Upplýsingar um slysaskrá
Markviss skráning umferðarslysa hófst hér á landi árið 1966 og var tilgangur skráningar að fá marktækan samanburð á slysatíðni fyrir og eftir árið 1968, þegar hægri umferð tók gildi.
Slysaskráningin byggir á lögregluskýrslum úr gagnagrunni Ríkislögreglustjóra.
Frá árinu 2009 hefur auk þess verið stuðst við gögn frá Aðstoð og öryggi. Í skráningum frá Aðstoð og öryggi er eingöngu um eignatjón að ræða en fyrirtækið er sjálfstætt starfandi og hlutlaust þjónustufyrirtæki sem annast vettvangsrannsóknir umferðaróhappa.
Skráning umferðaslysa
Þegar meiðsl verða á fólki í umferðarslysum er skylt að kalla til lögreglu. Í skráningu umferðarslysa er meiðslum skipt niður í tvo flokka, lítil meiðsl og mikil meiðsl.
Vegfarandi telst ekki slasaður nema hann hafi með sannanlegum hætti verið fluttur á sjúkrahús, heilsugæslustöð eða undir læknishendur með sjúkrabifreið, lögreglubifreið, þyrlu eða hann komi til lögreglu og gefi skýrslu um að hann hafi leitað læknisaðstoðar vegna meiðsla.
Banaslys í umferð eru skilgreind þannig að látist einstaklingur af völdum áverka sem hann hlýtur í umferðarslysi innan 30 daga frá því að slysið á sér stað telst hann hafa látist í umferðarslysi.
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á umferðarslysum sýna að hin opinbera skráning nær ekki til allra þeirra sem slasast í umferðinni.
Umferðarslys eru stundum tilkynnt til lækna eða sjúkrastofnana en ekki lögreglu. Skiptir þá miklu hver alvarleiki meiðslanna er.
Gera má ráð fyrir að þeir sem slasast lítið tilkynni það síður til lögreglu.
Sjúkrastofnanir og tryggingafélög skrá mun fleiri minniháttar meiðsl af völdum umferðarslysa en fram kemur í skráningu Samgöngustofu.