Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Talnabrunnur - 8. tölublað 2024

28. nóvember 2024

Nýtt tölublað Talnabrunns, fréttabréfs landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, hefur verið gefið út.

Talnabrunnur. Nýtt tölublað

Alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi var 25. nóvember og var hann einnig upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Í þessu tölublaði Talnabrunns voru skoðuð tengsl þess að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi við ýmsa þætti heilu og líðanar. Niðurstöður einskorðast ekki við konur að þessu sinni en tölurnar sýna að mun fleiri konur hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi en karlar.

Niðurstöður sýna að skýr og marktæk tengsl eru milli þess að hafa verið beitt kynferðisofbeldi og að greinast með ýmsa sjúkdóma, þess að meta heilsutengd lífsgæði lakari og upplifa verri svefngæði. Hafa ber í huga að gögn að því tagi sem liggja til grundvallar þessum niðurstöðum, þ.e. þversniðsgögn, bjóða ekki upp á að álykta um orsök og afleiðingu, heldur einungis að benda á þau tengsl sem eru til staðar milli þess að hafa verið beitt kynferðisofbeldi og mats á heilsufari og líðan.

Fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi metur líkamlega og andlega heilsu sína sem og hamingju verr en þau sem ekki afa verið beitt slíku ofbeldi. Sláandi munur er á þessum hópum hvað varðar ýmsar raskanir þar sem þau sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi eru marktækt líklegri til þess að hafa verið greind með þunglyndi, kvíðaröskun, áfallastreituröskun, kulnun eða örmögnun og fleiri vandamál tengd geðheilsu.

Helstu niðurstöður

  • Mun fleiri konur en karlar hafa verið beittar kynferðisofbeldi um ævina.

  • Konur eru mun líklegri en karlar til að verða fyrir kynferðisofbeldi í nánu sambandi, þ.e. að gerandi hafi verið núverandi eða fyrrverandi maki, kærasti eða kærasta. Einnig er algengt að gerandi hafi verið vinur eða félagi þeirra eða þeim ókunnugur.

  • Karlar eru líklegastir til að greina frá að gerandi hafi verið vinur eða félagi eða þeim ókunnugur.

  • Þau sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi greina frá lakari líkamlegri og andlegri heilsu, eiga frekar við svefntruflanir að stríða og skora lægra á kvarða um hamingju.

Áhrif þess að verða fyrir kynferðisofbeldi virðast vera áþekk meðal kvenna og karla en hafa ber í huga að mun fleiri konur en karlar greina frá því að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um tengsl kynferðisofbeldis og heilsu og líðanar til þess að hægt sé að veita þolendum viðeigandi þjónustu og eins til þess að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir kynferðisofbeldi. Því þarf að vinna á breiðum vettvangi með samþættum aðgerðum að því að koma í veg fyrir að fólk beiti kynferðisofbeldi.

Frekari upplýsingar
Jenný Ingudóttir, verkefnastjóri á lýðheilsusviði, jenny.ingudóttir@landlaeknir.is
Andrea Gerður Dofradóttir,
verkefnastjóri á heilbrigðisupplýsingasviði, andrea.g.dofradottir@landlaeknir.is