Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Ánægja og notkun eykst stöðugt

12. nóvember 2025

Sífellt fleiri nýta sér þjónustu Ísland.is og ánægja og þekking eykst jafnt og þétt milli ára. Fólki sem notar vefinn reglulega fjölgar hratt. Almennt mælist þekking, notkun og ánægja vel í öllum hópum, hvort sem horft er til aldurs, búsetu, menntunar eða tekna, samkvæmt nýrri könnun Gallup um Ísland.is, Mínar síður og Stafræna pósthólfið.

„Þessar niðurstöður gefa til kynna að mikill árangur sé af verkefninu um stafvæðingu hins opinbera og starfsemi Stafræns Íslands í heild. Við erum afar stolt af þeim árangri. Það er gott að við erum á réttri leið og í takt við vilja og væntingar landsmanna,“ segir Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra.


Vaxandi ánægja

Heilt yfir eykst ánægja með Ísland.is og hlutfall þeirra sem eru fullkomlega ánægðir, mjög ánægðir eða frekar ánægðir er komið í 73% samkvæmt könnuninni. Slík jákvæðni er fáheyrð þegar kemur að opinberri þjónustu.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar í samhengi við þjónustukönnun ríkisstofnana er ljóst að aukin áhersla á stafrænar lausnir mætir þörfum notenda vel; almennt er ánægja með þjónustu ríkisstofnana að aukast sem og ánægja fólks með viðmót hennar og hraða.

98,2% nota Ísland.is

Í könnuninni segjast rúmlega 65% aðspurðra nota Ísland.is reglulega, en það hlutfall hefur farið stighækkandi og aukist úr 52% fyrir ári og úr 39% árið 2023. Nú segjast 98,2% þátttakenda nota Ísland.is.

Þróun á notkun Ísland.is samkvæmt könnun Gallup


Í fyrra voru heimsóknir á Ísland.is vefinn rúmlega 12 milljónir, eða 4,4 milljónum fleiri en árið á undan. Sem stendur er Ísland.is í 14. sæti yfir vinsælustu vefsíður á Íslandi, samkvæmt Semrush.

Þjónustuframboð Ísland.is er fjölbreytt og fer vaxandi, sem dæmi hafa verið gerðir 63 vefir fyrir opinbera aðila innan Ísland.is og í virkni eru 649 stafrænar umsóknir, og sífellt fleiri bætast í hópinn.

Notkun og þekking á Mínum síðum

Hliðstæða þróun má sjá varðandi notkun og þekkingu á Mínum síðum á Ísland.is. Hlutfall þeirra sem nota þá þjónustu reglulega hefur nærri tvöfaldast á síðastliðnum tveimur árum og fer úr 34% árið 2023 í 63% svarenda í ár.

Þróun notkunar á Mínum síðum samkvæmt könnun Gallup 2025


Úrtakið í könnuninni var tæplega 1700 einstaklinga af öllu landinu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Þátt tóku 817 eða rúmlega 49%.

Áfram verður fylgst með þekkingu, notkun og ánægju notanda Ísland.is og niðurstöður nýttar við forgangsröðun stafrænna verkefna.

Fylgstu með því nýjasta

Skráðu þig á póstlista Stafræns Íslands og fylgstu með því nýjasta í stafrænni opinberri þjónustu.