Fara beint í efnið

Staða COVID-19 á Íslandi og á meginlandi Evrópu

13. september 2023

Flensutímabil nálgast. Óvíst er hvernig COVID-19 muni haga sér faraldsfræðilega og hvort það verði aukning á tilfellum á ákveðnum árstímum.

Sprauta í handlegg II

Veturinn 2022/23 varð aukning hérlendis frá nóvember og fram í janúar en fjöldi tilfella var þó mun lægri en veturinn 2021/22.

Síðastliðinn vetur geisaði inflúensu-, RS-veiru- og gr. A Streptókokka (GAS) faraldrar á sama tíma og COVID-19 tilfelli jukust, sem olli samanlagt miklum veikindum hjá börnum og eldra fólki og álagi á heilbrigðisþjónustu. Það má eiga von á inflúensu- og RSV-faraldri í haust/vetur og hugsanlega aukningu á COVID-19 á sama tíma. Þá verða aðrar veirur m.a. enteroveirur, adenoveirur, rhinoveirur í dreifingu eins og venjulega á þessum árstíma.

Þá ber að hafa í huga að þó COVID-19 birtist sem vægur sjúkdómur hjá flestum og tilfelli séu færri en áður þá er COVID-19 meira smitandi en inflúensa og getur valdið alvarlegri veikindum heldur en aðrar kvefpestir eða inflúensa hjá ákveðnum hópum auk þess að valda langvarandi einkennum hjá sumum.

Örvunarbólusetningar vegna COVID-19 hefjast hérlendis í október og þá er inflúensubóluefni einnig væntanlegt. Bólusett verður með Pfizer XBB.1.5 bóluefni. Uppfærða bóluefnið var þróað í samræmi við ráðleggingar Lyfjastofnunar Evrópu (EMA), Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). XBB.1.5 afbrigðið hefur verið í dreifingu undanfarna mánuði og það er einnig mjög skylt ýmsum öðrum afbrigðum sem eru í dreifingu um þessar mundir. Boðið verður upp á COVID-19 og inflúensubólusetningu fyrir forgangs- og áhættuhópa þ.m.t. alla einstaklinga 60 ára og eldri, sem hafa ekki frábendingu. Nánari leiðbeiningar um bólusetningar haustsins eru væntanlegar frá sóttvarnalækni fljótlega.

Við minnum fólk á að halda sig til hlés ef með einkenni sýkingar, fara varlega í umgengni við áhættuhópa, sinna handhreinsun og almennu hreinlæti og íhuga að nota andlitsmaska ef það á við.

Staðan á Íslandi
Frétt um stöðuna á COVID-19 var birt á vef sóttvarnalæknis 14. ágúst sl. Þá hafði sést væg aukning tilfella vikurnar á undan þó heildarfjöldi greininga væri enn lágur (Tafla 1 og mynd hér að neðan). Greiningar síðan þá hafa haldist á svipuðum stað. PCR-greiningar frá rannsóknarstofu eru nú um 40 á viku og ofan á það bætast um 15–20 klínískar greiningar lækna. PCR-greiningar eru hlutfallslega fleiri í eldri aldurshópum en heildarfjöldi greininga árið 2023 er töluvert lægri en árin 2020–2022 (Tafla 2).

Færri greiningar árið 2023 skýrist að hluta af færri opinberum sýnatökum (PCR) og heimapróf hafa að einhverju leyti komið í stað PCR-prófa. Flestar COVID-19 greiningar eru gerðar á sjúkrahúsum, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar og á Læknavaktinni.

Tafla 1. PCR og klínískar Covid greiningar 2023
Fjöldi PCR greininga covid 2023
Tafla 2. PCR eftir aldurshópum covid 2023

Alvarleg veikindi og andlát
Í síðustu viku voru 10 manns inniliggjandi í einangrun á Landspítala vegna COVID-19 en enginn þeirra á gjörgæslu. Það sem af er árinu 2023 (til og með júlí 2023) hafa alls 23 einstaklingar látist hérlendis vegna COVID-19, þar af 14 einstaklingar í janúar sl. Tölur byggja á skráningum af dánarvottorðum þar sem COVID-19 er talið aðal- eða undirliggjandi orsök. Sjá einnig mælaborð embættis landlæknis.

Andlát vegna COVID-19 voru skoðuð m.t.t. hvort hinn látni væri fullbólusettur við andlát (tvær eða fleiri bólusetningar árið 2021, og þrjár eða fleiri árin 2022 og 2023) og persónuár voru reiknuð eftir árum (til og með maí 2023). Fyrir árin 2021 og 2023 ein og sér eru andlátstölur of lágar fyrir tölfræðiúrvinnslu og því ekki áreiðanleg úrvinnsla gerleg fyrir þau ár ein og sér. Fyrir árið 2022 liggja fyrir næg gögn til að vinna með og er marktæk vörn af því að vera fullbólusettur, dánarhlutfall (mortality ratio) er 0,55 (95% öryggisbil 0,44–0,68, p<0,0001)*, eða með öðrum orðum, tæplega helmings líkur á andláti vegna COVID-19 fyrir fullbólusettan miðað við að vera ekki bólusettur.

Ef árin þrjú 2021–2023 (til og með maí 2023) eru skoðuð saman í heild reiknast einnig marktæk vörn hjá fullbólusettum gegn andláti vegna COVID-19 með dánarhlutfall 0,59 (95% öryggisbil 0,46–0,74, p<0,0001).

*Þegar tölur eru skoðaðar og úttektir gerðar við aðstæður eins og þessar er mikilvægt að skoða tölur í samhengi við mannfjölda í mismunandi aldurshópum og fjölda bólusettra á hverjum tíma. Aðferðafræðin sem var notuð var Poisson aðhvarfsgreining á fjölda dauðsfalla miðað við persónuár í líkani sem var leiðrétt fyrir aldri og ári.

Staðan á meginlandi Evrópu
Á meginlandi Evrópu hefur einnig orðið vart við aukningu á COVID-19 tilfellum en tíðnin er enn lág og ekki hefur borið á aukningu í alvarlegum veikindum. Hingað til hefur orðið aukning á tilfellum á 2ja–3ja mánaða fresti en almennt lægri toppar í bylgjum og fækkun á innlögnum og andlátum. Nýleg gögn eru þó af skornum skammti, sérstaklega hvað varðar alvarleg veikindi, og því skal fara varlega í að draga ályktanir um stöðuna.

Öll afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar sem eru í dreifingu eru afbrigði omicron. Afbrigði XBB.1.5+F456L (m.a. EG.5, FL.1.5.1, XBB.1.16.6, FE.1) eru algengust í ESB/EES ríkjum og þau afbrigði hafa greinst hérlendis í raðgreiningu. Afbrigðið BA.2.86 hefur fengið athygli vegna aukins fjölda stökkbreytinga umfram önnur omicron afbrigði en níu ótengd tilfelli af hafa nú greinst í fimm löndum (Ísrael, Danmörku, Bretlandi, Bandaríkjunum og Suður Afríku). Afbrigðið hefur einnig greinst í skólpi í Bandaríkjunum, Sviss og Tælandi. Óvissa, hvað þetta afbrigði varðar, er þó enn mikil þar sem greind tilfelli eru fá. Þetta afbrigði hefur ekki greinst á Íslandi. Ekkert hefur bent til meiri veikinda eða minni virkni bóluefna vegna þessara afbrigða miðað við önnur afbrigði í gangi. Sjá nánar á vef ECDC.

Sóttvarnalæknir