Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Þekking og notkun Ísland.is eykst milli ára

29. október 2024

Næstum allir landsmenn þekkja til Ísland.is og hafa einhvern tíma nýtt þjónustu sem er í boði á vefnum eða 97%. Þetta kemur fram í nýlegri netkönnun Gallup á notkun og viðhorfi til kjarnaþjónusta Stafræns Íslands.

folk_tolva_islandis

Næstum allir landsmenn þekkja til Ísland.is og hafa einhvern tíma nýtt þjónustu sem er í boði á vefnum eða 97%. Þetta kemur fram í nýlegri netkönnun Gallup á notkun og viðhorfi til kjarnaþjónusta Stafræns Íslands. Almennt mælist þekking, notkun og ánægja vel í öllum hópum, hvort sem horft er til aldurs, búsetu, menntunar eða tekna. Svörin gefa til kynna að stafræn vegferð hins opinbera sé á réttri leið og í takti við vilja og væntingar landsmanna en markvissa aukningu er að merkja í þekkingu og notkun á Ísland.is og þeim þjónustum sem þar er að finna.

Auk þess sem flestir landsmenn þekkja og nota Ísland.is eru Mínar síður mikið nýttar, en aðeins um 10 % hafa aldrei nýtt sér þjónustuna sem þar er að finna. Helmingur þess hóps þekkir þjónustuna þó að þau nýti hana ekki. Athygli vekur að 80% hafa notað Stafræna pósthólfið en fyrir tveimur árum var hlutfallið aðeins 44%.

Eldra fólki sem notar Ísland.is fjölgar töluvert

Sá aldurshópur sem notar vefinn minnst er eldra fólk, en þó hafa 88% af 70 ára og eldri notað Ísland.is. Þetta er töluverð aukning á milli ára en aukningu er að merkja í öllum aldurshópum óháð kyni og búsetu.

Þekking og notkun á Stafræna pósthólfinu jókst töluvert milli ára og fór úr 69% í rétt tæp 80% milli ára. 70 ára og eldri hafa notað Stafræna pósthólfið hvað minnst eða 59% sem er rúmlega 6% aukning frá því í fyrra. Mest mældist notkun hjá 30-39 ára eða 98%.

Ekki var að sjá mikinn mun á notkun og þekkingu á Ísland.is hjá konum og körlum en konur nota vefinn ögn meira en karlar.

Könnunin sýnir mikla ánægju með Ísland.is, Mínar síður Ísland.is og Stafræna pósthólfið. Um 70% þátttakenda eru ýmist fullkomlega, mjög eða frekar ánægð með þessar þjónustur og hefur það hlutfall haldist nánast óbreytt síðustu 3 árin. Hátt í 30% eru hvorki ánægðir né óánægðir á meðan óánægðir mælast um 4%.

Áfram verður fylgst með þekkingu, notkun og ánægju notenda og niðurstöður nýttar í forgangsröðun stafrænna verkefna.

Netkönnunin var framkvæmd af Gallup dagana 11.-18. október 2024 fyrir Stafrænt Ísland. Könnunin var send til 1729 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 51.4% eða 888 einstaklingar.