Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Verðlaunaafhending Forvarnardags forseta Íslands – nemendur í Gerðaskóla og Framhaldsskólanum á Húsavík hlutu verðlaun

4. desember 2025

Föstudaginn 28. nóvember síðastliðinn fór fram athöfn á Bessastöðum þar sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhenti verðlaun fyrir verkefni Forvarnardagsins 2025. Auk forseta flutti Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs hjá embættis landlæknis ávarp. Þær Halla og Dóra töluðu um Forvarnardaginn og til verðlaunahafa sem í ár voru allir drengir.

Verðlaunaleikurinn

Nemendur í 9. bekk grunnskóla og 1. bekk framhaldsskóla á öllu landinu áttu þess kost að taka þátt í verðlaunaleik Forvarnardagsins með því að senda inn verkefni. Verkefnið fólst í því að finna lausnir á þeim áskorunum sem tengjast skjánotkun, símum og samfélagsmiðlum og máttu nemendur skila inn myndbandi, lagi, lagatexta eða veggspjaldi. Dómnefnd skipuð samstarfsaðilum fór yfir innsend verkefni sem voru alls 25, af þeim komu 6 frá nemum í grunnskólum og 19 frá nemum í framhaldsskólum. Verkefnin voru fjölbreytt og áhugaverð.

Verðlaunahafar úr grunnskóla voru Arnar Hannesson, Alexander Valur B. Garðarsson, Andri Fannar Andrésson og Ómar Andri Kristjánsson frá Gerðaskóla í Suðurnesjabæ. Þeir skiluðu inn veggspjaldinu „Ekki eyða tíma í síma“.

Mynd. Forvarnardagurinn 2025. Forseti ásamt verðlaunahöfum grunnskóla frá Gerðarskóla

Verðlaunahafar úr framhaldsskóla voru Daníel Hólm Guðmundsson, Gunnar Hólm Guðmundsson og Heimir Örn Karolínuson frá Framhaldsskólanum á Húsavík. Þeir skiluðu inn laginu ,,Slökktu á símanum".

Mynd. Forvarnardagurinn 2025. Forseti ásamt verðlaunahöfum frá framhaldsskólanum Húsavík og kennara þeirra

Slökktu á símanum

Ég vakna um morguninn, snjallsíminn kallar á mig,
tilkynningar fljúga inn — ég vakna, sofna, alltaf sama sagan.
Ungur andi fastur í skjánum, svartsýni og samanburður,
sýnir fegurri mynd af heiminum.

Ég sé allt of mikinn hatursáróður, trolls og spegilmynd af eigin ótta,
öll þessi aðgerðalausa afsökun – stinga hausnum í sandinn, sleppa öllu mótmæli.
Óeðlileg pressa, myndir, gervilíf — „ég verð að líta eins út…“
en vanlíðan eykst, sjálfstraust glatast – hvers vegna leyfum við þessu að ráða yfir okkur?

Saman getum við tekið af okkur keðjurnar, losað okkur úr þessum lykkjum.
Við getum skapað samfélag þar sem skjárinn þjónar okkur, ekki við honum.
Lífið gerist handan skjásins, brosin, samtölin, stundirnar sem við verðum að lifa.
Leyfum jákvæðninni að vaxa, neikvæðninni hverfa, skjáfíknin minnkar — því þetta er okkar saga.

Láttu skjáinn sofna, ég vakna með bros,
takmörkum tíma, ég finn kraftinn aftur innra með mér.
Nei við gefum ekki neikvæðninni byr,
við veljum ljósið, veljum lífið, þetta er okkar styrkur, okkar lýsandi styrkur.

Ég sleppi símanum snemma, skrifa dagbók í staðinn,
finn samband við vin, hlæ, að hlusta getur verið svo gott.
Ég fer út undir himininn, ferskt loft fyllir lungun mín,
stöðva scroll tengdan hjartslátt, ég finn taktinn með mínum eigin vin.

Skólinn kennir okkur ekki bara að lesa og skrifa,
kennslustundir eru líka um sjálfsmynd, sjálfstraust, hvernig okkur líður.
Foreldrar stilla reglur, tímamörk – vera meðvitaðir um hvert klikk,
vera meðvitaðir um notkun barna sinna á samfélagsmiðlum.

Samstarfsaðilar

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins en auk embættis forseta eru samstarfsaðilar eftirtaldir: ÍSÍ, UMFÍ, Heimili og skóli, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Ríkislögreglustjóri, Skátarnir og SAFF.

Frekari upplýsingar
Lísbet Sigurðardóttir, verkefnastjóri Forvarnardags, lisbet.sigurdardottir@landlaeknir.is
Ingibjörg Guðmundsdóttir
, verkefnastjóri Forvarnardags, ingibjorg.gudmundsdottir@landlaeknir.is