Samstarf um stafræna þróun styrkt á vettvangi Norðurlandanna
2. desember 2025
Leiðtogar í stafvæðingu opinberrar þjónustu á Norðurlöndunum funduðu í Finnlandi í liðinni viku. Auk fulltrúa Stafræns Íslands voru þar þátttakendur frá Digg í Svíþjóð, Agency for Digital Government í Danmörku, Digdir í Noregi og DVV í Finnlandi sem hýsti viðburðinn að þessu sinni. Frá Íslandi tóku Birna Íris, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, Hlynur Bjarki, gagnastjóri og Ragnhildur Helga, tækni- og þróunarstjóri þátt í fundinum.

Mynd/Finnish Digital Agency - LinkedIn
„Norðurlöndin eru öll meðal þeirra ríkja á heimsvísu sem hvað lengst eru komin í stafvæðingu opinberrar þjónustu. Með því að vera í virku samtali, deila upplýsingum og aðferðum aukast tækifæri til samnýtingar og samstarfs – við getum lært hvert af öðru og þannig náð meiri árangri,“ segir Birna Íris Jónsdóttir framkvæmdastjóri Stafræns Íslands.
Meðal viðfangsefna sem eru í brennidepli eru stafrænt aðgengi og inngilding, gögn og gagnasamskipti ásamt hagnýtingu gervigreindar. Þá eru aðkallandi verkefni um enduruppbyggingu grunnkerfa (e. legacy reform) einnig eitthvað sem allar þjóðir eiga sameiginleg.
„Það var gagnlegt að heyra frá kollegum á Norðurlöndum, sem mörg fást við svipuð verkefni. Stafræn inngilding er þar ofarlega á blaði því opinber þjónusta þarf að ná til allra. Skilaboðin frá Finnlandi eru skýr – aðeins útbreidd notkun skilar víðtækum ávinningi,“ segir Ragnhildur Helga Ragnarsdóttir tækni- og þróunarstjóri Stafræns Íslands.
Þá er í forgangi hjá ríkjum Norðurlandanna að innleiða eID, stafrænt auðkenni fyrir íbúa og aðlaga það að evrópska eIDAS-verkefninu sem miðar að auðkenningum þvert á landamæri.
Gögn eru gull
Hagnýting og samþætting gagna er í brennidepli á öllum Norðurlöndunum. Til að geta nýtt gervigreind vinna Norðurlandaþjóðirnar að því að einfalda stjórnskipulag í kringum stafræna þjónustu og samnýtingu gagna í þeim mæli sem hægt er.
„Þó margt hafi áunnist á síðustu árum er enn nokkuð í land, möguleikar til hagræðingar og betri þjónustu liggja að miklu leyti í gögnum og áherslan því mikil á því sviði,“ segir Hlynur Bjarki Karlsson, gagnastjóri hjá Stafrænu Íslandi.
Í Svíþjóð er meðal annars unnið að reglugerð um gervigreind, gögn og öryggi en í Noregi hefur verið sett á laggirnar stofnun, KI Norge, sem mun leiða þróun gervigreindar þar í landi, innan stjórnkerfisins sem utan. Danirnir leggja um þessar mundir mikla áherslu á þróun sjálfstýrðrar gervigreindar eða umboðsgervigreindar (e. agentic AI).
Tillaga hefur komið fram að hérlendis verði komið á fót miðstöð á sviði gervigreindar og máltækni til að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að innleiða gervigreind á hagnýtan og ábyrgan hátt, styðja við uppbyggingu þekkingar og færni á vinnumarkaði, veita ráðgjöf við stefnumótun, sinna hagsmunagæslu á alþjóðavettvang og efla hagnýtar rannsóknir og innviði með uppbyggingu séríslenskra gagnasafna og aðstoð við að tryggja reikniafl.
