Fara beint í efnið
Vísindasiðanefnd Forsíða
Vísindasiðanefnd Forsíða

Vísindasiðanefnd

Almennt um leyfisskyldu á heilbrigðissviði

Vísindarannsókn á heilbrigðissviði er rannsókn sem gerð er til að auka við þekkingu sem m.a. gerir kleift að bæta greiningu sjúkdóma, bæta heilsu þátttakenda, lina þjáningar og lækna sjúkdóma.

Vísindasiðanefnd hefur það hlutverk að meta vísindarannsóknir á heilbrigðissviði í þeim tilgangi að tryggja að þær samrýmist vísindalegum og siðfræðilegum sjónarmiðum. Leiki vafi á því hvort um vísindarannsókn á heilbrigðissviði er að ræða sker vísindasiðanefnd úr um það. Upp hafa komið tilvik þar sem ekki hefur verið ljóst hvort rannsókn teljist vera vísindarannsókn á heilbrigðissviði eða félagsvísindarannsókn. Þegar um slík tilvik er að ræða hefur vísindasiðanefnd leitast við að meta rannsóknina heildstætt og hefur þá m.a. verið litið til bakgrunns rannsakanda, þýðis, tilgangs og markmiðs rannsóknar. Sé tilgangur og markmið rannsóknar að auka við þekkingu, sem m.a. gerir kleift að bæta heilsu og lækna sjúkdóma, hefur vísindasiðanefnd talið að viðkomandi rannsókn falli undir verksvið vísindasiðanefndar (eða eftir atvikum siðanefndir heilbrigðisrannsókna). Dæmi um rannsóknir þar sem heilbrigðis- og félagsvísindi skarast eru til dæmis rannsóknir á líðan og heilsu skólabarna.

Erfitt getur verið að draga skýr mörk milli vísindarannsókna á heilbrigðissviði og félagsvísindarannsókna, enda er algengt að í rannsóknum og könnunum á sviði félagsvísinda sé jafnframt spurt um atriði sem lúta að heilsu og líðan. Hafi verið sótt um leyfi fyrir slíkum rannsóknum til vísindasiðanefndar hefur hún yfirleitt tekið þær til umfjöllunar, einkum ef um er að ræða spurningar sem varða heilsufarsupplýsingar um viðkvæma hópa. Ætla má að það hvoru megin rannsókn lendi ráðist að miklu leyti af því hver bakgrunnur ábyrgðarmanns rannsóknar sé.

  • Ef þeir sem standa að rannsókn teljast heilbrigðisstarfsmenn má ætla að rannsókn teljist vera vísindarannsókn á heilbrigðissviði.

  • Ef aðilar sem standa að rannsókn búa yfir menntun á sviði félagsvísinda má sömuleiðis almennt gera ráð fyrir að rannsókn teljist vera félagsvísindarannsókn og heyri því ekki undir valdsvið vísindasiðanefndar. 

Vísindasiðanefnd skal meta samstarfsverkefni, fjölþjóðlegar rannsóknir, klínískar lyfjarannsóknir og aðrar áætlanir um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem ekki falla undir verksvið siðanefnda heilbrigðisrannsókna skv. 11. gr. laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.  

Ekki er heimilt að hefja vísindarannsókn á heilbrigðissviði nema vísindasiðanefnd eða siðanefnd heilbrigðisrannsókna hafi veitt leyfi fyrir rannsókninni.

Vísindasiðanefnd eða siðanefnd heilbrigðisrannsókna skal meta rannsóknaráætlun vísindarannsóknar út frá sjónarmiðum vísinda, siðfræði og mannréttinda. Vísindasiðanefnd og siðanefndir heilbrigðisrannsókna geta bundið leyfi fyrir rannsókn ákveðnum skilyrðum.

Umsókn um almenna rannsókn

Vísindasiðanefnd

Heim­il­is­fang

Borgartún 21, 4. hæð

Hafa samband

vsn@vsn.is

+354 551 7100

kt. 680800-2510

Síma­tími

Kl: 10:00 - 14:00