Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Vaxandi útbreiðsla baktería með sýklalyfjaónæmi. Ný skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO)

22. október 2025

Eitt af hverjum sex tilfellum algengra sýkinga hjá fólki árið 2023 reyndist vera af völdum sýklalyfjaónæmra baktería, samkvæmt nýrri skýrslu WHO sem kynnt var á dögunum.

Á árunum 2018 til 2023 jókst sýklalyfjaónæmi um meira en 40% meðal þeirra samsetninga sýkla og sýklalyfja sem fylgst var með.

Yfir 100 ríki skila inn gögnum til alþjóðlegs vöktunarkerfis WHO fyrir sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun (Global Antimicrobial Resistance and Use Surveillance System (GLASS). Þessi gögn benda til vaxandi ónæmis baktería gegn mikilvægum sýklalyfjum sem skapar sívaxandi ógn við heilsu fólks um allan heim.

Staðan í heiminum í dag

Nýjasta skýrslan, Global Antibiotic Resistance Surveillance Report 2025, birtir upplýsingar um algengi sýklalyfjaónæmis fyrir 22 sýklalyf sem eru notuð við meðferð þvagfærasýkinga, lekanda og sýkinga í meltingarvegi og blóði. Skýrslan fjallar um átta bakteríur sem oft valda slíkum sýkingum.

Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er mest í Suðaustur-Asíu og löndum við austurhluta Miðjarðarhafsins og Afríku, þar sem ein af hverjum þremur til fimm sýkingum er af völdum ónæmra baktería. Ónæmi er útbreiddara og staðan versnar hraðast þar sem heilbrigðiskerfi hafa ekki burði til að greina og meðhöndla sýkingar með skilvirkum hætti.

Mesta ógnin stafar af Gram-neikvæðum bakteríum

Skýrslan bendir á að sýklalyfjaónæmar Gram-neikvæðar bakteríur séu sívaxandi vandamál á heimsvísu. Þar á meðal eru E. coli og K. pneumoniae, sem eru þær bakteríur sem oftast valda blóðsýkingum sem eru mjög alvarlegar sýkingar og geta leitt til líffærabilunar og dauða.

Meira en 40% E. coli og yfir 55% K. pneumoniae á heimsvísu eru nú ónæmar fyrir þriðju kynslóðar kefalósporínum, sem eru oft fyrsta val við meðhöndlun þessara sýkinga.

Virkni annarra mikilvægra sýklalyfja, þar á meðal karbapenema og flúrókínólóna, er einnig að minnka gegn E. coli og K. pneumoniae, auk Salmonella.

Ónæmi gegn karbapenem sýklalyfjum, sem áður var sjaldgæft, verður nú æ algengara. Við það fækkar mjög meðferðarmöguleikum sem veldur því að grípa þarf til sýklalyfja sem ættu að vera síðasta úrræði til að nota í neyð.

Vöktun og aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi

Fjöldi ríkja sem tekur þátt í GLASS vöktun WHO hefur fjórfaldast frá árinu 2016, úr 25 í 104 ríki árið 2023. Enn er þó skortur á gögnum, sérstaklega frá ríkjum þar sem vandinn er hvað mestur og veikir innviðir og kerfi takmarka getu til að fylgjast með stöðu mála.

Auk nýútgefinnar skýrslu gefur mælaborð GLASS yfirlit yfir stöðuna á heimsvísu, fyrir ákveðin svæði og í hverju landi. Mælaborðið inniheldur upplýsingar byggðar á innsendum gögnum, um notkun sýklalyfja og tíðni sýklalyfjaónæmis.

Yfirlýsing leiðtoga ríkja heims samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2024 um sýklalyfjaónæmi skilgreindi ákveðin markmið gegn sýklalyfjaónæmi í anda „Einnar heilsu“ (One Health) sem samræmir aðgerðir sem snerta heilsu fólks, dýra og umhverfis. Mikilvægt er að fylgja eftir þeirri yfirlýsingu með aðgerðum í hverju ríki og á heimsvísu.

Sóttvarnalæknir