Stafræna spjallið
Í Stafræna spjallinu ræðum við stafræna umbreytingu á mannamáli ef svo má að orði komast. Markmiðið er að auka skilning og opna augu okkar fyrir þeim tækifærum sem leynast í stafrænni þróun.
Efnisyfirlit
Hið stafræna snýst nefnilega eins og flest annað um fólk og því ekkert mikilvægara en að fólk skilji og treysti stafrænni þjónustu. Það mun leiða til þess að einfalda líf okkar allra sem og opna augu okkar fyrir þeim tækifærum sem felast í stafrænni umbreytingu þegar kemur að lífi og starfi okkar allra.
Stafrænt Ísland stendur fyrir Stafræna spjallinu og tekur ábendingum og tillögum að umræðuefni fagnandi á island@island.is.
Þáttastjórnandi er Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands.
Stafræna spjallið þættir
Í tilefni af alþjóðlegum degi persónuverndar 28. janúar er fyrsti þáttur Stafræna spjallsins tileinkaður persónuvernd.
Til að svara ýmsum vangaveltum tengdum persónuvernd eru þau Atli Stefán Yngvason og Vigdís Eva Líndal mætt í Stafræna spjallið.
Þáttur birtur 28. janúar 2022
Í þessum þætti ætlum við að kafa aðeins ofan í rafrænar undirritanir. Hvað það þýðir að undirrita rafrænt? Hvaða þýðingu það hefur lagalega séð? Hver eru tækifærin? Hvernig lítur þetta út fyrir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum? Hvernig lítur framtíðin út?
Arnaldur Axfjörð verkefnastjóri öryggismála hjá Embætti landlæknis tekur spjallið um rafrænar undirritanir, fer yfir út á hvað þær ganga og sýnir hvernig má undirrita rafrænt.
Þáttur birtur 16. mars 2022
Í þessum þætti Stafræna spjallsins snýst spjallið um Stafrænt pósthólf Ísland.is, en um mitt ár 2021 tóku gildi lög sem eru þau fyrstu hér á landi sem snúa beint að stafrænni þjónustu. Markmið laganna er að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og fyrirtækja. Jafnframt er það markmið laganna að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og fyrritækja verði stafræn og miðlæg á einum stað.
Gestir Stafræna spjallsins að þessu sinni eru þau Hólmfríður Sigríður Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Stafrænu Íslandi, Ragnhildur Helga Ragnarsdóttir vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi og
Vilhjálmur Örn Sigurhjartarson forstöðumaður fjárreiðusviðs Fjársýslu ríkisins. Spyrill er Vigdís Jóhannsdóttir markaðsstjóri Stafræns Íslands.
Þáttur birtur 7. desember 2022
Að þessu sinni ætlum við að spjalla um vefi stofnana sem er eina af þeim kjarnaþjónustum sem standa stofnunum til boða hjá Stafrænu Íslandi. Þegar hafa 8 stofnanir nýtt sér þessa þjónustu og 20 til viðbótar eru að undirbúa það að flytja vefi sína og gerast hluti af Ísland.is.
En hvað þýðir þetta fyrir notendur sem heima sitja, já og hvaða breytingar hefur þetta í för með sér fyrir stofnanir? Hver er hugsunin með þessu og tilgangurinn?
Gestir Stafræna spjallsins að þessu sinni eru þau Bryndís Pétursdóttir verkefnastjóri Sýslumannaráðs, Kolbrún Eir Óskarsdóttir verkefnastjóri hjá Stafrænu Íslandi og Kristján Þorvaldsson sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs Sjúkratrygginga.
Þáttur birtur 3. febrúar 2023
Þriðjungur þjóðarinnar nýtir reglulega Ísland.is apppið og enn fleiri stafræn skírteini sem er að finna í appinu. En hver er hugmyndin að baki Ísland.is appsins og fyrir hverja er það?
Ísland.is appið og stafræna og stafræn skírteini eru umræðuefni fimmta þáttar Stafræna spjallsins.
Í þessum þætti er spjallað um stafræn skilríki og Ísland.is appið, hvernig þetta virkar allt saman og hvernig þetta nýtist fólki í lífi og starfi.
Gestir að þessu sinni eru þeir Gunnar Haukur Stefánsson deildarstjóri hugbúnaðarþróunar hjá Ríkislögreglustjóra, Þórarinn Þórarinsson, lögreglufulltrúi í leyfadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Sigurbjörn Óskarsson vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Þáttur birtur 16. febrúar 2023
Að þessu sinni snýst spjallið um verkefnið Innskráning fyrir alla, en það er ein af þeim kjarnaþjónustum sem standa stofnunum til boða hjá Stafrænu Íslandi. En hvað þýðir þetta fyrir notendur sem heima sitja, hefur þetta einhver áhrif á okkar daglega líf? Hver er hugsunin með Innskráningu fyrir alla og hver er tilgangurinn?
Gestir stafræna spjallsins að þessu sinni eru þau Adeline Tracz verkefnastjóri nýþróunar frá Landsspítalanum, Eiríkur Nilsson stofnandi og tæknistjóri hjá Aranja og Hrefna Lind Ásgeirsdóttir tækni- og þróunarstjóri Stafræns Íslands.
Þáttur birtur 12. apríl 2023
Í þessum þætti snýr Stafræna spjallið um Mínar síður Ísland.is en Mínar síður er ein af þeim kjarnaþjónustum sem standa stofnunum til boða hjá Stafrænu Íslandi.
En hvað þýðir þetta fyrir notendur sem heima sitja, hefur þetta einhver áhrif á okkar daglega líf? Hver er hugsunin með Mínum síðum Ísland.is og hver er tilgangurinn?
Gestir Stafræna spjallsins eru þau Lárus Long deildarstjóri upplýsingatæknideildar Samgöngustofu, Ragnheiður Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar og Ragnhildur Helga Ragnarsdóttir vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Þáttur birtur 28. apríl 2023
Að þessu sinni ætlum við að spjalla um Umsóknarkerfi Ísland.is sem er ein af þeim kjarnaþjónustum sem standa stofnunum til boða hjá Stafrænu Íslandi.
En hvað þýðir þetta fyrir notendur sem heima sitja, hefur þetta einhver áhrif á okkar daglega líf? Hver er hugsunin með Umsóknarkerfi Ísland.is og hver er tilgangurinn?
Gestir Stafræna spjallsins að þessu sinni eru þau Anna Sigríður Vilhelmsdóttir verkefnastjóri á upplýsingatæknisviði Fiskistofu, Telma Hrönn Númadóttir, Skilastjóri hjá Norda og Gunnar Ingi Reykjalín Sveinsson, innleiðingar- og vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Þáttur birtur 8. júní 2023
Í stafræna spjallinu ræðum við stafræna umbreytingu á mannamáli og förum yfir praktísk atriði sem gegnast fólki í lífi og starfi.
Markmiðið er að auka skilning og opna augu okkar fyrir þeim tækifærum sem eru innan seilingar ef við vitum hvar á að leita.
Í þessum þætti ætlum við að ræða við sérfræðinga frá Hvíta húsinu í Bandaríkjunum en þau leiða stafvæðingu hins opinbera þar í landi. Stafræna spjallið breytist því í Digital Chat að þessu sinni og fer fram á ensku.
Umræðuefnið að þessu sinni snýr að stafrænni vegferð Bandaríkjanna, hvar þau eru stödd á sinni stafrænu vegferð, vandamál og lausnir.
Gestir þáttarins eru þau:
Clare Martorana Federal Chief Information Officer, Cassie Witners Policy Analyst og Andrew Lewandowski Digital Experience Advisor ot the Federal Chief Information Officer. Öll þau starfa öll á skrifstofu er kallast OMB (Office of Management and Budget), Executive Office of the President of the United States.
Þáttastjórnandi Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands.
Stafrænt Ísland hefur það hlutverk að bæta stafræna þjónustu hins opinbera í samstarfi við stofnanir.