Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Svipting starfsleyfa - samantekt

18. júní 2025

Undanfarin ár hefur landlæknir birt í ársskýrslu sinni tölulegar upplýsingar um svokölluð eftirlitsmál en þeim getur til dæmis lokið með áminningu, takmörkun starfsleyfis eða sviptingu starfsleyfis. Fyrirhugað er að halda þessari birtingu áfram.

Hins vegar birtir landlæknir nú ítarlegri samantekt, það er um helstu ástæður sviptinga starfsleyfis. Ætlunin er að birta fleiri slíkar samantektir. Markmið með þessari birtingu er fyrst og fremst að vekja athygli heilbrigðisstarfsmanna á því hvað það er einna helst sem leiðir til þess að landlæknir grípur til viðurlagaúrræða á borð við þau sem að framan greinir.

Á árunum 2016-2024 var fjöldi sviptinga starfsleyfa sem hér segir:

Tafla sviptingar

Það sem af er 2025 hafa tveir verið sviptir starfsleyfi.

Ef eingöngu er litið til ársins 2024 og þess sem af er 2025 er um að ræða einstaklinga í sex heilbrigðisstéttum. Algengasta ástæða sviptingar starfsleyfis á þessu tímabili er lyfjastuldur úr birgðum vinnustaðar. Aðrar ástæður eru óheimilar uppflettingar í sjúkraskrá, útgáfa rangra reikninga til Sjúkratrygginga, rekstur heilbrigðisþjónustu án tilskilinna heimilda, skjalafals og að heilbrigðisstarfsmaður sé ekki talinn hæfur til að gegna starfi sínu, t.d. vegna vanrækslu í starfi, áfengisnotkunar eða veikinda.

Svipting starfsleyfis er alvarlegasta úrræði sem landlæknir getur gripið til gagnvart heilbrigðisstarfsmanni og er ekki beitt nema ljóst þyki að önnur úrræði eigi ekki við.

Heilbrigðisstarfsmaður sem sviptur er starfsleyfi hefur þrjá mánuði til að kæra slíka ákvörðun til heilbrigðisráðuneytis.

Heilbrigðisstarfsmaður sem sviptur hefur verið starfsleyfi getur sótt um endurveitingu leyfisins geti hann sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði laga fyrir endurveitingu og að þær ástæður sem leiddu til sviptingar eigi ekki lengur við.

Embætti landlæknis birtir á heimasíðu sinni starfsleyfaskrá með nöfnum allra heilbrigðisstarfsmanna sem hafa starfsleyfi landlæknis.

Frekari upplýsingar veitir
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is