Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Talnabrunnur - 5. tölublað 2025

2. september 2025

Nýtt tölublað Talnabrunns, fréttabréfs embættis landlæknis, fjallar um valda lykilþætti í mataræði landsmanna árin 2020 – 2024.

Niðurstöðurnar sýna að 56% fullorðinna borðuðu grænmeti og 46% ávexti daglega árið 2024. Á tímabilinu fækkaði aðeins í hópi þeirra sem borðuðu grænmeti daglega en ávaxtaneyslan var svipuð öll árin. Fleiri konur en karlar borðuðu grænmeti og ávexti á degi hverjum. Aðeins tíundi hver náði þó ráðleggingum um að borða ávexti og grænmeti fimm sinnum á dag. Um þrír af hverjum fimm tóku D-vítamín reglulega árið 2024, einkum eldra fólk, en mun færri ungmenni og börn.

Neysla fullorðinna á sykruðum gosdrykkjum hefur lítið breyst síðustu ár, um einn af hverjum tíu drakk sykrað gos daglega. Fimmtungur drakk sykurlausa gosdrykki daglega en fjölgað hefur í hópi þeirra síðustu ár (úr 15% í 19%). Orkudrykkjaneysla hefur aukist hratt og er nú tvöföld miðað við árið 2020 (úr 6% í 12%), sérstaklega meðal ungs fólks (18-34 ára) þar sem 27% karla og 29% kvenna drekka orkudrykki daglega.

Greiningin leiðir einnig í ljós tengsl mataræðis og fjárhagsstöðu, þau sem eiga erfitt með að ná endum saman borða síður grænmeti og ávexti en drekka oftar gos- og orkudrykki.

Greinarhöfundar eru Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Jóhanna Eyrún Torfadóttir og Andrea G. Dofradóttir.

Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is