Slysakort
Slysakort Samgöngustofu má nálgast hér.
Á kortinu er hægt að finna ítarlegar upplýsingar um umferðarslys sem hafa orðið á Íslandi frá árinu 2007 til og með ársins 2022.
Hér að neðan er myndband þar sem farið er yfir helstu aðgerðir sem mögulegar eru á kortinu og undir myndbandinu er einnig gerð grein fyrir þeim aðgerðum.
Tegundir slysa og alvarleiki
Hægt er að velja ákveðna tegund slysa og alvarleika, þ.e. hvort um sé að ræða óhapp án meiðsla, slys með litlum meiðslum, alvarlegt slys eða banaslys. Sjá nánar hér.
Hitakort
Með því að velja Hitakort breytist framsetning gagnanna og það birtist hitamynd ofan á punktana. Hitamyndin sýnir "hita" á svæði eftir þéttleika þeirra punkta sem birtir eru. Einnig vega slysin meira eftir því hversu alvarleg þau eru. Hitasvæðin eru alltaf afstæð m.v. þéttleika annarra punkta sem birtast á skjánum hverju sinni. Þar sem þéttleiki slysa er almennt meiri í þéttbýli en í dreifbýli þá dofnar yfir hitasvæðum í dreifbýli ef þéttbýli sést á skjánum. Hitamyndin tekur alltaf tillit til þeirra punkta sem eru birtir á skjánum og breytist myndin því við það að valið er annað tímabil, ákveðinn alvarleiki er tekinn út eða settur inn, ákveðin tegund slyss er valin eða þysjað er inn eða út. Sjá nánar hér.
Bakgrunnsmynd
Sjálfgefinn bakgrunnur er svarthvítt kort en hægt er að velja bakgrunn með því að smella á < og > efst á hnappastikunni. Hægt er að velja á milli gráskala (svarthvítt kort), korts, kortmyndar (kort og loftmynd saman) og loftmyndar án korts. Sjá nánar hér.
Upplýsingar um stök slys
Með því að smella á punkt birtast upplýsingar um viðeigandi slys/óhapp. Hægt er að sjá teiknaða afstöðumynd af því hvað gerðist ásamt því að fá upplýsingar um tíma, staðsetningu, ökutæki og slasaða einstaklinga. Sjá nánar hér.
Gögn á töfluformi
Með því að smella á tannhjólið efst hægra megin birtast tveir hnappar. Með því að smella á hnappinn sem er hægra megin af þeim tveimur (eins konar tígull með + við hliðina) er hægt að draga form utan um ákveðið svæði með því að smella á hvert horn svæðisins (ekki halda músarhnappnum niðri á milli horna). Þá er tvísmellt á síðasta horn formsins og birtist þá tafla með upplýsingum um öll slys innan svæðisins. Þetta er mjög gagnlegt til þess að fá upplýsingar um slys í ákveðnu hverfi, sveitarfélagi eða jafnvel sýslu. Sjá nánar hér.
Aðrar upplýsingar
Auk ofantalinna upplýsinga er hægt að sjá á kortinu færð sem er uppfærð í rauntíma, veðurupplýsingar og upplýsingar um þjónustu og afþreyingu. Að auki er hægt að mæla vegalengdir og flatarmál svæða með vinstri hnappinum sem birtist við að smella á tannhjólið. Sjá nánar hér.
Þjónustuaðili
Samgöngustofa