Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Sýkingar sem tengjast heilbrigðisþjónustu og sýklalyfjanotkun

13. maí 2024

Árlega fá 4,3 milljónir sjúklinga á sjúkrahúsum innan ESB/EES-svæðis að minnsta kosti eina sýkingu sem tengist heilbrigðisþjónustu, oft kallað spítalasýking.

Mynd. Frétt um PPS könnun

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar á spítalasýkingum og sýklalyfjanotkun á bráðasjúkrahúsum í ESB/EES-ríkjum, sem fór fram árin 2022–2023. Sjá nýútkomna skýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC).

Þátttaka Íslands

Ísland hefur tekið þátt í öllum þremur könnunum sem farið hafa fram, árin 2010–2011, 2016–2017 og nú. Gagnaöflun fór sem fyrr fram á tveimur stærstu sjúkrahúsunum hérlendis, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri, í samstarfi sóttvarnalæknis og sjúkrahúsanna. Í nýjustu könnuninni bættist COVID-19 við fyrri greiningar og einnig var ákveðið að skrá sýkingar sem áttu uppruna sinn á stofnunum utan sjúkrahúsanna tveggja. Tölur eru því ekki algerlega sambærilegar milli fyrri kannana og þessarar.

Helstu niðurstöður

Á Íslandi var hlutfall sjúklinga með sýkingu sem tengist heilbrigðisþjónustu 6,2%, þegar könnunin fór fram, sem er nokkuð lægra en í flestum ríkjum ESB/EES þar sem tíðni sýkinga var að meðaltali 7,1%.

Hlutfall ónæmra baktería sem orsökuðu spítalasýkingar á Íslandi var 8,3%, sem er lágt miðað við mörg ríki ESB/EES (meðaltal 29,6%). Hátt hlutfall sýkla með ónæmi fyrir mikilvægum sýklalyfjum er vandamál því það fækkar þeim sýklalyfjum sem standa til boða við meðhöndlun sýkinga.

Hlutfall sjúklinga sem fékk sýklalyf var 30,7% á Íslandi, sem er nokkru lægra en í ESB/EES-ríkjum almennt þar sem hlutfallið var 36%. Notkun sýklalyfja í ESB/EES-ríkjum jókst nokkuð miðað við fyrri kannanir en hlutfallið var 32,9% árin 2016–2017.

Sýkingar í öndunarfærum, þar á meðal lungnabólga og COVID-19, voru nær þriðjungur allra greindra spítalasýkinga, en þar á eftir komu þvagfærasýkingar, skurðsárasýkingar, blóðsýkingar og meltingarfærasýkingar.

Í þessari könnun var COVID-19 sjúkdómurinn ástæða verulegs hluta aukningar á tíðni spítalasýkinga í ESB/EES-ríkjum miðað við síðustu könnun árin 2016–2017. SARS-CoV-2, veiran sem veldur COVID-19, var í heildina fjórða algengasta örveran sem tengdist spítalasýkingum. Tekið skal fram að hlutfall COVID-19 af spítalasýkingum var mun hærra (11,4%) í þeim 11 löndum sem gerðu könnunina árið 2021 eða 2022 en í þeim 18 löndum sem tóku þátt árið 2023 (4,3%). Hlutfallið var 0% á Íslandi en könnunin fór fram í maí 2023 hérlendis.

Sýkingavarnir

Áætlað er að með öflugum sýkingavörnum sé hægt að koma í veg fyrir minnst 20% spítalasýkinga. Mestur árangur næst þegar sýkingavarnir gera ráð fyrir fjölbreyttum aðgerðum sem spanna allt frá þjálfun starfsfólks og skriflegum verkferlum til eftirlits og endurgjafar.

Einfaldar ráðstafanir eins og handhreinsun og staðsetning handspritts við rúm sjúklinga geta fækkað sýkingum umtalsvert. Viðameiri inngrip eins og að tryggja nægilegan fjölda einstaklingsherbergja og starfsfólks með sérþekkingu á sýkingavörnum gegna einnig mikilvægu hlutverki.

Sóttvarnalæknir

Nánar: