Skýrsla stýrihóps um hópsýkingu af völdum Salmonella Typhimurium
18. desember 2024
Stýrihópur um rannsókn innlendrar hópsýkingar af völdum Salmonella Typhimurium í janúar til maí á þessu ári hefur skilað lokaskýrslu varðandi aðkomu hópsins að málinu.
Í stýrihópnum sátu fulltrúar sóttvarnalæknis, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Matvælastofnunar, sýkla- og veirufræðideildar Landspítala og umdæmis-/svæðislæknar sóttvarna á Norðurlandi.
Hópsýking af völdum Salmonella Typhimurium uppgötvaðist í lok janúar 2024. Var atburðurinn í fyrstu talinn bundinn við leikskólabörn á Húsavík en síðar greindust tilfelli á fleiri landssvæðum og á ólíkum aldri. Á tæplega fimm mánaða tímabili, janúar til maí, greindust samtals sautján einstaklingar á víðu aldursbili með S. Typhimurium af sömu gerð.
Síðar kom í ljós að sams konar tegund Salmonella ræktaðist úr sýnum úr kjúklingum við slátrun dýra frá kjúklingabúi hér á landi. Niðurstöður heilgenaraðgreininga staðfestu að um sama Salmonella stofn var að ræða hjá smituðum einstaklingum og í kjúklingasýnum. Líklegt er því að uppruni Salmonella smits hafi verið í kjúklingakjötinu en þessi rannsókn sýndi fram á mikilvægi heilraðgreininga við rannsókn á uppruna matarborinna sýkinga.
Engir skyldir Salmonella Typhimurium stofnar hafa greinst í öðrum ríkjum ESB/EES en Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) vaktar hópsýkingar í ríkjum ESB/EES í samstarfi við Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA).
Helstu einkenni Salmonella sýkingar eru niðurgangur, ógleði og uppköst, kviðverkir og hiti. Veikindin ganga í flestum tilfellum yfir á nokkrum dögum. Í flestum tilfellum er meðferð með sýklalyfjum óþörf en stundum reynist nauðsynlegt að leggja þá sem veikjast inn á sjúkrahús og gefa vökva í æð til að bæta upp vökvatap.
Salmonella er baktería með yfir 2000 afbrigði (sermisgerðir) en algengastar hér á landi eru S. Enteritidis og S. Typhimurium. Helsta smitleið er með menguðum matvælum. Stærstu hópsýkingar af völdum Salmonella hérlendis á síðustu áratugum voru árið 1996 af völdum S. Enteritidis í rjómabollum og árið 2000 þegar S. Typhimurium barst með jöklasalati.
Sóttvarnalæknir
Sjá nánar:
Lokaskýrsla um hópsýkingu af völdum Salmonella Typhimurium janúar til maí 2024. Útg. desember 2024
Ársskýrsla sóttvarna 2023. Útg. júní 2024