Uppfærðar leiðbeiningar um vinnulag við greiningu og meðferð ADHD hjá börnum, unglingum og fullorðnum
19. maí 2023
Embætti landlæknis gaf út leiðbeiningar um vinnulag við greiningu og meðferð ADHD árið 2012 og styttri útgáfu árið 2014. Leiðbeiningarnar hafa nú verið uppfærðar og gefnar út að nýju.
Uppfærslan hefur að mestu verið í höndum Gísla Baldurssonar sérfræðings í barna- og unglingageðlækningum, Guðlaugar Þorsteinsdóttur sérfræðings í geðlækningum, Hauks Örvars Pálmasonar, sérfræðings í klínískri taugasálfræði, Kristínar Fjólu Reynisdóttur, sérnámslæknis í barna- og unglingageðlækningum og Unnar Jakobsdóttur Smára sálfræðings. Fleiri hafa lagt hönd á plóg í þessu verkefni.
Við vinnslu leiðbeininganna var tekið mið af bestu þekkingu samkvæmt vísindagreinum auk viðurkenndra leiðbeininga frá öðrum löndum. Að miklu leyti var stuðst við breskar leiðbeiningar frá NICE (National Institute for Health and Care Excellence, 2018). Enn fremur var stuðst við leiðbeiningar frá Svíþjóð, Þýskalandi og Kanada.
Meðal helstu breytinga má nefna að leiðbeiningarnar eru styttri og markvissari en áður, flæðirit auðvelda notkun þeirra og ný lyf hafa komið til sögunnar. Sem fyrr er lögð áhersla á þverfaglegt mat við greiningu á ADHD.
Sérstök áhersla er á eftirfylgni við meðferð en þegar örvandi ADHD lyf eru notuð er mikilvægt að viðhafa viðeigandi eftirlit og gæta verður þess að ekki séu notaðir of stórir skammtar. Sjá lyfjatexta í www.serlyfjaskra.is.
Embætti landlæknis beinir því til heilbrigðisstarfsmanna sem koma að greiningu ADHD og ákvörðun meðferðar að fylgja þessum leiðbeiningum og mun embættið hafa þær til hliðsjónar við eftirlit með lyfjaávísunum.
Landlæknir þakkar öllum þeim fjölmörgu sem komu að gerð leiðbeininganna fyrir góða og vandaða vinnu.
Frekari upplýsingar:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is