Alþingiskosningar 2024
Skil framboða
Framboðsfresti lýkur klukkan 12:00 þann 31. október.
Hægt er að skila framboðslistum rafrænt en landskjörstjórn mun einnig taka við framboðum í öllum sex kjördæmunum.
Ef öll gögn eru rafræn nægir að skila inn framboðum með rafrænum hætti. Þá verða allar undirritanir að vera fullgildar rafrænar undirritanir.
Rafræn skil framboða
Mælst er til þess að framboð fylli út framboðslista á vefnum, jafnvel þótt ekki öllum gögnum sé skilað rafrænt. Mikill vinnusparnaður er við yfirferð framboðslista hjá landskjörstjórn ef öllum gögnum er skilað rafrænt en athugið að hafa öll gögn við hendina þegar hafist er handa við umsóknina.
Móttaka framboða
Tekið verður við framboðum á eftirtöldum stöðum. Hægt er að skila framboðum óháð kjördæmum.
Miðvikudaginn 30. október:
Á skrifstofu landskjörstjórnar, að Tjarnargötu 4 í Reykjavík, klukkan 10:00 –12:00.
Í Salnum í Kópavogi, klukkan 09:00 – 11:00.
Í Setbergi í Hofi á Akureyri, klukkan 09:30 – 11.30.
Í Hjálmakletti í Borgarnesi, klukkan 16:00 – 18:00.
Í Betri Stofunni á Hótel Selfossi, klukkan 16:00 – 18:00.
Fimmtudaginn 31. október:
Í Stemmu í Hörpu, klukkan 10:00 – 12:00.
Á eftirtöldum skrifstofum sýslumanna, klukkan 10:00 – 12:00.
Sýslumanninum á Norðurlandi eystra, að Útgarði 1 á Húsavík.
Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, að Hnjúkabyggð 33 á Blönduósi.
Sýslumanninum á Suðurlandi, að Austurvegi 6 á Hvolsvelli.
Gögn sem þurfa að fylgja framboðum:
Tilkynning um framboð, þar sem fram koma upplýsingar um heiti stjórnmálasamtakanna og listabókstaf þeirra, samkvæmt skrá dómsmálaráðuneytisins.
Upplýsingar um hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans, ásamt samþykki þeirra.
Framboðslisti viðkomandi stjórnmálasamtaka, ásamt undirrituðu samþykki frambjóðenda fyrir því að fara í framboð.
Yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi.
Hægt er að taka skýrslu út úr meðmælakerfinu og skila með eða tiltaka ef meðmælum var safnað rafrænt.
Ef meðmælum er safnað á pappír þarf að skila frumriti til landskjörstjórnar. Mælst er til þess að frambjóðendur númeri hverja blaðsíðu og slái inn kennitölur meðmælenda í rafræna meðmælakerfið á Ísland.is til þess að auðvelda yfirferð.