Fara beint í efnið

Veglegur styrkur vegna aðgerða gegn sýklalyfjaónæmi í Evrópu

27. febrúar 2024

EU-JAMRAI-2 styrkir aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi á Íslandi.

JAMRAI logo

Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (EU4Health) veitti nýverið myndarlegan styrk til aðgerða gegn sýklalyfjaónæmi eða 7,5 milljarða króna (50 milljónir Evra) en þar af um 113 milljónum til Íslands. Markmiðið með verkefninu er að sporna gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis í Evrópu.

Markmið EU-JAMRAI 2 er að innleiða skilvirkar aðgerðir til að vöktunar, forvarna og aðgerða gegn sýklalyfjaónæmi varðandi fólk, dýr og umhverfi, í anda Einnar heilsu. Verkefnið fór nýlega af stað en nær til fjögurra ára (2024-2027). Helstu verkefni snúa að sýklalyfjagæslu, sýkingavörnum, vöktun, aðgengi að sýklalyfjum og vitundarvakningu um sýklalyfjaónæmi.

Eitt helsta markmið EU-JAMRAI-2 er að styrkja landsáætlanir um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi í ríkjum Evrópu. Í síðustu viku samþykkti heilbrigðisráðherra í samvinnu við matvæla- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra einmitt nýja aðgerðaáætlun til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis hér á landi. Þannig mun EU-JAMRAI-2 veita bæði fjárhagslegan og faglegan stuðning við þær aðgerðir sem ákveðið hefur verið að ráðast í hérlendis til að stemma stigu við útbreiðslu ónæmra baktería.

Sóttvarnalæknir leiðir þátttöku Íslands en heilbrigðisráðuneyti, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun taka þátt.

Alls taka þátt í EU-JAMRAI-2 samstarfinu 120 stofnanir í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins ásamt Íslandi, Noregi og Úkraínu. Verkefnið er fjármagnað sameiginlega af þátttakendum og EU4Health, heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins. Heildarkostnaður verkefnisins er 62,5 milljónir evra (9,2 milljarðar króna) en þar af koma um 50 milljónir evra (7,5 milljarðar) frá Evrópusambandinu. Vægi þessa verkefnis undirstrikar þá miklu og vaxandi áherslu sem Evrópusambandið leggur á aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi á komandi árum.

Antibiotic Resistance Symbol

Frekari upplýsingar veitir Anna Margrét Halldórsdóttir, yfirlæknir, anna.m.halldorsdottir@landlaeknir.is

Sóttvarnalæknir