Kjörstjórn tekur á móti kjósendum og biður um heimilisfang og skilríki, til dæmis ökuskírteini eða vegabréf, en kjósandi getur líka gert grein fyrir sér á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar. Hægt er að framvísa stafrænu ökuskírteini.
Kjörstjórn merkir við kjósanda í kjörskrá og afhendir kjörseðil. Kjósandi fer með kjörseðilinn í kjörklefa þar sem hægt er að kjósa án þess að nokkur sjái.
Í kjörklefanum merkir kjósandi með skriffæri X í ferning fyrir framan þann framboðslista sem hann vill kjósa.
Það má strika yfir einstaka frambjóðendur og breyta uppröðun frambjóðenda á þeim framboðslista sem kjósandi kýs.
Það má ekki breyta uppröðun annarra framboðslista, það ógildir kjörseðilinn ef það er gert.
Það má ekki skrifa neitt annað á kjörseðilinn, til dæmis tákn eða orð, það getur ógilt atkvæðið
Hægt er að fá spjöld með blindraletri til þess að lesa og merkja við á kjörseðilinn.
Þegar kjósandi hefur kosið er kjörseðilinn brotinn saman, farið úr kjörklefanum og kjörseðilinn settur í atkvæðakassa fyrir utan kjörklefann.