Fara beint í efnið

Smásöluleyfi fyrir níkótínvörur og rafrettur

Til að selja nikótínvörur, rafrettur eða áfyllingar fyrir rafrettur þarf sérstakt leyfi HMS. Eftir umsókn heimsækir fulltrúi HMS verslunina til að ganga úr skugga um að reglum sé fylgt.

Önnur leyfi þarf fyrir tóbaksvörur og eftirfarandi upplýsingar gilda ekki um þær.

Dæmi

  • Þú vilt selja nikótínvörur, rafrettur eða áfyllingar fyrir rafrettur í sérverslun.

  • Þú vilt selja þessar vörur í almennri verslun, til dæmis í matvörubúð.

  • Þú vilt selja þessar vörur í netverslun.

Skilyrði

  • Þú verður að vera lögráða.

  • Rekstraraðilinn, hvort sem um einstakling með eigin atvinnurekstur eða fyrirtæki er að ræða, verður að vera skráður í fyrirtækjaskrá.

  • Greiða verður fyrir leyfið og HMS er heimilt að innheimta eftirlitsgjald við síðari heimsóknir í verslanir sem þegar hafa hlotið leyfi.

Sækja um

Smásöluleyfi fyrir níkótínvörur og rafrettur

Fylgigögn

Með umsókninni þarf að fylgja:

  • Vottorð um lögræði frá Þjóðskrá.

  • Vottorð frá Skattinum sem sýnir að rekstraraðilinn er skráður í fyrirtækjaskrá.

Tegund verslunar

Í umsókninni þarftu að nefna hvort verslunin sé sérverslun, almenn verslun eða netverslun. Fyrir netverslanir þarf að tilgreina hvar lager þeirra er staðsettur.

Rekstraraðili og ábyrgðaraðili

Við umsókn eru rekstraraðilar og ábyrgðaraðilar verslunar skráðir.

Rekstraraðili er lögaðilinn, fyrirtækið eða einstaklingurinn, sem sækir um.

Ábyrgðaraðili er einstaklingur sem er tengiliður við HMS þegar stofnunin þarf að hafa samband.

Dæmi

  • Þú ert prókúruhafi fyrirtækisins sem er skráð sem rekstraraðili og skráir þig sem ábyrgðaraðila.

Úttekt á verslun

Þú færð staðfestingu um að umsókn hafi verið móttekin. Fulltrúi HMS mun hafa samband með tölvupósti og senda rafrænan upplýsingabækling um leyfið. Einnig má kynna sér lögin og reglurnar á síðu Vöruöryggis.

Fulltrúi stofnunarinnar kemur í heimsókn til að framkvæma úttekt. Við úttekt er athugað hvort reglum sé fylgt og verslunin uppfylli kröfur um smásöluleyfi.

Ef fulltrúi HMS gerir athugasemdir um að reglum sé ekki fylgt fær rekstraraðili tækifæri til að bæta úr þeim vanköntum áður en leyfið er veitt.

Dæmi

  • Viðvörunarmerkingar vantar á vörurnar.

  • Ólöglegar vörur eru til sölu.

  • Vörur eru sýnilegar í versluninni þegar það er ekki leyfilegt.

Að úttekt lokinni færðu greiðsluseðil sendan fyrir öllum gjöldum.

Gjöld

Gjald fyrir leyfi á hvern sölustað samanstendur af 27.224 króna vinnslugjaldi auk eftirlitsgjaldi. Eftirlitsgjald samanstendur svo af tímagjaldi sérfræðings HMS sem er 18.216 krónur hver klukkustund og tilfallandi kostnaði, svo sem ferðakostnaði, eftir því sem við á.

HMS er heimilt að innheimta eftirlitsgjald í kjölfar hverrar eftirlitsferðar í verslanir sem hlotið hafa leyfi.

Leyfi veitt

Leyfi er veitt þegar gjöld hafa verið greidd. Þú færð tölvupóst frá HMS sem staðfestir leyfisveitingu. Um leið færðu útprentað leyfi í bréfpósti. Leyfið gildir í 4 ár.