Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Sýklalyfjanotkun – nýtt mælaborð

11. nóvember 2024

Embætti landlæknis og sóttvarnalæknir hafa nú birt gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um notkun sýklalyfja utan sjúkrahúsa á Íslandi.

Mynd með frétt. Notkun sýklalyfja utan sjúkrahúsa á Íslandi

Mælaborðið byggir á gögnum úr lyfjagagnagrunni embættis landlæknis sem inniheldur upplýsingar um afgreiðslur sýklalyfja sem notuð eru utan sjúkrahúsa. Gögn ná aftur til ársins 2005 og er mælaborðið uppfært ársfjórðungslega. Upplýsingar um notkun lyfja innan sjúkrahúsa eru ekki skráðar í lyfjagagnagrunn landlæknis og eru því ekki aðgengilegar í þessu mælaborði.

Mælaborðið sýnir notkun sýklalyfja eftir ATC undirflokkum, kyni, aldri, heilbrigðisumdæmi og ársfjórðungi. Auk þess er hægt að skoða sýklalyfjaávísanir eftir sérgreinum lækna. ATC flokkun er fimm þrepa flokkunarkerfi þar sem lyf eru flokkuð eftir því í hvaða líffærakerfi þeim er aðallega ætlað að hafa áhrif.

Gögnin í mælaborðinu ná yfir helstu flokka sýklalyfja: J01 (bakteríulyf), A07A (þarmasýkingalyf) og P01AB (sníklalyf; metronidazol) innan ATC flokkunarkerfisins. Stuðst er við þrenns konar mælikvarða fyrir notkun sýklalyfja:

  • Heildarmagn skilgreindra dagskammta (DDD) sem ávísað er á hverja 1000 íbúa á dag (skammstafað DID).

  • Heildarfjöldi afgreiddra ávísana á hverja 1000 íbúa á ári.

  • Fjöldi einstaklinga með skráðar lyfjaafgreiðslur á hverja 1000 íbúa.

Sýnd er heildarnotkun ofangreindra ATC flokka en einnig er hægt að velja einstaka sýklalyf með því að velja eitt eða fleiri lyf úr yfirlitstöflu.

Fjallað verður um mælaborðið og notkun sýklalyfja hérlendis á málþingi sóttvarnalæknis á degi vitundarvakningar um sýklalyfjaónæmi mánudaginn 18. nóvember.

Sóttvarnalæknir

Sjá nánar: