Fara beint í efnið

Stafrænt Ísland

Samningur um breytt lögheimili barns og meðlag

31. ágúst 2021

Stafrænt ferli sem gerir foreldrum kleift að ná sáttum á einfaldan hátt án aðkomu hins opinbera.

Að flytja

Stafrænn samningur um breytt lögheimili barns er hluti af viðamikilli stafrænni vegferð sýslumanna og fyrsta stafræna umsókn sýslumanna í fjölskyldumálum. Fjölskyldusvið sýslumanna sjá um að staðfesta samninga á milli foreldra, sem hafa skilið eða slitið sambúð, um hagi barna sinna, t.d. um forsjá, umgengni og meðlag. Þegar foreldrar eru ekki sammála þarf að eiga sér stað sáttameðferð. Hér er því um viðkvæman málaflokk að ræða þar sem fulltrúar sýslumanna leitast við að setja hag barnanna í fyrsta sæti.

Verkefnið snerist um að einfalda og stafvæða samning um flutning lögheimilis barna á milli tveggja foreldra með sameiginlega forsjá. Með flutningi lögheimilis færist m.a. réttur til daglegrar ákvarðanatöku um hag barnsins og lögheimilisforeldri á rétt á meðlagi frá hinu foreldrinu. Fyrra ferli fól í sér samningseyðublað á pappír sem þurfti að votta undirritanir á og skila forsjárvottorði frá Þjóðskrá með.

Í nýju stafrænu ferli fara báðir foreldrar í gegnum einfalt flæði í umsóknakerfi Ísland.is með sjálfvirkri uppflettingu í þjóðskrá, hnitmiðaðri upplýsingagjöf um hvað breytingin felur í sér og loks rafrænni undirritun beggja foreldra. Staðan á úrvinnslunni er svo aðgengileg foreldrum á Ísland.is og samningurinn skilar sér beint inn í upplýsingakerfi viðkomandi sýslumannsembættis.

Verkefnið sparar foreldrum fyrirhöfn og ferðir með gögn, og sýslumönnum umstang, í um 200 málum á ári á landsvísu. Auk þess ryður það brautir fyrir frekari umbreytingu á þjónustu og vinnslu barna- og fjölskyldumála hjá sýslumönnum, m.a. með umsóknaflæði sem hefur sannað sig, nýrri tengingu við forsjárgögn Þjóðskrár Íslands og tengingu Ísland.is við upplýsingakerfi sýslumanna. 

Umsókn um breytt lögheimili.

Þróunarteymi Kolibri vann að verkefninu ásamt sýslumönnum, Þjóðskrá Íslands og Stafrænu Íslandi.