé skal vera í samræmi við ákvæði í fasteignakaupalögum nr. 40/2002. Fylgifé íbúðarhúsnæðis eru varanlegar innréttingar og/eða búnaður sem er skeytt varanlega við fasteignina eða sérstaklega sniðin að henni skv. 24. gr. laganna.
Lögin innihalda ekki kröfu um að húsnæðið sé málað fyrir afhendingu.
Meðfylgjandi eru leiðbeiningar frá félagi fasteignasala og ákvæði kaupsamnings um fylgifé.
Stjórn Þórkötlu hefur þó ákveðið að seljanda sé heimilt, á sinn kostnað að fjarlægja rafhleðslustöðvar sem ætlaðar eru til hleðslu á bifreiðum, sé það gert samkvæmt lögmætum verkferlum um rafkerfi fasteigna.
Ákvæði kaupsamnings um fylgifé
Sé ekki um annað samið skal eign hafa þann búnað og réttindi sem tilgreind eru í 22. -24. gr. laga nr. 40/2002 og voru fyrir hendi þann 10. nóvember 2023, (eða síðar) og/eða eiga að fylgja samkvæmt kaupsamningi, öðrum gögnum eða venju, sbr. eftirfarandi upptalning, eftir því sem við á.
Í eldhúsi skal vera eldavél, ofn og vifta.
Í baðherbergi fylgja föst hengi, innréttingar og tæki svo og skápur yfir eða við vask.
Múr- og naglfastar uppistöður og hillur í geymslu fylgja.
Föst ljós og ljósakúplar skulu vera í eldhúsi, baðherbergi og sérþvottahúsi og a.m.k. eitt perustæði í hverju herbergi.
Eigninni skulu fylgja allar múr- og naglfastar innréttingar, spegilflísar, gluggatjaldastangir og festingar, en ekki gluggatjöld, þó fylgja rimla-, strimla- og rúllugluggatjöld.
Í bílskúr fylgir fastur ljósabúnaður, rafknúnir hurðaopnarar, svo og fastar hillur og skápar.
Í garði fylgja fastir geymsluskúrar, gufubað, heitir pottar og pallar.
Seljanda er heimilt, á sinn kostnað að fjarlægja rafhleðslustöðvar sem ætlaðar eru til hleðslu á bifreiðum, sé það gert samkvæmt lögmætum verkferlum um rafkerfi fasteigna.
Yfirlit yfir fylgifé fasteigna
Samkvæmt lista frá Félagi fasteignasala, enda hafi ekki verið um annað samið milli aðila.
Ísskápur, frystir, uppþvottavél, örbylgjuofn: Sérstæður ísskápur, frystir, uppþvottavél eða örbylgjuofn fylgja ekki með, nema þess sé sérstaklega getið í söluyfirliti. Ef að eldhústæki er inni í hluta af heildarútliti eldhússins er almennt um að ræða fylgifé þ.e. þegar t.d. föst hurð sem losa þarf frá er framan við innbyggt eldhústæki.
Baðinnréttingar: Speglar og hillur sem festar eru á vegg og teljast hluti innréttingar eru fylgifé fasteignar, nema annað sé tekið fram. Allt annað sem skeytt er við vegg eins og handklæðaofn og baðinnréttingar er fylgifé.
Herbergisskápar: Fastir fataskápar teljast fylgifé, enda séu þeir augljóslega hluti af innréttingum eignarinnar. Innréttingar inn í skápum, s.s. hillur, stangir og þess háttar eru fylgifé. Lausir fataskápar í herbergjum fylgja ekki með, nema um það sé getið í söluyfirliti.
Skápar/skenkur í stofu eða alrými: Þrátt fyrir að slíkir munir séu festir við vegg telst slíkt ekki fylgifé.
Ljós: Föst ljós og ljósakúplar skulu vera í eldhúsi, baðherbergi og sérþvottahúsi og a.m.k. eitt perustæði í hverju herbergi. Öll innfelld ljós í lofti, útiljós og garðlýsing telst fylgifé.
Teppi: Föst gólfteppi fylgja.
Arinn: Arinn, rafmagnsarinn og eldstæði fylgja með, óháð því hvernig þau eru fest.
Smarthúslausnir: Heildarlausnir fyrir ljósastýringu fasteignar og þess háttar er fylgifé.
Sjónvarp og fylgihlutir: Loftnet telst fylgifé. Auk þess fylgja aðrar tengingar sem nauðsynlegt er að séu til staðar fyrir sjónvarp og internet.
Gardínur: Rimla-, strimla-, rúllu-, og myrkvunargluggatjöld teljast fylgifé. Gardínur teljast ekki fylgifé, en gardínustangir skulu fylgja .
Bílskúr: Rafknúinn hurðaopnari, fastir skápar og hillur teljast fylgifé.
Ýmislegt utan húss: Flaggstöng auk annars sem að fest hefur verið niður eins og heitur pottur, leiktæki, útiarinn og markísa telst allt fylgifé fasteignar.
Tré, plöntur, garðrunnar: Telst fylgifé.