Sýkingar og notkun sýklalyfja hjá íbúum hjúkrunarheimila: Algengiskönnun í löndum ESB/EES 2023–2024
2. júní 2025
Ný könnun frá ECDC sýnir að um 3% íbúa á hjúkrunarheimilum höfðu að minnsta kosti eina sýkingu sem tengist heilbrigðisþjónustu á þeim tíma sem rannsóknin fór fram. Þó sumar sýkinganna sé auðvelt að meðhöndla geta aðrar mögulega haft alvarlegar afleiðingar.

Þetta er fjórða sinn sem ECDC gerir algengisrannsókn á sýkingum sem tengjast heilbrigðisþjónustu og sýklalyfjanotkun á hjúkrunarheimilum í Evrópu (HALT-4). Könnunin safnaði gögnum frá yfir 66.000 íbúum og 1.097 hjúkrunarheimilum í 18 löndum ESB/EES á árunum 2023 og 2024.
Um 3% íbúa á hjúkrunarheimilum í þátttökulöndum höfðu að minnsta kosti eina sýkingu sem tengist heilbrigðisþjónustu en algengustu sýkingarnar voru þvagfærasýkingar, öndunarfærasýkingar og húðsýkingar. Hlutfall íbúa með skráða sýkingu var 3,5% á Íslandi.
Yfir 4% íbúa hjúkrunarheimila í löndum ESB/EES tóku eitt eða fleiri sýklalyf á þeim tíma sem könnunin fór fram, þar af var nær þriðjungur sýklalyfja gefinn í fyrirbyggjandi tilgangi. Þvagfærasýkingar voru algengasta ábendingin bæði fyrir meðhöndlun og fyrirbyggjandi notkun.
Um 7% íbúa hjúkrunarheimila hérlendis tóku eitt eða fleiri sýklalyf. Yfir helmingur af öllum sýklalyfjum á íslenskum hjúkrunarheimilum voru gefin í fyrirbyggjandi tilgangi, sem er hátt í samanburði við önnur ESB/EES lönd. Þar af var nær helmingur til að fyrirbyggja þvagfærasýkingar.
Aðeins 19% starfsfólks hjúkrunarheimila á Íslandi hafði verið bólusett gegn inflúensu á árinu og 8% gegn COVID-19, sem er lágt í samanburði við önnur ESB/EES lönd (30% starfsfólks bólusett gegn inflúensu, 82% gegn COVID-19).
Könnunin mat einnig aðgerðir stofnana til að fyrirbyggja sýkingar og hvort sýklalyf væru notuð á skynsamlegan hátt. Þó flest hjúkrunarheimili í löndum ESB/EES hefðu verklag fyrir handhreinsun höfðu rúmlega 20% heimila ekki starfsfólk sérþjálfað í sýkingavörnum, minna en helmingur hafði sýkingavarnanefnd og nær 40% höfðu enga sýklalyfjagæslu.
Fjögur af hverjum fimm hjúkrunarheimilum í þátttökulöndum notuðu handspritt sem aðalaðferð við handhreinsun, á meðan fimmtungur treysti aðallega á handþvott með vatni og sápu. Hins vegar hafði nær þriðjungur stofnana ekki reglulegt eftirlit með handhreinsun og veitti ekki reglulega endurgjöf til starfsfólks.
Í kjölfar þessarar könnunar hvetur Sóttvarnastofnun Evrópu heilbrigðisyfirvöld á landsvísu og stjórnendur hjúkrunarheimila til að:
Styrkja sýkingavarnir á hjúkrunarheimilum með þjálfun starfsfólks, bættri vöktun og skýrum leiðbeiningum.
Innleiða handspritt sem aðalhandhreinsunaraðferð og setja af stað vitundarvakningu um mikilvægi þess til að fyrirbyggja sýkingar.
Þróa og innleiða öfluga sýklalyfjagæslu til þess að efla skynsamlega notkun sýklalyfja, ekki síst í fyrirbyggjandi tilgangi.
Þessar aðgerðir eru mikilvægar til að bæta heilsufar íbúa hjúkrunarheimila og sporna gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis í Evrópu.
Sóttvarnalæknir