Upphafsfundur EU-JAMRAI 2 í París um næstu skref í samstilltu átaki Evrópulanda gegn sýklalyfjaónæmi
13. febrúar 2024
Í framhaldi af góðum árangri fyrsta áfanga EU-JAMRAI verkefnisins munu 120 stofnanir frá 30 löndum halda áfram samvinnu um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi og þannig styrkja viðbrögð Evrópu við aðkallandi lýðheilsuvandamáli.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, stefnumótendur og stofnanir frá 30 löndum munu funda í París þriðjudaginn 13. febrúar 2024 og hleypa af stokkunum öðru sameiginlegu átaki gegn sýklalyfjaónæmi og sýkingum í heilbrigðisþjónustu (EU-JAMRAI 2). Inserm (National Institute of Health and Medical Research) í Frakklandi, stýrir verkefninu með stuðningi franska heilbrigðisráðuneytisins. Markmið EU-JAMRAI 2 er að efla baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi; meiriháttar lýðheilsuógn sem veldur árlega yfir 35.000 dauðsföllum í ríkjum Evrópusambandsins/Evrópska efnahagssvæðisins og um 1,3 milljónum um heim allan.
Aðildarríki ESB ásamt Íslandi, Noregi og Úkraínu hafa sameinast um metnaðarfulla áætlun í anda „Einnar Heilsu“ sem byggir á velgengni fyrra verkefnis, EU-JAMRAI 1, sem stóð frá 2017 til 2021.
Didier Samuel, forstjóri Inserm, sagði: "Að innleiða samræmda „Einnar heilsu" nálgun er langtímaverkefni sem verður í forgangi á komandi árum og til framtíðar. [...] Ekkert ríki hefur bolmagn til að vera eitt síns liðs í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi [...]. Samvinna er ekki lengur valkvæð heldur algjör forsenda árangurs í baráttu þjóða heims gegn sýklalyfjaónæmi."
Markmið EU-JAMRAI 2 er að innleiða skilvirkar aðgerðir til að vakta, fyrirbyggja og takast á við sýklalyfjaónæmi á sviði heilbrigðis fólks, dýra og umhverfis. Verkefnið gerir þátttökulöndum kleift að styrkja landsbundnar aðgerðaáætlanir sínar gegn sýklalyfjaónæmi. Takmarkið er að draga úr líkum á að íbúar Evrópu smitist af sýklalyfjaónæmum bakteríum. Það þarf að efla vöktun og sýkingavarnir með „Einnar heilsu" nálgun, bæta meðferð sjúklinga með bakteríusýkingar og tryggja aðgang að árangursríkri en þó hófstilltri sýklalyfjameðferð, svo dæmi séu tekin.
EU-JAMRAI 2 er fjármagnað sameiginlega af þátttakendum og EU4Health áætlun ESB. Heildarkostnaður verkefnisins er 62,5 milljónir evra (9,2 milljarðar króna), þar af koma 50 milljónir evra (7,4 milljarðar króna) frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þessi háa fjárhæð undirstrikar þann mikla forgang sem Evrópusambandið veitir baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.
Roser Domenech Amado, framkvæmdastjóri "Einnar heilsu" hjá aðalskrifstofu heilbrigðis- og matvælaöryggis framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði: "Sýklalyfjaónæmi er hinn mikli heimsfaraldur okkar tíma og krefst tafarlausra aðgerða, í Evrópu og um allan heim. Árið 2023 samþykkti ESB markmið fyrir sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun ásamt aðgerðum á sviði sýkingavarna, vöktunar og eftirlits, eflingu nýsköpunar og aðgengis að sýklalyfjum, skynsamlegri notkunar sýklalyfja og aukinni vitundarvakningu. Framlag um 50 milljóna evra frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til JAMRAI 2 - stærsta verkefnis okkar hingað til í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi - mun hjálpa ESB löndum að ná fram raunverulegum breytingum."
Yfir 120 samstarfsaðilar frá 30 löndum, með fulltingi u.þ.b. 40 hagsmunaaðila, munu taka virkan þátt í þessu sameiginlega átaki. Evrópustofnanir eins og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC), Matvælaöryggisstofnun Evrópu og alþjóðastofnanir eins og WHO, WOAH, OECD, UNEP og FAO munu leggja til sérfræðiþekkingu og samræma aðgerðir við önnur verkefni. Auk þess á fagfólk í heilbrigðisþjónustu manna og dýra sem og fulltrúar sjúklinga mikilvæga aðkomu að verkefninu.
Sóttvarnalæknir leiðir þátttöku Íslands í JAMRAI 2 en heilbrigðisráðuneytið, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun koma einnig að verkefninu, í anda Einnar heilsu. Lögð verður sérstök áhersla á að samræma verkefnið við væntanlega landsáætlun Íslands um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi til þess að tryggja sem bestan árangur hérlendis.
Sóttvarnalæknir