Saga Stafræns Íslands
Hér er rakin saga Stafræns Íslands þar sem stiklað er á stóru og tekin viðtöl við ýmsa aðila sem komu að vegferð og uppbyggingu Ísland.is
Efnisyfirlit
1. Inngangur Stafrænt Ísland
Ísland er meðal allra fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu. Framúrskarandi stafræn þjónusta auðveldar samskipti almennings við hið opinbera, dregur úr sóun og eykur gagnsæi. Til mikils er að vinna með uppbyggingu stafrænna innviða en til að ná góðum árangri þarf margt að koma til.
Mjög hefur verið litið til þeirra leiða sem Íslendingar hafa farið á sinni stafrænu vegferð en á aðeins tveimur árum fór Ísland úr 19. sæti í 5. sæti á heimslista Sameinuðuþjóðanna um stafvæðingu ríkja (eGovernment Development Index). Opinbera þjónustugáttin Ísland.is er metin ein besta þjónustugátt opinberra aðila og appið Ísland.is þykir það fullkomnasta sinnar tegundar.
Já bara að vera vakandi fyrir nútímanum og möguleikunum. Einhvern veginnn gerist það að sumir þættir hjá okkur geta dregist rosalega hratt aftur úr, það er kannski lærdómurinn. Hlutir festast í vana og allt í einu eru vinnubrögðin komin áratugum á eftir.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Hver var hvatinn að baki breytinganna, hvaða breytingar þurfti að gera, hvaða hindranir þurfti að yfirstíga og hvernig náðist þessi árangur?
Stafræn þjónusta á Íslandi hafði staðnað. Víða var skilningur á að bregðast þyrfti við og metnaðarfullar stefnur voru settar um málin en aðgerðir fylgdu ekki máli. Einstaka stofnanir höfðu náð framúrskarandi árangri við notkun upplýsingatækni en aðrar skorti alla sýn á málin. Ákvarðanir voru komnar undir áhuga stjórnanda hverrar stofnunar og lítil samþætting þeirra á milli hafði í för með sér margverknað og mikla sóun.
Ástæður stöðunnar var skortur á yfirsýn og forystu um almenna framþróun stafrænna innviða á Íslandi. Þau sem gerðu sér best grein fyrir því hvaða hindranir voru í veginum og sáu leiðir til að koma málum í farveg skorti umboð til að grípa til aðgerða. Með greiningum þeirra og vilja til breytinga náðu þau að setja málin á dagskrá, vörðuðu leiðina og sköpuðu tækifæri til uppbyggingar. Skilningur ráðherra fjármálaráðuneytisins um mikilvægi uppstokkunar á málaflokknum skipti miklu og pólitísk sátt náðist um breytingar. Árangurinn sem náðist í framhaldinu skilað Íslandi aftur í hóp framúrskarandi þjóða á sviði stafrænnar þjónustu hins opinbera á tveimur árum.
Við þessa uppbyggingu skipti geta og þor starfsfólks við að hugsa verkefni upp á nýtt miklu máli. Áræði til að standa við ákvarðanir þótt þær hafi mætt andstöðu í upphafi og algjör endurhugsun við útboð þegar kom að kaupum ríkisins á þjónustu hafði einnig mikið að segja. Endurskipulagning innan stjórnsýslunnar veitti leiðtoga Stafræns Íslands í framhaldinu meiri sveigjanleika en þar tíðkast, sterkt umboð til ákvarðana og þar með getu til að vinna hratt. Auk þess sýndi vel ígrundað val á fyrstu verkefnunum fram á að hægt væri að ná skjótum árangri við gerð nýrra stafrænna lausna og skiptu fólk máli. Úthugsuð kynning og markviss áhersla á notanda þjónustunnar ýtti svo undir trú fólks á mikilvægi þessarar nýju innviðauppbyggingar.
Það þarf að skilja fólk, skilja dínamíkina og átta sig á því af hverju eitthvað er að stoppa og staðna. Það er einhver ástæða, spyrja spurninga og svo reynir maður bara að leysa vandamálin.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
2. Forsagan að Stafrænu Íslandi
Ég hef stundum vitnað í brot úr texta lagsins Plateau eftir Nirvana: „Who needs action when you got words“. Ég held að við höfum verið föst þar, til hvers að gera eitthvað ef hægt er að tala.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Íslenskt samfélag er opið fyrir nýrri tækni. Hér á landi hefur lengi mælst hæsta hlutfall nettengdra heimila í Evrópu og jafnframt hæsta hlutfall netnotenda samkvæmt niðurstöðum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Auk þess hafa mælingar World Economic Forum um almenna samkeppnishæfni metið hæfni íslensks samfélags til að tileinka sér nýja tækni framúrskarandi.
Það var áhyggjuefni hvað Ísland hafði dregist langt aftur úr. Ísland hafði verið á meðal fremstu þjóða í stafrænni þjónustu og hagnýtingu upplýsinga en svo fórum við að detta niður á listum.
Guðrún Ögmundsdóttir skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Íslensk stjórnvöld voru meðvituð um að hægt væri að gera mun betur við að bæta aðgengi almennings að upplýsingum, auka skilvirkni stjórnsýslunnar og ráðstafa fé almennings betur með nýsköpun í stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni.
Almenningur og fyrirtæki höfðu kunnáttuna sem til þurfti. Stjórnsýslan hafði samt ekki fundið leið til að virkja þessa kunnáttu í sína þágu og tapað forskoti sem þau höfðu áður gagnvart öðrum þjóðum.
Eitt af því sem að við ákváðum að gera þegar við byrjuðum að pæla í þessu var að halda utan um allar reynslusögur - sérstaklega reynslusögur sem beindust að því að það væri verið að vinna hluti á úreltan hátt og gamaldags hátt.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Ýmsar hindranir voru á vegi þeirra sem horfðu til umbóta í upplýsingatæknimálum. Metnaðarfullar stefnur höfðu verið settar í þessum efnum og víða var vilji til að gera betur. Verkefnin sem stefnunum tengdust voru hins vegar dreifð á milli ráðuneyta þannig að ábyrgð, umboð og yfirsýn var óskýr. Þannig reyndist erfitt að tryggja fjármögnun verkefna og slagkrafturinn varð því takmarkaður. Þau sem helst vildu ýta við málum og sáu til þess leiðir höfðu takmarkað umboð til ákvarðana sem vörðuðu framþróun í málaflokknum.
Þetta var svolítið undir hverjum og einum forstöðumanni komið, hversu áhugasamur hann var um stafræna þjónustu. Það kom manni svolítið á óvart. Ég kom úr fjármálaráðuneytinu og var búin að vera vinna með Skattinum, sem hafði verið fremstur meðal jafningja og hélt ég bara að þannig væru allar stofnanir og að það væri horft til þess að stafræn þjónusta væri framtíðin.
Guðrún Ögmundsdóttir skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Skref í rétta átt, á langri leið fram undan, var tekið innan fjármálaráðuneytisins 2013. Stofnuð var skrifstofa stjórnunar og umbóta sem meðal annars fékk það hlutverk að sinna fjárstýringu og rekstrarmálefnum ríkisins ásamt umbótastarfi og nýsköpun í rekstri og stofnanakerfi ríkisins svo sem þróun stafrænna innviða. Eitt af fyrstu verkefnunum var að láta greina innviði og ástand í ríkiskerfinu þegar kom að upplýsingatæknimálum.
Greiningin veitti þeim yfirsýn um fjármagn sem veitt var til málanna og fjölda starfsmanna sem vann að þeim. Í ljós kom að talsverðu fé var veitt til upplýsingatæknimála og árangurinn ekki í samræmi. Greiningin var einnig byrjandagagn skrifstofu stjórnunar og umbóta og var nýtt við ákvarðanatöku sem miðaði að því að bæta rekstur og þjónustu ríkisins með hagnýtingu upplýsingatækni.
Við sáum að peningarnir fóru nær allir í rekstur og nær ekkert í fjármagn fór í þróun. Þróunarfókusinn var eiginlega ekki til staðar hjá ríkisstofnunum.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Á vegum fjármálaráðuneytisins var í auknum mæli farið að horfa til tækifæra í samrekstri og sameiginlegu aðgengi að þjónustu, svo sem upplýsingatæknilausnum og fjármálaumsýslu, auk samlegðaráhrifa sem sameining verkefna gæti haft. Í samræmi við þær áherslur voru gerðar skipulagsbreytingar í ráðuneytinu og inn á skrifstofu stjórnunar- og umbóta færðust fleiri málaflokkar og yfirsýn skrifstofunnar varð breiðari.
Unnið var í skipulagðri teymisvinnu þvert á verkefni og hópurinn öðlaðist sameiginlega framtíðarsýn á framþróun í ríkisrekstri og þjónustu. Þau voru sannfærð um að til að sú sýn yrði að veruleika þyrfti að vinna mun betur að stafrænni þróun innviða. Horfa þyrfti á upplýsingatæknimál út frá þjónustu og gagnsæi en ekki aðeins rekstri.
Það er sagt að skynsamleg stefna byggi á því að fara frá stefnu til aðgerða eða eins og sagt er á ensku „Policy to action“ en snérum því við og sögðum „action to policy.“ Þegar við erum búin að sanna það að aðferðin við að vinna verkefnið skili sér þá býrðu til stefnuna á grundvelli þess sem þú hefur leitt fram að virki.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Þó þörf fyrir aðgerðir blasi við er ekki sjálfgefið að koma þeim í framkvæmd og enn síður að árangur náist. Flestum var ljóst að það þurfti að byggja upp stafrænna þjónustu hins opinbera á Íslandi en ólíkt annarri innviðauppbyggingu voru ekki til hefðbundnir verkferlar.
Það þarf að byggja brú en hver á að sjá um vinnuna, hvar er best að byrja, hver borgar fyrir verkið, hver stýrir því, hver ber ábyrgðina, hver fær leyfi fyrir verkinu, hvaða verkfæri er best að nota við brúarsmíði, hvaða efni henta og hver á að byrja? Ofangreindar spurningar um brúna hefðu átt farveg og hefðir innan stjórnsýslunnar en það sama gilti ekki um stafrænar brýr.
Skrifstofa stjórnunar og umbóta hjá fjármálaráðuneytinu vissi að þörf var á aðgerðum en hafði ekki umboð til ákvarðana um málið. Tólin sem starfsfólk skrifstofunnar hafði til að bregðast við voru takmörkuð enda var málaflokkurinn dreifður milli ráðuneyta og ábyrgðin óskýr.
Ekki var skýr stefnumörkun um þjónustuveitingu hjá ríkinu og ákvarðanir um tæknimál og nýsköpun við þjónustu voru komnar undir áhuga hvers og eins stjórnenda ríkisstofnana hverju sinni.
Þegar búið er að ráða fram úr svona þyngstu og erfiðustu verkefnunum sem fylgdu hruni bankakerfisins var farið að gefa meiri gaum að umbótum í ríkisrekstri. Stafræn málefni voru hlut af þeirri dagskrá og markmiðum sem við skilgreindum. Við bjuggum til áætlun sem hét Betri ríkisrekstur og þar voru tveir meginstraumar. Annars vegar var horft á innkaupamál og starfsmannamál og svo hins vegar hagnýtingu upplýsingatækni til þess að gera opinbera þjónustu betri og hagkvæmari.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Íslensk stjórnvöld réðust í sérstaka aðgerð sem kölluð var Leiðréttingin árið 2015. Leiðréttingin var farin til að stilla af skuldastöðu almennings á Íslandi sem hafði farið úr skorðum vegna bankahrunsins sem varð í landinu 2008 og varð um leið til þess að hraða framþróun stafrænna mála hér á landi. Útfærsla Leiðréttingarinnar var tæknilega flókin, framkvæmdin var umfangsmikil og tók til ríkisins, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja.
Í litlu landi á borð við Ísland þarf sama fólkið oft að bera marga hatta sem gerir miklar kröfur til fólks en gefur því um leið mikla yfirsýn. Þannig vildi til að formaður verkefnastjórnar um framkvæmd Leiðréttingarinnar var einnig leiðandi sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta. Hún hafði stýrt verkefnum í tengslum við þróun stafrænnar þjónustu og rekstur stofnana ríkisins, og vissi að til þess að Leiðréttingin yrði að veruleika þyrfti að sjálfvirknivæða ferla og tryggja um leið öryggi gagna.
Í samvinnu við skattayfirvöld var ákveðið að allt það fólk sem óskaði eftir leiðréttingu á lánum sínum yrði að gera það í gegnum rafræn skilríki sem einnig mætti nota til að undirrita skjöl með rafrænum hætti. Málið varð pólitískt hitamál fyrir margar sakir á þessum tíma en stjórnvöld hvikuðu hvergi frá ákvörðun sinni. Var það yfirlýst ákvörðun að nýta rafrænu skilríkin til að tryggja öryggi umsækjenda og efla um leið örugg rafræn viðskipti á Íslandi. Um leið fjölgaði notendum rafrænna skilríkja til mikilla muna og varð í raun forsenda frekari uppbyggingar stafrænna innviða.
Mér fannst þetta vera augljós sóun og ég fer og tala við ábyrgðaraðila og spyr hvort það sé ekki rétt að birta greiðsluseðla um bifreiðagjöld bara í Stafræna pósthólfinu. Viðkomandi fannst þetta ekki forgangsmál og vildi bíða með framkvæmdina en til þess að heimila birtinguna þurfti lagabreytingu. Sem betur fer vildi ráðherra keyra málið áfram. ÉG man hvað ég var hissa á því að kollegar væru ekki samstíga okkur í að nýta svona einfalt hagræðingartækifæri.
Guðrún Ögmundsdóttir skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Krafan um að fólk notaði rafræna auðkenningu varð stórt pólitískt deilumál. Miklu skipti að fjármálaráðherra var ákveðinn að gera þetta, gaf sig ekki heldur sá tækifæri í málinu til að koma okkur áfram í nýja tíma með þessu.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Við sáum það sem mjög mikilvægt verkefni að efla útbreiðslu rafrænna skilríkja en notagildi þeirra hafði verið takmarkað á Íslandi. Við fengum gott tækifæri með svokallaðri Leiðréttingu. Þá var í fyrsta skipti ákveðið að þú gætir eingöngu nálgast opinbera þjónustu í gegnum rafræna lausn og að þú gætir eingöngu auðkennt þig gagnvart þessari rafrænu lausn með rafrænum skilríkjum. Þetta leiddi til þess að mjög margir „neyddust“ til að fá sér rafræn skilríki og var svolítið breakthrough.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Það var eiginlega bara ein stofnun sem kom til greina þegar við vildum útfæra Leiðréttinguna – Skatturinn. Skatturinn var tæknilega langfremstur stofnanna og með mestu getuna til að leiðbeina okkur um það hvað þyrfti til. Brautryðjendastarfið sem þar hafði verið unnið löngu áður í tengslum við rafræn skattskil, var alger forsenda. Það var alveg brilljant ákvörðun að gera það að skyldu að fólk notaði skilríki fyrir Leiðréttinguna. Notkunin jókst alveg gríðarlega.
Bjarni Benediksson fjármála- og efnahagsráðherra
Skyndileg ríkisstjórnarskipti á Íslandi síðla árs 2017 skapaði óvænt tækifæri á stafrænni vegferð Íslendinga. Dreifð ábyrgð og umboð á upplýsingatæknimálum höfðu staðið framþróun verkefna fyrir þrifum en með nýrri ríkisstjórn varð til ný verkaskipting og upplýsingatæknimál færðust nær öll í fjármálaráðuneytið þar sem mikil þekking og metnaður hafði myndast um málin. Með þessu skapaðist aukinn slagkraftur í málaflokkinn og skýrari ábyrgð.
Til að nýta sem best og markvissast fjármagn og mannaforráð var farið í greiningu á hvernig mætti ná sem mestum ávinningi með sem minnstum tilkostnaði. Verkefnastofa um Stafrænt Ísland varð til í framhaldinu inn á skrifstofu stjórnunar og umbóta þar sem fólki varð að orði að íslenskum sið: „Eruð þið klár í bátana?“
Og hvað svo? Ljóst var að það þyrfti að ráðast í uppbyggingu stafrænnar þjónustu á Íslandi og umboðið yfir málaflokknum komið til eins ráðuneytis og nú þurfti að láta verkin tala. Mikil umræða fór fram um hvernig það yrði best gert og hvaða leiðir yrðu farnar til að hægt væri að vinna hratt. Lengst af var litið svo á að horfa ætti á uppbyggingu stafrænna innviða sem eins konar samstarfsverkefni allra ráðuneyta sem fjármálaráðuneytið myndi leiða þvert á stjórnarráðið. Það var hins vegar of þungt í vöfum, óskilvirkt og umræður sem mynduðust ekki nægilega beinskeyttar.
Niðurstaðan varð á endanum að verkefnið myndi lúta öðrum lögmálum og annarri uppbyggingu en almennt tíðkast innan stjórnsýslu ráðuneyta. Nýjar nálganir þyrfti á ný og aðkallandi verkefni.
Ég vildi frá upphafi tryggja að jafn mikilvægt verkefni og sem átti að fá mikla forgangsröðun, yrði komið þannig fyrir í ráðuneytinu að það væri engum vafa undirorpið að leiðtogi verkefnisins hefði umboð til að taka stórar ákvarðanir og stæði nálægt ráðherranum, ráðuneytisstjóranum í skipuritinu. Þetta kostaði talsverða yfirlegu vegna þess að í sjálfum sér þá ætluðum við ekki að búa til nýja skrifstofu með hefðbundnum skrifstofustjóra. Við þetta fæddist þessi ágæta hugmynd, að koma á bara alveg nýju fyrirkomulagi utan um þessa verkefnastofu sem heyrir að hluta til beint undir ráðherrann þó skipulagslega sé haldið utan um verkefnið innan skrifstofu umbóta og stjórnunar í ráðuneytinu. Þetta held ég að hafi skipt töluvert miklu máli.
Bjarni Benediksson fjármála- og efnahagsráðherra
Ákveðið var að koma á laggirnar verkefnastofu um stafrænt Ísland innan fjármálaráðuneytisins sem hefði það tímabundna hlutverk að auka framboð stafrænnar þjónustu, styðja við uppbyggingu stafrænna innviða og leita leiða til að bæta þjónustu og rekstur opinberra stofnana.
Verkefnastofan hafði mun meira sjálfstæði við ákvarðanatökur en almennt tíðkast innan ráðuneyta, gat verið sveigjanleg og notað nýjar leiðir við að koma hlutum í verk. Starfsfólkið var hvatt til að horfa á hlutina upp á nýtt og þær leiðir sem voru notaðar, gera tillögur að breytingum og koma þeim í verk. Slíkt kallaði á þor, samningaviðræður, getu til að ná fram breytingum og leyfi til að verða á mistök á leiðinni.
Það hafði mikla þýðingu um leið að fjármálaráðuneytið gat beitt sér fyrir því að það væru lagðir fjármunir í þessa vegferð. Það skiptir líka máli að þeir myndu liggja miðlægt, það er að segja að það væri fjármálaráðuneytið sem færi með ráðstöfun þeirra fjármuna og gæti þá horft á ráðuneytin öll og viðfangsefni þeirra allra þegar kæmi að því að forgangsraða fjármunum.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Við sáum að nýja nálgun þyrfti til að koma málum í verk. Það fyrirkomulag sem valið var hefur gefist vel. Ástæðan er sú að í fyrsta lagi lítur það skýrri forystu og það er enginn umboðsvandi. Í öðru lagi var lagt upp með þetta þannig að við myndum ekki ætla öðrum ráðuneytum að taka þátt í fjármögnuninni nema með einhverju mjög takmörkuðu leyti verkefna. Það bara blasti við að það væri svo mikið af verkefnum að við þyrftum ekki að fara í að skrifa einhverjar grænbækur eða hvítbækur eða miklar áætlanir áður en nokkuð gæti gerst. Það væri einfaldlega bara hægt að fara í verkefnin.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Við settum fá og einföld markmið. Helst ber að nefna að stafræn samskipti yrðu aðalsamskiptaleiðin og því næst að komast í fremstu röð þjóða í þessum málum. Það er mjög mikilvægt að halda áfram á þessari braut.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
3. Stafræn opinber þjónusta verður til
Á fundi ríkisstjórnar í maí 2018 var staðfest sú stefna að árið 2020 skyldi stafræn þjónusta vera meginleið samskipta á milli hins opinbera, almennings og fyrirtækja. Ljóst var forsendur væru til staðar til að ná mun betri árangri við uppbyggingu stafrænnar þjónustu hins opinbera þar sem Íslendingar hefðu lengi mælst einhver netvæddasta þjóð heims samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum og bankaviðskipti höfðu að megninu til færst yfir á stafrænt form. Ef rétt yrði haldið á málum væri hægt að ná fram stafrænni byltingu innan stjórnsýslunnar.
Fjárfesting er ekki bara vegir og nýbyggingar heldur líka mikilvægir innviðir sem kerfin okkar treysta á. Þegar kom að stafrænum innviðum hafði opinber fjárfesting hreinlega legið niðri í langan tíma. Við tökum ákvörðun um að ráðast í fjárfestingarátak til að tæknivæða Ísland betur og íslenska stjórnsýslu. Á einhverjum tímapunkti sagði ég bara hreinlega að við vildum að niðurstaðan af þessu yrði að við gætum sagt að með því hefðum við byggt upp Ísland 2.0. Eitt það fyrsta sem við sammæltumst um var það að setja nægjanlegt púður í byssurnar til að koma hlutunum á hreyfingu. Það kann ekki góðri lukku að stýra að setja sér háleit markmið og vanfjármagna þau þannig að úr verði stanslaus þrautarganga.
Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Verkefnastofa um stafrænt Ísland var sett formlega á laggirnar og ætlað að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning með því að gera þjónustuna skýrari, einfaldari og hraðvirkari.
Markmiðið var að einstaklingar og fyrirtæki gætu leyst úr sínum málum með sjálfsafgreiðslu, auka skilvirkni og hagkvæmni, flytja gögn með öruggum hætti á milli stofnana, koma í veg fyrir tvíverknað og spara almenningi tíma og fyrirhöfn sem annars færu í ferðir til og frá stofnunum. Stafræn þjónusta sem fylgdi stjórnsýslunni yrði aðgengileg á einum stað hjá Ísland.is.
Aukin samkeppnishæfni
Betri opinber þjónusta
Öruggari innviðir
Nútímalegra starfsumhverfi
Þegar ljósleiðaravæðingarverkefninu, sem við settum mikla peninga í, lauk sáum árangurinn meðal annars í gögnum sem sýndu að nettengingar íslenskra heimila voru þær hæstu í Evrópu. Við sáum líka að netnotkun er gríðarlega mikil hjá íslenskum almenningi, líka hjá eldri kynslóðinni. Þetta gaf okkur sjálfstraust til að hugsa dálítið stórt. Við gætum sagt að það ætti að nota betur þessa innviði sem við værum þegar búin að fjárfesta í og hefðu orðið til þess að fólk væri orðið vant því að nota stafrænar lausnir. Við fórum þess vegna með tillögu fyrir ríkisstjórn um að ákveða að rafræn samskipti yrðu meginsamskiptaleið hins opinbera við almenning og fengum hana samþykkta.
Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Verkefnastofa um stafrænt Ísland lagði mikla áherslu á ígrundað val á fyrstu verkefnunum sem ráðist var í. Markmiðið var að sækja verkefni sem hægt væri að ljúka á fremur skömmum tíma og yrðu til hagsbóta fyrir sem flesta. Þannig væri hægt að sýna fram á getu til að ná skjótum árangri sem skipti máli og byggði traust á verkefninu.
Það bara blasti við okkur og hafði gert lengi að við gátum ekki unnið að hagræðingu í ríkisrekstri öðruvísi en að samþætta upplýsinga- og stafrænu þróunina við allt það sem verið er að gera eiginlega alls staðar um gjörvallt ríkiskerfið.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Árið 2018 tók verkefnastofa um stafrænt Ísland við ábyrgð á pósthólfi opinberra aðila á Ísland.is. Pósthólfið varð fyrst til í kringum árið 2010 og var þá hannað, þróað og rekið af Þjóðskrá Íslands sem meðal annars birti þar fasteignamat og skjöl frá Tryggingastofnun. Lagaleg óvissa ríkti þó um pósthólfið sem hamlaði notkun þess og framþróun. Eftir að verkefnastofa um stafrænt Ísland tók við því var ákveðið að notkun þess yrði einskorðuð við opinbera aðila og tóku lög um Stafræna pósthólfið gildi árið 2021 sem skilgreindu notkun þess og rekstur.
Unnin hefur verið áætlun um innleiðingu stafræna pósthólfsins fyrir stofnanir sem miðar að því að árið 2025 geti einstaklingar og fyrirtæki nálgast öll helstu gögn frá hinu opinbera í pósthólfinu. Markmiðið er að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga, lögaðila og stofnana.
Inni á skrifstofu stjórnunar og umbóta hafði myndast mikil þekking á verkefnum sem ætlað var að nýta kaupkraft ríkisins gagnvart birgjum, svo sem þegar kom að tölvu- og tækjabúnaði. Með stærri samningum var hægt að ná hagstæðari heildarkjörum sem tryggði litlum og meðalstórum stofnunum sömu kjör og þeim stærri og veittu betri yfirsýn á stöðu tæknimála hins opinbera. Innan verkefnastofu stafræns Íslands var byggt á þeirri þekkingu og hugað að þeim fjármunum sem sparast geta með sameiginlegum kaupum hins opinbera í stað þess að hver og ein stofnun sjái um slík kaup. Auk þeirrar hagkvæmni sem stærri samningar og miðlæg umsjón veitir fæst einnig betri yfirsýn sem dregur úr sóun og skapar tækifæri til samræmingar.
Skrifstofa stjórnunar og umbóta hafði verið keyra verkefni sem miðaði að því að nýta kaupkraft ríkisins gagnvart birgjum við innkaup á tölvum og tölvubúnaði. Þessi aðferð gat góða yfirsýn yfir það fjármagn sem verið var að nýta, jafnaði aðstöðu stofnana og dró úr sóun. Við byggðum svo á þessu módeli inn í Stafrænu Íslandi.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Þann 1. júní 2018 varð íslenska ríkið það fyrsta í heimi til að skrifa undir heildarsamning um hugbúnað við Microsoft. Samningurinn fól í sér aðgengi ríkisstofnana að nýjustu útgáfu Office 365 hugbúnaðarpakkans. Þetta var í fyrsta sinn sem ríkið gerir heildstæðan samning við Microsoft, en áður höfðu stofnanir og ráðuneyti gert sjálfstæða samninga.
Með samningnum var tækniumhverfi ríkisins samþætt enn frekar og starfsmenn ríkisins geta nú átt samskipti milliliðalaust og með öruggari hætti en áður, sem leiðir til aukinnar skilvirkni í úrvinnslu mála, auk þess sem sveigjanleiki í starfsumhverfi styður við störf án staðsetningar.
Samningurinn var einnig liður í stærra átaki ríkisins í að auka og bæta opinbera þjónustu en með þeirri hagræðingu sem í honum fólst myndaðist fjármagn sem hægt var að nýta til uppbyggingar stafrænnar þjónustu og enn frekari skilvirkni í starfsemi stofnana ríkisins.
Þetta var erfitt verkefni og kostaði erfiðar viðræður við fulltrúa stofnana sem í fyrstu sáu engan tilgang í þessum hugmyndum. En þegar við náðum svo að uppskera erfiði vinnunnar með samræmdum samningi ríkisins við Microsoft um 22 þúsund leyfi varð árangurinn fljótt svo augljós. Litlar stofnanir gátu fengið leyfin sín á sama verði og þær stærri, við urðum öll samhæfð og með meira öryggi. Það sem skipti samt mestu máli er að við hittum hverja einustu stofnun og áttum samtal um málið en með því gátum við kynnt hugmyndir okkar í stærra samhengi og hvernig við sæjum Ísland.is sem samræmda miðju allra stofnana ríkisins gagnvart almenningi. Einhverjir tóku þessum hugmyndum vel en stærri stofnanir höfðu meiri efasemdir og fannst skrýtin tilhugsun að við sæjum það fyrir okkur að vefsíður þeirra gætu orðið undirvefsíður á Ísland.is með samræmdri stefnu um hönnun, efni og rekstri. Nú eru fullt af stofnunum komnar inn og langur biðlisti eftir því að komast að.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Í lok júní 2018 var tilkynnt um að greiðsluseðlar fyrir bifreiðagjöld einstaklinga yrðu frá og með 1. júlí eingöngu birtir rafrænt. Samhliða birtingu seðlanna myndi stofnast krafa í netbanka. Þar til þá höfðu verið sendir út um 480 þúsund greiðsluseðlar vegna bifreiðagjalda á pappírsformi en með breytingunni sparast um 83 milljónir króna árlega og 5 tonn af pappír.
Mér fannst þetta vera augljós sóun og ég fer og tala við ábyrgðaraðila og spyr hvort það sé ekki rétt að birta greiðsluseðla um bifreiðagjöld bara í Stafræna pósthólfinu. En viðkomandi sagði bara nei, við skulum bara bíða í eitt ár, það liggur ekkert á. Að endingu varð ég að nota hálfgerða klæki og fá ákvörðunina hjá ráðherra og segja bara. „Hann er búinn að ákveða þetta.“ Svona langaði mig samt ekki að vinna, mig langaði bara að koleggar manns sæju það að þarna voru geggjuð tækifæri.
Guðrún Ögmundsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Innleiðing á Straumnum (X-Road) á Íslandi hófst í nóvember 2018. Straumurinn er gagnaflutningslag fyrir upplýsingakerfi og er í senn tæknilegt umhverfi og skipulag og tryggir örugg gagnasamskipti á milli upplýsingakerfa.
Straumurinn gerir stofnunum kleift að eiga í samskiptum við borgara með mismunandi kerfum eða vefgáttum á sveigjanlegri hátt en áður hefur þekkst. Sem dæmi geta upplýsingar um einstaklinga, sem skráðar eru í einu kerfi, flætt yfir í annað.
Það minnkar tvíverknað og ekki þarf að óska eftir upplýsingum frá borgurunum, sem ríkið býr þegar yfir. Stofnanir og fyrirtæki geta tengst Straumnum og með því verða samskiptaleiðir milli upplýsingakerfa staðlaðar sem eykur hagræðingu í uppsetningu og rekstri auk þess sem samskiptin verða öruggari.
Eistar byggðu upp þessa samtengingu á milli stofnana þannig að gögn gætu flust örugglega þeirra á milli í kringum 2002. Sagan segir að sama hugmynd hafi kviknað áður hér á landi. Þótt ég ætli ekki að taka heiðurinn af Eistum þá held ég að eitthvað gæti verið til í því enda vorum við Íslendingar framúrskarandi í upplýsingatækni í kringum 1990 til 2000 og náðum árangri á borð við þann að verða fyrsta þjóðin til að skila skattframtali okkar í gegnum vefinn og álíka. Þegar við misstum fókusinn misstum við líka tækifæri á að hrinda svona hugmyndum í framkvæmd.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Það fæst mikið út úr því fyrir kerfið í heild sinni að allir séu að vinna nokkurn veginn á sama grunni. Ef menn eru með sameiginlega innviði þá geta menn unnið saman á milli stofnana og á miklu einfaldari og öruggari hátt og menn geta nýtt sér lausnir hvors annars.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Árið 2019 var sett fram tæknistefna fyrir Ísland.is með það að markmiði að ná betur utan um upplýsingatæknimál og -kerfi ríkisins. Með því að skilgreina tækniarkitektúr ríkisins varð til stefna sem tryggði enn frekar samræmingu og sveigjanleika upplýsingatækniinnviða. Jafnframt skapast forsendur til að nýta betur hagræðingartækifæri í rekstri og innkaupum á upplýsingatæknibúnaði, til dæmis með fækkun tegunda af búnaði sem nýttur er í starfsemi ríkisins.
Ég vissi að ríkið hafði sett mikla peninga í kerfin en samt höfðum við dregist aftur úr. Þetta snýst nefnilega um hvernig peningar eru notaðir. Það er að segja, er verið að fjármagna sömu verkefnin úti um allt og er kannað hverju fjármunirnir nýtast? Það vantaði þessa yfirsýn. Ráðherra kveikti alveg á þessu og við lögðum því upp með plan sem var í grunninn að efla þjónustu, efla innviðina og ekki síst að efla samstarf til að ná árangri.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Við ætluðum ekki að láta vinnuna alla í hendurnar á starfsmönnum í ráðuneytinu eða starfsmönnum í Stafrænu Íslandi heldur virkja það hugvit og þann kraft sem var úti í samfélaginu og í tæknifyrirtækjum. Hugmynd kviknaði um að fara í þessa teymisvinnu. Við fórum út og sóttum hæfileika frekar heldur en einstakar lausnir og mér sýnist að það hafi heppnast gríðarlega vel hjá Stafrænu Íslandi.
Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Einn lykilþátta í því að hægt var að ráðast hratt í uppbyggingu stafrænna innviða hjá hinu opinbera helgast af algjörri endurhugsun á fyrri aðferðum við útboð ríkisins á sérsmíði á hugbúnaði. Í samstarfi Ríkiskaupa og Stafræns Íslands var látið reyna á þróunarverkefni sem byggði á þátttöku þverfaglegra teyma. Undirbúningur verkefnisins var mikill og markmiðið að búa til umgjörð þar sem öflug teymi ólíkra fyrirtækja ynnu saman í opnu umhverfi eftir Agile-hugmyndafræðinni að bættri stafrænni þjónustu hjá hinu opinbera. Til að finna rétt teymi til var ný aðferð skilgreind til að ákvarða hvaða bjóðendur yrðu fyrir valinu í útboðinu. Stuðst var við hæfni fyrirtækja út frá raundæmum sem metin voru af matsnefnd en að því loknu litið til verðtilboða.
Út frá niðurstöðunum voru valin teymi frá ólíkum fyrirtækjum, sem jafnan eru í samkeppni, til að vinna sameiginlega að lausnum. Með þessari aðferð var kraftur atvinnulífsins virkjaður í þágu hins opinbera og fjölbreyttari nálganir og reynsla dregin að verkefninu en fengist hefði með eldri útboðsaðferðum.
Lærdómurinn sem dreginn var af þessari aðferð var einkum tvíþættur, annars vegar að hægt er að spara mikið fé, hraða vinnu, lágmarka sóun og fá betri lokaniðurstöðu með nýjum en krefjandi leiðum við innkaup á þjónustu fyrir ríkið, og hins vegar að gæði þurfa að fá meira vægi við útboð en verð.
Allt þetta er meðvituð ákvörðun, um aðferðafræði sem hafði svona verið að malla í svolítinn tíma. Þannig þetta var ekki að koma alveg splunkunýtt til leiks gagnvart Stafrænu Íslandi. Enda held ég það hefði verið erfiðara að selja það sem konsept innan ráðuneytisins ef maður var ekki alltaf að tala um þú veist reynsluna, reynslu Alþingis, reynslu Vinnumálastofnunar, reynslu Fjármálaeftirlitsins. Og í millitíðinni hafði þessi aðferðafræði skoppað yfir götuna til Reykjavíkurborgar.
Guðrún Birna Finnsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Já, en þessi nálgun á því hvernig þú nálgaðist fyrirtækin, hvernig við röðuðum þeim inn, hvernig við hönnum þessa hver er með og hvernig við hönnum þennan samning hvað gerist svo, þetta kemur bara ekki eitthvað fullskapað. Þetta er þróunarverkefni þú veist fyrirtækin höfðu aðkomu að því sjálf á því að hanna það hvernig þessi aðferðafræði liti út. Ég lít á Agile Ísland ráðstefnuna 2013 sem svolítið svona stóran hlut í því að þetta tókst vel. Af því að fyrirtæki sem voru í því að búa til hugbúnað í Agile aðferðafræðinni á þessum tíma voru með í að búa til hugmyndafræðina um það hvernig þau gætu boðið í þróun með Agile aðferðinni.
Guðrún Birna Finnsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Við vorum svona að hanna þetta samningsform, þannig það næði utan um þetta. Bæði hverjir kæmu inn í samninginn, þegar það er verið að stilla upp þessari samkeppni og það var gert á nákvæmlega sama hátt og við höfðum hannað hann upphaflega fyrir Fjármálaeftirlitið. Að taka bút af heildarverkefni og borga fyrir þá vinnu, meta síðan til gæða, meta og vega það síðan á móti tímakaupinu. Sömuleiðis að samningsformið sýni hvar þú ert í röðinni í rammasamningi. Rammasamningur af því við vitum ekki nákvæmlega hvað gerist á samningstíma. Það fer eftir fjárveitingum og öðru. Ég er viss um auðvitað að það bara gæti klárast peningurinn og allir væru bara sendir heim og það verður að vera ljóst. Og sömuleiðis að það væri ljóst í hvaða röð teymin eiga rétt á verkefnið.
Guðrún Birna Finnsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Lærdómurinn af fyrsta útboðinu var að við vorum með of hátt vægi á verði, þannig við lækkuðum það í næsta verkefni niður í 30% og vorum með 70% fyrir gæði.
Guðrún Birna Finnsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Ég held að helsta uppgötvunin hafi kannski verið sú að það náðist meiri samvinna meðal hugbúnaðarfyrirtækjanna heldur en við kannski endilega sáum fyrir okkur. Þarna vorum við að stilla saman samkeppnisaðilum og héldum að þau færu öll að keppa við hvort annað. Helsta uppgötvunin var að þegar að það voru bara allir á sínu tímakaupi hjá sínum frumbirgja að vinna að sameiginlegu viðfangsefni og geta bara leyft sér að standa sig vel. SVONA fer landsliðið að ná árangri saman.
Guðrún Birna Finnsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Gömul arfleifðarkerfi sem er jú verið að viðhalda. En það hefur aldrei átt sér raunveruleg samkeppni stað um þessa vinnu. En, já, Stafrænt Ísland, það var fyrsta útboðið, eitt útboð það gekk bara vel. En það sem hafði verið gert í þeim samningi var að segja að það væri hámarksfjárhæð. Ég man ekki hver hún var. [Eftir rúmt ár] Og þá verður þetta bara fínt að taka aðeins til í þessari aðferðafræði, þú veist ítra svolítið. Svo vel að hratt þurfti að bjóða út aftur því fjárfestingarnar höfðu farið í góða vinnu og nú þurfti að læra af reynslunni og gera samninginn enn betri. Þarna voru, fólkið sem hafði verið að vinna með samninginn orðið miklu flínkara en ég, ég var ekki búinn að vera að vinna með samninginn, í að ítra hann. Þannig það var tekið til í aðferðafræðinni. En hún er samt í grunninn eins.
Guðrún Birna Finnsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Innkaup er eitt af þeim tækjum sem þú getur nýtt til að ná fram umbótum.
Guðrún Ögmundsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Knýjum fram breytingarnar í gegnum upplýsingatæknina, það er að nýta upplýsingatæknina til að gera þessa hagræðingu sem fjármálaráðuneytið vill gjarnan að stofnanirnar geri og það tók alveg svona eitt, tvö ár að fá þann hljómgrunn inni í ráðuneytinu.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Allir kóðar sem skrifaðir eru með samvinnu einkaðila fyrir vef Ísland.is eru opnir. Markmiðið er að öll hugbúnaðarþróun á vegum Stafræns Íslands sé opin þeim sem þá vilja nota eða þróa og sameign samfélagsins. Ákvörðunin hefur það einnig í för með sér að opinberar stofnanir festast síður í viðskiptum við fyrirtæki sem þróar hugbúnaðinn til að byrja með. Auk þess draga opnir kóðar úr kostnaði við verkefni, koma í veg fyrir tvíverknað og eykur gegnsæi. Kóðarnir eru því hvorki læstir hjá ríki né einkamarkaði heldur nýtast þeir báðum aðilum.
Við vissum ekkert um innkaup ríkisins þannig við þurfum að læra það og um leið að hugsa hlutina upp á nýtt. Við fengum „crash course“ hjá Guðrúnu Birnu sem er sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu í innkaupum ríkisins og teiknuðum upp hvernig við ætluðum að kaupa fólk og fá það til þess að þróa kóða í sameiningu. Það hefur enginn á Íslandi gert þetta með þessum hætti sem við fórum í, það er að fá fjölda ólíkra hugbúnaðarfyrirtækja til að þróa sameiginlega opið kóðasafn.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Þetta er okkar tæknistefna, og þessa leið erum við að fara og þá geta stofnanir samnýtt lausnir. Þannig geta menn hagrætt og bara hreinlega peningalega, það að hafa allan kóðann sem þið eruð búin að vera framleiða núna síðustu þrjú árin eða eitthvað opinn fyrir hverjum sem er bara stofnunum heldur þú gætir eða bara eitthvert fyrirtæki úti í bæ, geti nýtt sér að því við þjóðin er búin að borga fyrir. Það skiptir rosalega miklu máli.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 sem kynnt var síðla árs 2019 var tilkynnt um að ráðist yrði í enn frekara átak til að efla stafræna stjórnsýslu. Verkefni voru skilgreind og fjármunir til verkefnisins stórauknir. Sú ákvörðun og sú vinna sem þegar hafði verið unnin átti eftir að reynast ákaflega heillavænleg í ljósi þess að heimsfaraldur Covid19 var í þann mund að breiðast um heiminn.
Aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu Covid19 kölluðu á umbyltingu í öllum samskiptum og gagngerar umbætur í upplýsingatækni og sjálfvirknivæðingu. Þótt íslensk stjórnvöld hefðu ekki séð þá stöðu fyrir, frekar en nokkur annar, var þegar búið að undirbúa jarðveginn, varða leiðina, tryggja fjármögnun og taka ákvörðun um ráða sterkan stjórnanda til að leiða frekari framþróun stafrænnar stjórnsýslu – sem kom sér vel í áskorununum framundan. Þannig var Covid19 ekki ástæða þess að ráðist var í stórtæka uppbyggingu í stafrænni þjónustu á þessum tíma en staðan dró mikilvægi þeirra áforma fram með skýrum hætti og ýtti undir enn hraðari framkvæmdir en stefnt hafði verið að.
Það var algjörlega nauðsynlegt að koma á fót sérstakri einingu utan um þetta verkefni til að hún myndi ná í gegn alls staðar í stjórnkerfinu vegna þess að stjórnkerfið er dálítið vant að hugsa um verkefni í sílóum. Nokkur lykilatriði þurfti að tryggja til að þetta færi rétt af stað fyrir alvöru og helst ber að nefna: Hvernig því var komið fyrir í stjórnkerfinu og kæmist þvert í gegnum alla stjórnsýslu, að fá sterkan leiðtoga með metnað, framtíðarsýn og þekkingu, fjármagn og svo var skynsamlegt að byrja ekki á því að reyna sigra heiminn heldur sækja litla sigra snemma.
Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Við tökum ákvörðun um að fara í fjárfestingarátak. Það er hluti af því vera að tæknivæða Ísland betur, íslenska stjórnsýslu, og á einhverjum tímapunkti sagði ég að við vildum að upp úr öllu þessu kæmi að við gætum sagt að við værum að byggja upp Ísland 2.0. Eitt það fyrsta sem við ákváðum að gera í þessu var að og sammælast um að ef við ætluðum að gera þetta þá þyrftum við að setja nægjanlegt púður í byssurnar og í tunnurnar til að koma hlutunum á hreyfingu. Það kann ekki góðri lukku að stýra að setja sér mjög háleit markmið og vanfjármagna þau þannig að þetta sé stanslaus þrautarganga, tókum okkur til og settum til hliðar bara umtalsvert fjármagn til að hrinda af stað átaki þar sem við erum komin alveg upp í um einn og hálfan milljarð á ári í tæknilegar lausnir og við kölluðum þetta snemma Stafrænt Ísland, í þessu ferli, man ekki nákvæmlega hvenær það hugtak verður til.
Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Ég setti fram framtíðarsýn um Stafrænt Ísland, framþróun tæknimála á Íslandi og markmið um að komast í 1. sæti alþjóðlegra mælikvarða. Íslenskt samfélag hefur alla burði til þess. Við erum með öll hráefnin til staðar. Við erum með þekkingu hjá fólkinu og við getum unnið hratt ef við fjárfestum í verkefnum. Það var bara mitt markmið að byggja á þessu og við höfum sýnt að það er hægt er að ná árangri hratt og örugglega.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
4. Stafrænir innviðir og samrekstur
Í ársbyrjun 2020 réð fjármálaráðuneytið stafrænan leiðtoga yfir verkefnastofu um stafrænt Ísland. Sá bjó yfir stjórnunarreynslu frá alþjóðlegum fyrirtækjum, hafði komið að stofnun fyrirtækja og hafði metnaðarfulla framtíðarsýn. Innan skrifstofu stjórnunar og umbóta var búið að vinna mikla grunnvinnu um verkefnastofuna en nú fóru málin á flug.
Stafrænt Ísland varð sjálfstæð eining með eigin fag- og stjórnunarlega innviði, fjármögnun og svigrúm til að ráða starfsfólk sem gat að fullu helgað sig málum en áður höfðu verkefnin mikið verið unnin með áhugasömu fólki sem var lánað annars staðar úr stjórnkerfinu. Með þessu varð vinna Stafræns Íslands markvissari og ásýnd verkefna sterkari. Stafrænt Ísland skapaði sér sess og sýnileika enda hafði hluti af áherslum við ráðningu leiðtoga stafrænna mála verið að viðkomandi væri meira en stjórnandi – heldur einnig andlit stafrænna mála út á við og talsmaður uppbyggingar stafrænnar þjónustu.
Þetta tók raunverulega flugið fyrir alvöru þegar við ákváðum að það væri nauðsynlegt að verkefnastofan væri aðgreind eining með eigin stjórnanda. Við vildum að yfirmaður þessara mála væri meira en stjórnandi, hann átti líka að vera talsmaður þess. Það er óvenjulegt þegar um ráðuneyti er að ræða, verkefni sem unnin eru í ráðuneytum eiga enga talsmenn út á við annan en ráðherrann sjálfan. Þetta er óvenjulegt módel en útpælt og rosalega ánægjulegt hjá okkur sem vorum að vinna þessi áhersluatriði að sjá hvað þetta hefur allt gengið eftir og hvað þetta hefur allt sannað sig. Við höfum greinilega hitt rétt á hlutina en í framhaldinu höfum við hitt á rétta fólkið til að láta þetta blómstra.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Við hefðum aldrei getað hlaupið jafn hratt og náð jafn miklum árangri og raunin varð nema það hafi verið búið að leggja jarðveginn mjög vel og vinna ýmsa undirbúningsvinnu, fyrsta útboðið var aðeins farið af stað og búið að setja upp þennan strúktúr um Stafræn Ísland sem ég held að sé í fyrsta lagi mjög óvenjulegur fyrir ríkið og í rauninni mjög hugrakkt að fara þessa leið. Þetta var gert með óhefðbundnum hætti til að búa til sveigjanleika og til að við gætum hreyft okkur hratt en samt með skýrt umboð. Þannig ég gat komið inn og sett mitt mark á framhaldið.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Þá vildi ég strax frá upphafi tryggja að svona mikilvægt verkefni sem átti að fá svona mikla forgangsröðun að því yrði skipulagslega þannig komið fyrir í ráðuneytinu að það ætti ekki að vera neinum vafa undirorpið að sá sem leiddi verkefnið. Hann hefði umboð til að taka stórar ákvarðanir og hann stæði nálægt ráðherranum, ráðuneytisstjóranum í skipuritinu og þetta og kostaði hann og talsverða yfirlegu vegna þess að í sjálfum sér þá ætluðum við ekki að búa til nýja skrifstofu þannig að það yrði sem sagt hérna til einhver hefðbundið skrifstofustjóri heldur fæddist upp úr þessu samtali, þessi ágæta hugmynd, að koma á bara alveg nýju fyrirkomulagi utan um þessa verkefnastofu og hún heyrir að hluta til beint undir ráðherrann þó skipulagslega í ráðuneytinu sé haldið utan um verkefnið innan Skrifstofu umbóta og stjórnunar. Og þetta held ég að hafi skipt töluvert miklu máli
Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Árið 2019 var Ísland í 19. sæti alþjóðlega mælikvarðans E-Government, sem mælir gæði stafrænnar stjórnsýslu. Markmiðið var að koma Íslandi aftur í fremstu röð þjóða þegar kom að stafrænni stjórnsýslu. Svo hlaupið sé hratt yfir sögu þá var Ísland komið í 5. sæti á sama mælikvarða árið 2022 og hækkaði þar með um 14. sæti örfáum árum. Opinbera þjónustugáttin Ísland.is er metin ein besta þjónustugátt opinberra aðila og appið Ísland.is þykir það fullkomnasta sinnar tegundar.
Ég man eftir því að Bjarni sagði einhver tímann við mig. „Undirbúningstímabilinu er að ljúka. Við erum búnir að vera að leggja ákveðinn jarðveg og var búið að vera að vinna ákveðna undirbúningsvinnu. En núna er undirbúningnum lokið og við þurfum að fara í keppnisgallann og fara að ná einhverjum sigrum. Það rímaði við það sem ég vildi gera. Ég hef gaman að því að sýna árangur. Ég vildi bara fara í keppnisgallann, bretta upp ermar og keyra þetta á öðrum hraða á skala heldur en þetta hafði verið gert hingað til.“
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Með tilkomu miðlægrar, stafrænnar þjónustugáttar undir merkjum Ísland.is og verkefnastofu um Stafrænt Ísland fóru hjólin að snúast enn hraðar. Ákvörðun var tekin um að sýna fram á hraða framvindu vegferðarinnar til að auka tiltrú almennings og stjórnsýslu. Áfram var lögð áhersla á að velja verkefni sem drógu fram sýnilegan árangur og drógu úr sóun auk þess sem enn markvissari áhersla en áður var lögð á að verkefnin hefðu snertingu við líf fólks og bættu þjónustu við það.
Rík áhersla var lögð á notendavæna hönnun sem einfaldaði almenningi samskipti sín við hið opinbera með stafrænum lausnum og að gögn flyttust milli stofnana en ekki fólks. Jafnframt var frá upphafi hugað mjög að allri markaðssetningu og kynningu auk þess sem vel var haldið utan um sögu verkefna svo auðvelt væri að draga fram ávinning sem náðist með vinnunni.
Við vorum alveg með hugann við framtíðina og hvernig við vildum helst sjá mál þróast en við þurftum líka að skila af okkur einhverju. Það gengi ekki ef við væru bara eitthvað að smíða einhverjar geimflaugar á bak við tjöldin sem myndu sjást eftir langa bið. Það þurfti að koma eitthvað út úr þessu strax.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Prósessinn er oftast að við hittum fulltrúa stofnana, reynum að skilja þjónustu þeirra, teikna hana upp og finna hvar tækifærin liggja. Hversu erfitt er að stafvæða þjónustuna, hvernig best er að forgangsraða verkefnunum. Prófum að byrja á tiltölulega einföldum verkefnum og látum samstarfið vaxa út frá þeim.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Ísland.is er stafræn, miðlæg og notendamiðuð þjónustugátt sem Stafrænt Ísland annast. Lögð er áhersla á að hönnun Ísland.is miði að þörfum þeirra sem leita eftir þjónustu hins opinbera og lífsviðburðum almennings. Upplýsingar séu skýrar um hvar eigi að byrja, afla sér upplýsinga, sækja um þjónustu og eiga samskipti við ríkið í gegnum stafrænar lausnir. Stefnt er að því að þar verði í framtíðinni hægt að nálgast alla opinbera þjónustu og leysa úr sínum málum á skilvirkan hátt. Þegar hafa fjölmargar stofnanir kosið að vista heimasíður sínar sem undirsíðu á Ísland.is og njóta þess hagræðis sem felst í samnýtingu á verkfærum á borð við hönnun, efnisstefnu, aðgengismál og rekstrarumhverfi.
Markmiðið er að fólk þurfi ekki að þræða frumskóga stofnanna og ólíkar vefsíður þeirra heldur sé leitt áfram og stutt við að ljúka þeim verkefnum sem það þarf að sinna gagnvart hinu opinbera. Ísland.is er einnig sérstaklega hannað með aðgengismál í huga en kannanir hafa sýnt að aðgengismál hjá stærri stofnunum er betra en hjá þeim minni. Samræmd þjónusta og upplifun auðveldar því samskipti við hið opinbera enn frekar enda er Ísland.is metið sem ein besta þjónustugátt opinberra aðila samkvæmt mælikvarða Evrópusambandsins, eGovernment Benchmark.
Í rauninni er grunnurinn að þessu að bæta þjónustu ríkisins eða opinberra stofnana. Fólk er orðið vant því að þjónusta sé stafræn og við getum leyst úr málunum okkar í tölvunni eða símanum. Það var verkefnið okkar. Hugmyndin að baki miðlægri þjónustugátt var raunverulega að það sé einn staður sem stofnanir geti sett upp þjónustuna sína í staðinn fyrir að 164 aðilar reyni að finna út úr þessum vanda hver og einn. Það er kannski ekki hagkvæmt fyrir ríkið að kaupa sömu hugbúnaðarlausnirnar í gegnum 164 aðila og hvað þá ef þú bætir sveitarfélögunum við. Ríkið rekur 240 vefsíður eða rak 240 vefsíður, þeim hefur eiginlega fjölgað í hverri viku. Og maður spyr sig, þarf ríkið eina síðu í viðbót?
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Flestar þessar stofnanir sem við ræddum við áttu í vandræðum með að uppfæra og halda við því sem var smíðað. Það koma alltaf nýir vafrar, það koma ný tæki. Þú þarft endalaust að vera að hugsa út í það að styðja öll þessi nýju tæki og nýju vafra og nýjar tölvur og bara allskonar nýjar öryggiskröfur. Aðgengismál og allt þetta sem þú þarft að hugsa út í sem stafræn stofnun á netinu. Við erum raunverulega að leysa það með einni stórri lausn skulum við segja.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
En það kom mér skemmtilega á óvart, hversu kraftmikið og öflugt fólk er í ráðuneytinu og á fleiri stöðum. Svo kom mér á óvart og hefur unnið mjög mikið með okkur en það er að það er oft innbyggð einhver tregða við að taka ákvarðanir, fólk er alltaf að leita eftir einhverju umboði og þorir ekki. Það var alltaf einhver að velta fyrir sér hver getur tekið ákvörðun um þetta, og það fer til næsta skrifstofustjóra, ráðuneytisstjóra og ráðherra. Þetta tekur allt ótrúlegan tíma í staðinn. Ég var oft í þeirri stöðu að allir voru að spyrja: Hver má taka ákvörðun um það? Ég sagði bara. Ég skal taka ákvörðun um það. Auðvitað var ég með mjög skýrt umboð til að skuldbinda ríkissjóð í upplýsingatæknimálum. En oft og tíðum bara tók ég mér þetta umboð, var ekkert að fara að spyrja síðan ráðuneytisstjóra eða ráðherra, ég bara tók þessa ákvörðun og svo stend ég og fell með henni. Sumar ákvarðanir eru réttar og sumar rangar og þá bara að viðurkenna mistökin og halda áfram. Ég vil miklu frekar keyra hlutina áfram og bara ákveða hvernig þeir eiga að vera, og svo bara leiðrétta ef maður gerir mistök, frekar heldur en að taka engar ákvarðanir.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Sumarið 2021 gaf hið opinbera út nýja stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera (júlí 2021). Í henni er stefnt að því að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu og stafræn þjónusta verði notuð til að skapa öflugt samfélag með aukinni samkeppnishæfni. Það leiði til verðmætasköpunar og myndi grundvöll hagsældar.
Stafræn þjónusta er skýr, örugg, einföld og hraðvirk auk þess sem upplifun notenda af þjónustunni stenst samanburð við þjónustu eins og hún gerist best. Almenningur og fyrirtæki í landinu komast beint að efninu, hvar og hvenær sem er, sem sparar dýrmætan tíma fólks. Jafnframt minnka áhrif þjónustunnar á náttúruauðlindir.
Fljótlega var hafist handa við að skoða hvar hægt væri að einfalda líf fólks og var rafrænt sakavottorð eitt þeirra verkefna sem ráðist var í. Fjöldi fólks þarf að að skila inn sakavottorði árlega eða um 14 þúsund manns og þurftu viðkomandi til þessa að keyra til Sýslumanns og fá útprentað sakavottorð. Meirihluti þessa einstaklinga var ekki með neitt á sakaskránni og því auðvelt og mikil hagræðing í því að byrja á þeim hópi til að byrja með.
Um 14 þúsund manns á hverju einasta ári sem sækja sér sakavottorð. 98% eða 99% af þeim eru ekki með neitt á sakaskránni þannig að eina sem þau fá er tómt blað sem segir þú ert ekki með neitt brot. Það er í raun og veru það sem fólk er að biðja um vegna þess að það þarf að fara með það til tilvonandi vinnuveitanda eða eitthvað sem tengist starfi. Þú þarft jafnvel að skila þessu árlega til að geta haldið starfi. Þannig það sem við höfum gert í því er að reyna að auðvelda það. Við tókum fyrst bara hópinn og komumst að því að við gátum ekki stafvætt brotasöguna. Við byrjuðum þá bara á hópnum sem var bara með tómt blað, það er að segja enga sögu um brot. Þannig það var bara tékk, er tómt blað hjá þessum, það er tómt blað og þá létum við hann hafa tómt blað. Þannig var bara fyrsta lausnin. Svo unnum við í því á bakvið að laga skráningu brotanna og komum svo með uppfærslu á lausninni. En á meðan þá eru 13 þúsund manns sem geta fengið þjónustuna í 1 og hálft ár, og við gátum sparað þessu fólki 26 þúsund bílferðir. En almennt hjá ríkinu er viðhorfið að þjónusta má ekki fara út fyrr en allir geta notað þjónustuna. Og það er smá breyting sem við erum að gera. Af því að það er enn þá til gamla þjónustan, við erum ekki að rýra þjónustu hins hópsins, við erum að bæta þjónustu vissulega eins hóps á meðan við vinnum í að laga hitt. Og þá erum við líka að fá alveg ótrúlega dýrmæta reynslu af því að þegar við setjum einhverja stafræna lausn í loftið þá getum við aldrei hugsað fyrir öllu. Þannig það er líka reynsla sem við fáum með því að vera með eitthvað í gangi. Þannig að við segjum oft að við séum með eitthvað í "Beta" ferli eða þú veist það er komið út en við erum að mónitora það. Erum að fylgjast með og passa upp á að lausnin sé að virka. Að koma einhverju út og vinna svona Agile og vinna með þetta orð minimum viable product eins og það heitir á ensku. Eða svona einhverja lágmarksvöru sem við getum sett í loftið og það er það sem við erum alltaf að gera enn þá í dag. Við erum alltaf að byrja á einum hóp og bæta svo við. Bara með því að geta gert það í tölvunni án þess að setjast upp í bíl það er raunverulega það sem þetta sparar fólki bílferðir.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Sakavottorð var svona þjónusta sem að augljóslega væri gott verkefni til þess að koma í stafrænt form vegna þess að flestir sem að keyra til sýslumanns fá bara eitthvað blað sem stendur á „ekkert brot“. Og að þurfa að keyra eitthvert í 20 mínútur og aftur í 20 mínútur bara til þess að fá eitt útprentað blað er náttúrulega í stafrænum heimi galið. Það var svona eitt af því verkefni sem við fundum að væri svona ákjósanlegt og líka það að það var mjög mikið af fólki sem notar þetta. Það voru 14 þúsund á ári sem að sækja sér sakavottorð þannig þetta er svona "high volume" ef maður slettir.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Hafist var handa við að gera stafrænar umsóknir um fæðingarorlof að veruleika stuttu síðar og fóru formlegar umsóknir í loftið í janúar 2022. Þessi vinna hafði mikil áhrif og ruddi svo sannarlega brautina fyrir það sem kom á eftir. Árlega fæðast rúmlega 4.000 börn á Íslandi og hafa báðir foreldrar og vinnuveitendur aðkomu að slíkri umsókn, eða alls um 16.000 aðilar. Með því að gera umsóknina stafræna náðist að lækka kostnað og spara vinnu bæði fyrir starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs og þá foreldra sem árlega fá greiðslur úr sjóðnum.
Maður var að gera þessar ábatagreiningar, eins og með Fæðingarorlofssjóðinn. Vinnumálastofnun var nýbúin að taka við Fæðingarorlofssjóði og þá fórum við og kynntum tækifærin fyrir þeim. Þannig við vorum búin að gera svona kynningu og gátum sýnt þeim ávinninginn og þá voru þau til í að gera þetta með okkur. Þannig við höfðum bara frumkvæðið af því að tala við þau. Og á sama tíma þá héldum við upplýsingafundi, við héldum upplýsingafund fyrir UT-stjóra hjá ríkinu og þá áttaði maður sig á því hvað það var mikil eftirspurn þar eftir því. Við ætluðum aldrei að komast út úr salnum því fólk var að koma með endalausar hugmyndir og bjóða sig fram til koma inn í verkefnið með okkur og þannig náðum við að „recruita“ aðeins inn í þetta. En það fólk náði svo aldrei að losa sig úr gömlu vinnunni þannig það var líka vandi. En við vorum að kynna sýn okkar og tækifæri og síðan fórum við og ræddum við sérstakar stofnanir og mér er minnisstætt þetta með Fæðingarorlofssjóð og svo fórum við líka reyndar í gegnum ráðuneytið, þá fórum við og hittum sýslumenn út af rafrænum þinglýsingum. Það verkefni hafði þá verið í gangi í mörg mörg ár og tók svo líka miklu lengri tíma en við héldum.
Guðrún Ögmundsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Það eru bara nokkur ár liðin síðan að öllum fannst eðlilegt að vinna í pappírsheimi. Fæðingarorlofið ruddi rosa mikið brautina. Svo gott að vera með case sem við gátum raunverulega alltaf notað í öllu, allri umræðu. Það skilja allir að það þurfi að stafræn væða umsókn um fæðingarorlof. Þarf ekki að eyða mikilli orku að selja fólki það.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Unnið hafði verið að því að koma þinglýsingum á stafrænt form í fjölda ára. Það verkefni náði hins vegar ekki flugi fyrr en það kom inn á borð Stafræns Íslands en þá fór boltinn að rúlla. Fyrsti hluti rafrænna þinglýsinga fór í loftið í júlí 2021 og er stefnan sett á að allir geti þinglýst skjölum með rafrænum hætti fyrir árslok 2023. Óhætt er að segja að þetta sé stór áfangi, enda verkefnið þjóðhagslega mikilvægt og ávinningurinn gríðarleg þar sem verkefnið sparar um 1,5 m.a. króna á ári.
Mikið vatn hefur runnar til sjávar og daglega bætist við stafrænar þjónustur hjá hinu opinbera.
Snemma í þessu ferli þá reyndum við að áætla ávinninginn af þessu öllu saman og við teljum alveg augljóst að við erum með stafrænum lausnum að spara marga milljarða á ári. Ég hef alla tíð sagt um þetta verkefni að það snúist í grunninn minna um að spara peninga og miklu meira snýst þetta um það að að viðhalda eða efla traust og tiltrú á stjórnkerfinu...
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
5. Ávinningur af Stafrænu Íslandi
Ávinningur Stafræns Íslands er ótvíræður. Stafræn tækni hefur leitt til meiri skilvirkni, minni kostnaðar, tímasparnaðar og enn betri þjónustu innan opinberra stofnana. Nú þegar hefur mikill árangur náðst með auknu samstarfi og samrekstri, ásamt því að innleiðing stafrænnar tækni hefur þegar sparað miklar fjárhæðir em nýta má til enn frekari uppbyggingar á stafrænni þjónustu og bæta þar með enn frekar þjónustu við almenning.
Stafvæðingin hefur einnig einfaldað líf fólks, bæði almennings og starfsfólks stofnana. Áður fyrr þurfti fólk í mörgum tilvikum að gera sér ferð til Sýslumanns eða annarra stofnana í eigu hins opinbera en getur nú afgreitt málin í gegnum rafræn ferli. Þetta hefur í senn jákvæð áhrif á umhverfið og væntingar almennings þar sem ávinningurinn er sýnilegur auk þess sem færri handtök innan stofnananna gera það að verkum að þjónusta þeirra verður skilvirkari og öruggari sem leiðir til enn meiri ánægju þeirra sem eiga hlut að máli.
Augljós ávinningur sjáum við þar sem við erum að að einfalda líf fólks, það er slóganið okkar. Við spyrjum okkur því alltaf að því hvort við séum að einfalda líf fólks þegar við ákveðum hvort við stafræn væðum einhverja þjónustu eða ekki. Við erum ekki að eyða orkunni okkar í eitthvað sem er kannski þægilegt fyrir stofnunina sjálfa eða einhverja innri starfsemi. Við erum að horfa á framlínuþjónustuna, þjónustuna sem lýtur að notendum. Þar er okkar fókus.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Þetta hefur leitt til viðhorfsbreytingar og haft þau áhrif að starfsfólk hjá hinu opinbera gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að það vinni saman þvert á stofnanir í góðri samvinnu við Stafrænt Ísland í að bæta þjónustu við almenning með stafvæðingu að leiðarljósi.
Langstærsti ávinningurinn er viðhorfsbreyting. Viðhorfin eru gjörbreytt og skilningurinn á því að setja kraft í þetta. Ávinningur almennings hefur aukið skilning á mikilvægi þess að gera þetta vel og bara einfaldir hlutir sem við finnum strax fyrir skipta miklu máli. Að fólk þurfi ekki lengur að taka bílferð og standa í biðsal á einhverri stofnun, þetta eru hlutir sem fólk finnur fyrir og kann að meta. Skilningurinn á því að það geti verið skynsamlegra að vinna málin saman heldur en hver í sínu horni skiptir mjög miklu máli.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Ávinningurinn er auðvitað sýnilegur árangur, það held ég að sé augljóst, svo sem í betri og einfaldari þjónustu. Það er verið að auðvelda fólki að fá úrlausn sinna mála og erindi sín leyst gagnvart ríkiskerfinu og þeim þjónustuaðilum sem eiga þar að veita lipra og góða þjónustu. Það er mjög margt, eins og bara verkefnalisti Stafræns Íslands sýnir okkur, sem hefur áunnist í því. En svona í víðara samhengi þá held ég að það hafi breytt miklu að það hefur orðið einhver undirliggjandi breyting. Þessi gildi, þessar væntingar, þessi viðhorf hafa breyst og núna held ég að fólk bara sætti sig ekki við það að þurfa að safna vottorðum á tíu stöðum til að geta fengið eitthvað klárað og þurfa helst að keyra á milli þeirra allra, eða standa í bréfaskriftum. Þegar það næst svona sýnilegur árangur gerir fólk aðrar kröfur, sem er bara gott og ríkiskerfið þarf að bregðast við því, helst vera á undan.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Ávinningurinn er einnig aukin og enn betri þjónusta við Íslendinga sem búa erlendis, eða um 60.000 manns, sem nú geta sótt sér ýmsar upplýsingar sem þau gátu ekki áður. Það skapar mikið hagræði. Auk þess sem fólk á landsbyggðinni getur sótt ákveðin gögn án þess að þurfa að keyra langar vegalengdir. Þetta sparar því bæði tíma og fjármagn og eykur jafnræði milli fólks.
Það gleymist stundum í þessu hvað það er mikið af Íslendingum sem eru erlendis og þarf t.d. að fá sakavottorð út af umsókn í skóla eða vinnu. Þetta er mjög fjölmennur hópur í raun bara eins og Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður samanlagt eða næstum því. Sá hópur, þarf þjónustu að heiman sem að hann sækir annað hvort með því að eiga sjálfur samskipti eða senda vini og ættingja eitthvert til að redda sér. Þannig að ef þú býrð erlendis, ert með rafræn skilríki, þá getur þú sótt þér sakavottorð án þess að senda einhvern nákominn til sýslumanns. Við þurfum alltaf að pæla í þessum hópi líka, þetta er svo ótrúlega stór hópur.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Svo gleymist líka í þessari vegferð hvað það hjálpar fólki á landsbyggðinni að geta átt erindi við ríkið í gegnum tölvuna eða í gegnum snjallsíma þá þarf ég ekki að keyra langa vegalengd til þess að sækja þjónustuna. Það er dýrmætt, jafnvel enn þá dýrmætara heldur en einhver sem býr upp í 203 Kópavogi sem þarf bara að keyra niður í sýslumann rétt hjá sér. Það verður þægilegra að reka fyrirtæki langt í burtu ef ég get gert allt í gegnum netið.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Það er ávinningur að fækka þessum tilgangslausu bílferðum og handavinnu starfsmanna.
Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Þú kemur inn í rauninni tækni og stafræn þjónusta getur gert ýtt undir persónulegri þjónustu. Ég get gefið meiri upplýsingar þannig að það sé hægt að þjónusta betur á persónulegan hátt og okkur öll. Það má segja að það sé mjög skemmtileg uppgötvun.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Fyrst og fremst betri þjónusta. Ég held að fólk sé raunverulega að sjá það að það er bara hægt að sækja um ótrúlega margt að á netinu. Fæðingarorlof, þinglýsingar, sakavottorð og fleira er bara farið að gerast samstundis. Sakavottorð þú þarft ekki lengur að keyra til sýslumanns. Fólk finnur það bara sterkt að þjónustan er orðin miklu, miklu betri. Síðan hefur þetta í för með sér ótrúlega mikla hagræðingu eða bara framleiðniaukningu. Þú sérð það bara eins og hjá sýslumanninum að það er bara allt í einu, miklu meira rými hjá fólkinu að sinna öðrum og mikilvægari verkefnum.. Sýslumenn eru búnir að fullu stafvæða alla sína þjónustu og eyða út tímafrekri handavinnu, útprentunum og færibandavinnu. Þjónustan er nú sjálfvirkari sjálfvirkari og þá geta þeir farið að sinna mikilvægari málum, gæðamálum þjónustu, bestun á ferlum og svo framvegis.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Stærsti ávinningurinn er auðvitað bara hvað segja, segir maður, ekki þjóðhagslegur heldur bara fyrir fólkið að það er bara minna vesen. Það er bara búið að einfalda líf fólks. Hún telur ekki peningum. Að hætta að láta fólk keyra á milli stofnana sem sem er náttúrulega bara gott bæði fyrir náttúruna og fyrir pyngjuna hjá fólki og líka held ég að það verði bara hamingjusamara.
Einar Birkir Einarsson, sviðsstjóri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrrum sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
Snemma í þessu ferli þá reyndum við að áætla ávinninginn af þessu öllu saman og við teljum alveg augljóst að við erum með stafrænum lausnum að spara marga milljarða á ári. Ég hef alla tíð sagt um þetta verkefni að það snúist í grunninn minna um að spara peninga og miklu meira snýst þetta um það að að viðhalda eða efla traust og tiltrú á stjórnkerfinu. Ef þú ert í tæknivæddu samfélagi en í samskiptum við stjórnkerfi sem er gamaldags og virkar ekki og þú ert send á milli stofnana til að fá stimpla og með skjöl á meðan alls konar tæknilausnir standa til boða í einkageiranum þá grefur það undan trausti á ríkisstofnunum, jafnvel þinginu og ríkisstjórninni. Á hinn bóginn, ef þú upplifir þig í samfélagi þar sem er verið að leita leiða til að auðvelda þér fást við í lífinu auðveldara að eiga þessi samskipti þannig að þau verði alveg snurðulaus og skilvirk. Ég held að þú getir fengið alveg þveröfuga upplifun ef þú finnur að þú búið í tæknivæddu samfélagi þar sem hlutirnir virki þar sem stjórnvöld skilji hvað er sem þú þarft á að halda þannig að þú getur blómstrað eða náð árangri og það stór eflir traust á ríkisstjórninni á þinginu, á stjórnmálunum og stjórnkerfinu sem er bara svakalega stórt mál. Þetta snýst ekki fyrst og fremst um milljarða. Þetta snýst um að við náum að byggja upp samfélag sem virkar og fólk finnur að skattpeningarnir er að fara í skynsamlega hluti sem hjálpa því að ná árangri.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Helsti lærdómurinn er að ótrúlegir hlutir geta gerst þegar fólk leyfir sér að opna huga sinn.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
6. Stafræn hæfni og þekking myndast
Í upphafi allrar vegferðarinnar sem Stafrænt Ísland byggir á var lagt upp með finna leiðir til að koma hlutum í verk. Ekki þýddi lengur að tala um hvernig hlutir ættu að vera heldur yrði að hefjast handa. Til þess að það gæti orðið þurfti fólk að ná yfirsýn um málin og fá umboð til að bregðast við stöðunni og jafnframt leyfi til þess að gera mistök.
Fyrstu skrefin voru tekin á forsendum reksturs og hagræðingar en ekki þjónustu og þróun þar sem ábyrgðarsvið náði ekki inn á það svið. Í stað þess að fallast á ríkjandi fyrirkomulag kölluðu þau eftir breytingum til að gera hluti betur, létu vita af hugmyndum sínum og reyndu að ýta þeim áfram eftir því sem hægt var.
Útlínur tóku að myndast um hvert skyldi haldið og átti það þátt í því að stafræn málefni voru sameinuð innan eins ráðuneytis. Þá var hægt að halda enn lengra og stofna verkefnastofu um stafrænt Ísland sem var hluti skrifstofu stjórnunar og umbóta inni í Fjármálaráðuneytinu. Þar inni hafði fólk yfirsýn um allt stjórnkerfið, metnað til að gera betur og fékk loksins umboð til að þróa verkið markvisst áfram.
Verkefnastofan hafði ekki úr miklum fjármunum að spila og byggði verk sín mikið til í fyrstu á vinnuframlagi fólks sem það fékk að láni annars staðar úr stjórnkerfinu. Þar hélt það samt fókus og nýtti alla þá reynslu sem það öðlaðist til að hreyfa við málum og taka þau enn lengra. Í viðtölum við frumkvöðla þessa verkefnis kemur ítrekað fram að mögulegt hefði verið að vinna hraðar ef meira fjármagn hefði verið sett í verkið í upphafi. Fjármagnið segi þó ekki alltaf til um árangur. Leiðin sem farin var hafi þurft tíma. Haldið var vel utan um reynsluna sem skapaðist og hún notuð til að búa til grundvöll að því að hægt var að sækja árangur mjög hratt á seinni stigum með auknu fjármagni.
Reynsla annarra var nýtt á vegferðinni, lausnir sem þegar voru komnar fram á meðal þeirra voru nýttar, aðlagaðar og þróaðar í takt við þarfir íslensks samfélags. Þannig var hægt að spara tíma en leggja þeim mun meiri metnað í lausnir sem ekki voru enn komnar fram annars staðar.
Ekki finna upp hjólið. Við skoðuðum svokallað „playbook“ af því sem aðrar þjóðir voru búnar að gera vel, aðlöguðum okkur, gerðum það vel og svo náttúrulega er hægt að bæta ofan á það. Það gerir okkur kleift að fara hraðar. Það er nánast engin þjóð komin með eins fullkomið app og við erum komin með auk þess sem við erum komin einna fremst í heiminum hvað varðar stafræn skírteini.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Frá upphafi var þess gætt að verkefnastofan valdi fá og einföld verkefni sem líkur voru á að hægt yrði að ná árangri í. Einhvers staðar þarf að byrja og verkefnastofan sýndi að hugmyndir þeirra og aðferðir virkuðu — með stafrænni uppbyggingu væri hægt að bæta þjónustu og ná fram aukinni skilvirkni og hagræðingu. Með því skapaðist aukinn áhugi og traust á vegferðinni sem undirbyggði frekari fjármögnun á seinni stigum.
Fyrir mér þá snýst þetta alltaf fyrst og fremst bara um fólkið og að valdefla það. Það náðist að ráða frábært og fúnksjónal teymi. Það er held ég lykillinn. Þau náðu að skila þessu, þau náðu að tala um þetta og þau náðu að stýra þessu. Það hefði verið hægt að bjóða þetta allt út og frábær fyrirtæki fengist að borðinu en ekkert hefði gerst. Árangurinn byggir á teyminu sem var ráðið, það kom svona drífandi fólk inn í þetta og samsetning þess varð rétt. Fjármálaráðuneytið vinnur mjög að því að valdefla eigið starfsfólk og það skilar sér. Þú ert valdefldur til eigin ákvarðana og til aðgerða.
Guðrún Birna Finnsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Miklu máli skiptir að í upphafi voru dregin fram skorinorð og skýr markmið sem unnið var að í skrefum. Leiðarvísirinn sem notaður var við fyrstu landvinninga um stafræna þjónustu var ein setning á minnisblaði sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi og notuð var til að ryðja brautina fram undan, þetta var búið að samþykkja og að því skyldi unnið. „Markmiðið er að fyrir árið 2020 verði stafræn samskipti meginsamskiptaleið almennings við hið opinbera.“
Annað markmið sem sett var um stafræna uppbyggingu var að Ísland skipi sér í allra fremstu röð í heiminum í stafrænni þjónustu. Haldið var að því markmiði af fullum krafti undir forystu leiðtoga Stafrænt Íslands eftir að það var gert að sjálfstæðri einingu sem vistað var hjá fjármálaráðuneytinu. Markmiðið sem hann setti fram var að koma Íslandi í fyrsta sæti lista um alþjóðlega mælikvarða um stafræna stjórnsýslu og hann dró skýrt fram að hráefnin sem til þyrfti væru öll til staðar til að svo mætti verða.
Samanlögð reynsla margra einstaklinga sem endurspeglast í því hvernig þetta hefur verið unnið. Mér finnst við hafa verið ótrúlega heppin varðandi mönnunina á verkefnastofunni. Það hefur verið stærsti áhættuþátturinn sem við sáum í verkefninu. Líka er mjög mikil fjölbreytni í bakgrunni sem ég held að sé algjörlega nauðsynleg, að reyna að fá fólk með ólíkan bakgrunn til að mynda gott teymi, það hefur gengið mjög vel.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
„Grundvallarkonceptin“ voru eiginlega öll þróuð og ákveðin áður en verkefnið fór í gang af einhverjum krafti. Við skilgreindum grunn sameiginlegra innviða upplýsingatæknimála hjá ríkinu og settum okkur fá og einföld markmið: Að stafræn samskipti yrði aðalsamskiptaleiðin og að við yrðum í fremstu röð þjóða í þessum málum miðað við þá mælikvarða sem verið er að nota. Mjög mikilvægt er að halda áfram á þessari braut með það að markmiði að endurnýja gamla tækniinnviði.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Auðvitað eru væntingar um að með þessu skapist forsendur til að straumlínulaga stofnanakerfi ríkisins. Við þurfum ekki að hafa það í svona mörgum bútum eins og 164 stofnunum heldur þurfum við meira að horfa á þjónustu og ferla heldur en stofnanir.
Guðrún Ögmundsdóttir skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Með því að vista Stafrænt Ísland innan fjármálaráðuneytisins var hægt að tengja saman alla þræði stjórnkerfisins og ná heildarmynd af kostnaði. Með samtali við stofnanir, sem oft voru krefjandi í upphafi, voru greind tækifæri til að ná ávinningi með því að nota stafrænar lausnir. Byrjað var á einfaldari verkum og samvinnan þróuð út frá því. Þá var einnig unnið að aukinni samvinnu milli stofnana og ávinningurinn af henni dregin fram með markvissum hætti.
Áhugi ráðherra fjármálaráðuneytisins á því að gera betur við hagnýtingu upplýsingatækni er einnig veigamikið atriði. Ljóst er að ráðherra hlustaði eftir hugmyndum starfsfólks um hvernig gera mætti hlutina betur, fann leiðir svo hægt væri að gera þær að veruleika ef hindranir voru í veginum og valdefldi það til ákvarðana og aðgerða. Með þessu var fundinn farvegur fyrir umbætur og hægt var að virka metnað starfsfólks til að gera enn betur.
Þor ráðherra til að standa við ákvarðanir sem starfsfólk hafði tekið þykir líka hafa skipt máli ekki síst við útfærslu Leiðréttingarinnar þar sem ákveðið var að skylda fólk til að nota rafræn skilríki. Málið varð pólitískt hitamál en ráðherra sá tækifæri í að auka útbreiðslu rafrænna skilríkja og hvikaði ekki frá ákvörðuninni sem lagði grunn að stafrænum umbótum.
Ég fann fyrir mjög þverpólitískri samstöðu um að þetta væri mikilvægt og skynsamlegt.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Eitt lykilatriði, sem ég hef ekki nefnt, er svo pólitískur stuðningur og áhugi þess ráðherra sem fer með málið. Áhuginn smitar út frá sér og allir þeir sem koma að svona verkefni finna að áhuginn er raunverulegur og það er alvara á bak við er mjög mótiverandi fyrir fólk. Ég held að það skipti rosalega miklu máli í þessu verkefni.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Öflugt og úthugsað kynningarstarf á verkefnum Stafræns Ísland út frá þörfum fólks en ekki stofnana hefur haft mikla þýðingu. Nálgunin á framsetningu efnis er út frá þeirri þjónustu sem fólk þarf á tilteknum tímamótum í lífinu, til að mynda við að eignast barn, fara í nám, stofna fyrirtæki, að undirbúa starfslok og efri árin nú eða þegar nákominn aðstandi deyr. Á slíkum stundum þarf fólk ekki að þekkja stofnanir til að sækja þjónustu og leita eftir henni á vefsíðu hverrar og einnar.
Leiðina að því sem það þarf finnur það á miðlægu þjónustugáttinni Ísland.is ásamt leiðbeiningum um næstu skref. Þjónustuna finnur fólk út frá þeim viðburði sem það stendur frammi fyrir í lífinu en ekki þeim stofnunum sem veita hana.
Eins var mjög mikilvægt að fókusa á almenning og að almenningur myndi finna að hann skipti máli.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Markmiðið var að bæta þjónustu og rekstur. Bætt þjónusta hefur samt alltaf verið útgangspunkturinn í öllu hagræðið sem felst af betri þjónustu fylgir svo á eftir.
Guðrún Ögmundsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
7. Stafrænt samfélag til framtíðar
Ótal hráefni þurftu að koma saman til að sá árangur sem Stafrænt Ísland hefur náð yrði að veruleika. Jarðvegurinn sem þessi hráefni voru fengin úr er samt einn og sami, það er löngun til umbóta. Drifkraftur fólks var virkjaður og því gert kleift að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Hver lærdómur var nýttur svo næsta verkefni tækist enn betur. Þegar mistök urðu voru þau leiðrétt og áfram var haldið í átt að settu markmiði sem öll miðuðu að því að nota nýjar lausnir til að bæta þjónustu og nýtingu fjármuna hins opinbera í þágu samfélagsins. Starfsfólki var treyst til að koma þeim í framkvæmd og valdeflt til ákvarðana og aðgerða.
Ólíkar stofnanir voru leiddar saman til að endurhugsa ferla sína, kannað var hvort samvinna gæti nýst þeirra á milli og nýjar leiðir kynntar í framhaldi. Málaflokkar voru sameinaðir á milli ráðuneyta og ráðist var í uppstokkun á skipuriti ráðuneytis svo nýjar fyrirætlanir sem ekki pössuðu inn í hefðbundin form stjórnsýslunnar fengju að þróast, útboð voru hugsuð frá grunni og svo endurhugsuð út frá reynslu til að hægt væri að nota skilvirkari leiðir við uppbyggingu stafrænna lausna. Þannig var hægt að sækja og leiða saman ólík fyrirtæki úr atvinnulífinu til að vinna saman að nýjum lausnum í þágu hins opinbera og fyrirtækja.
Miðlun á þjónustu hins opinbera til almennings var endurhönnuð út frá lífsviðburðum sem kalla á þjónustuna en ekki út frá stofnuninni sem þjónustuna veitir. Hvert skref í vegferð Stafræns Íslands hefur byggt á löngun og getu til að fara nýjar og betri leiðir.
Verkefnið um Stafrænt Ísland var kynnt sem tímabundið átaksverkefni en lýkur uppbyggingu stafrænna kerfa og tækniþróunar einn daginn frekar en það kemur að því að Vegagerð ríkisins hefur lokið við að leggja alla vegi landsins?
Fólki finnst það auðvitað bara fáránleg spurning því auðvitað erum við aldrei búin að byggja alla vegi. Fólk þarf að skilja að stafræn þróun og tækni eru grunninnviðir sem þarf að gera sjálfbær.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Stafrænt Ísland hefur sótt fjölda verkefna sem voru í seilingarfjarlægð. Ólíklegt að hægt verði að sýna alveg sömu snerpu við verkefnaskil mikið lengur. Þyngri og enn fjárfrekari verkefni bíða úrlausna sem tilheyra kerfislægari burðarþáttum. Frekari uppbygging á tækniinnviðum kallar á skýrari lagaumgjörð og stjórnsýslu um stafræn málefni sem rímar ef til vill ekki við þá nýsköpunarmenningu og kraft sem Stafrænt Ísland spratt úr og kom hlutum á hreyfingu. Hvernig má byggja áfram til framtíðar, styrkja stjórnsýslu um málin en um leið varðveita umbótakraftinn sem þarf við gerð nýrra lausna.
Til lengri tíma litið þarf að finna þessum framtíðarrekstri svona meira framtíðarheimili. Ég held að lykilatriði að hluti árangurs í þessa vegferð hafi verið að vera innan fjármálaráðuneytisins, það er ráðuneyti tæknimála. Ég er alltaf að skamma ráðherra fyrir að kallað þetta ekki fjármála-, efnahags- og tæknimálaráðuneytið, svona til að gefa þessu meiri vigt. Víðast hvar í löndunum í kringum okkur eru tæknimálaráðuneyti. Þetta verkefni okkar í eðli sínu ekki hefðbundið verkefni ráðuneyta heldur framkvæmdaraðila á borð við Vegagerðina sem heyrir svo undir innviðaráðuneytið.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Þannig ég myndi bara setja einum svona sterka stofnun sem er að vinna með stafrænu málin og gagnamálin til að hafa umsjón með þeim málum. Ég myndi svo búa til stafræna kjarna í málaflokkunum, þannig það sé stafrænn kjarni eða hluti af þeirri stofnun eða sviði innan heilbrigðiskjarnans, innan dómstólakjarnans, innan menntakjarnans, því það er heldur ekki gott að mínu mati, að vera með þetta allt miðlægt og Stafrænt Ísland verði allt í öllu alls staðar heldur að við séum með aðferðafræðina og miðjun ásamt sameiginlegu grunnþjónustunni. En séu svona sambærilegar einingar í þessum stærri málaflokkum þar sem sérfræðiþekkingin verður á málaflokkinn, til dæmis eins og í heilbrigðismálum, það ætti að búa til bara stafræna heilbrigðisklasa sem væri einhver eining undir okkur eða til hliðar eða nota okkar aðferðafræði. Við myndum tryggja aðferðarfræðina til að fjármögnunin væri nýtast vel.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.
Okkar bíða gríðarlega stór verkefni sem verða mjög fjárfrek en munu hafa grundvallarþýðingu fyrir ríkið sem þjónustuveitanda. Við erum að horfa á það að við þurfum að endurnýja nánast sko öll helstu arfleifðarkerfin sem ríkið byggir sína starfsemi og þjónustu á. Við þurfum að endurnýja allar grunnskrár. Við erum búin að einhverju leyti að bregðast við því að samskiptaleiðir, svona innri vegleiðir, eru orðnar betri en þær voru með Straumnum. Stjórnvöld þurfa að í samvinnu að leysa hvernig þessi kerfi verða byggð upp. Mér finnst við vera að færa okkur nær og nær því. Núna þurfum við að beita okkur á því sviði og við erum eiginlega byrjuð á því.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Mikil tækifæri felast í meiri gagnavinnslu sem svo nýtast við ákvarðanir, til að greina sóun, til að skanna hvar hægt sé að ná meiri árangri og greina hópa í viðkvæmri stöðu sem þarf að ná betur til og/eða með skilvirkari hætti. Þá felast mikil tækifæri við að nýta gögn við að greina hvort og þá hvernig fjármunir eru nýttir til að skila þeim árangri sem stefnt er að í áætlunum.
Þessi gömlu og hálf úreltu kerfi standa okkur náttúrulega fyrir þrifum. Algengt að ekki sé hægt að bæta við möguleikum sem gætu skapað mikla hagræðingu.
Sigurður H. Helgason fyrrum skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Núverandi forstjóri Sjúkratrygginga.
Á örfáum árum tókst að nýta tækni til að draga mjög úr sóun og óþarfa ágangi á auðlindir sem til að mynda fólust í óþarfa bílferðum á milli stofnana, pappírsnotkun að ekki sé talað um tíma almennings sem þarf að sinna erindum og vinnu starfsfólks í óþarfa umsýslu og skriffinnsku. Hægt var að bæta þjónustu, draga úr sóun og nýta almannafé betur með því að greina hvar hægt var að fara nýjar leiðir með nýjum lausnum og sjálfvirknivæðingu.
Frekari gagnavinnsla og tenging á milli gagnagrunna myndi veita yfirsýn yfir samfélagið sem ekki er möguleg í dag og myndi nýtast við mikilvæga áætlanagerð og ákvarðanatökur. Mikið óunnið verk er þó eftir til að svo megi verða og hægt sé að nýta þá möguleika fyrir alvöru.
Og reyndar held ég að ég hafi ekki hugmynd um alla möguleikana sem gagnavinnslan gæti boðið upp á. Ég held að þar sé að geyma algjöran fjársjóð. Bara um leið og við höfum náð að tengja gagnagrunnana saman og vinna úr þessum gögnum held ég að við munum færast upp í Ísland 3.0.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Engin ástæða er þó til annars en að ætla að tækifæri sem felast í frekari uppbyggingu stafrænna innviða verði sótt. Íslendingar hafa byggt upp öfluga aðferðafræði sem sýnt hefur verið fram á að getur skilað hröðum og góðum árangri. Þau verðmæti sem hafa skapast við uppbygginguna felast því einnig í þeirri þekkingu sem skapast hefur á leiðinni og aðrar þjóðir líta til.
Ég held það sé rosalega stórt tækifæri fyrir okkur, bæði að komast í fremstu röð og það er farið að gerast nú þegar. Aðrar þjóðir eru farnar að taka eftir því hvað okkur gengur vel. Ég held að það feli í sér mikil tækifæri til útflutnings fyrir Ísland á þjónustu og þekkingu og einnig koma til með að nýtast öllum þeim fyrirtækjum sem hafa unnið með okkur við að selja þjónustu sína. Hvernig drífur þú áfram stafræna umbreytingu í Þýskalandi eða Kanada? Af hverju eru íslensk fyrirtæki ekki að selja þá þjónustu? Ég held að það sé spennandi tækifæri í þessu líka, að stimpla okkur inn sem leiðandi afl í þessari stafrænu vegferð þjóða.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns íslands.