Talnabrunnur - 6. tölublað 2025
7. október 2025
Nýtt tölublað Talnabrunns, fréttabréfs landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, hefur verið gefið út.

Nýtt tölublað Talnabrunns fjallar um andlega heilsu, svefn, streitu, fjárhag, einmanaleika, hamingju og velsæld fullorðinna á Íslandi árið 2024 í samanburði við árin 2022 og 2023.
Lítil breyting hefur orðið á líðan fullorðinna síðustu ár, að því undanskyldu að fleiri eiga nú erfitt með að ná endum saman og færri karlar telja sig hamingjusama. Tvö þriðju fullorðinna meta andlega heilsu sína góða (67%) og fá nægan svefn (68%). Rúmur helmingur (53%) telja sig mjög hamingjusöm, 27% finna fyrir mikilli streitu og 11% upplifa oft einmanaleika. Um 17% telja sig upplifa mikla velsæld.
Hlutfallslega fleiri konur greina frá mikilli streitu og fjárhagserfiðleikum en þó eru einnig fleiri konur en karlar sem telja sig hamingjusamar. Ungu fólk líður almennt verr en eldra – það metur andlega heilsu lakari, finnur frekar fyrir einmanaleika og upplifir síður mikla velsæld.
Líðan og seigla ungu kynslóðarinnar eru lykilatriði fyrir farsæld samfélagsins og mikilvægt er að huga að leiðum til að bæta andlega heilsu og félagsleg tengsl ungs fólks.
Greinarhöfundar eru Andrea Gerður Dofradóttir og Sigrún Daníelsdóttir.
Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is