Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Sérfræðingur varðandi forvarnir kynsjúkdóma í heimsókn hjá embætti landlæknis

1. september 2025

Sérfræðingur varðandi forvarnir kynsjúkdóma í heimsókn hjá embætti landlæknis

Sóttvarnalæknir býður Alison P. Footman velkomna sem sérfræðing hjá sóttvarnasviði embættis landlæknis 27. ágúst til 25. september til að vinna að málefnum kynsjúkdóma. Heimsókn Alison er að fullu fjármögnuð af Fulbright stofnuninni, sem á hverju ári styrkir bandaríska sérfræðinga og fræðafólk til að vinna tímabundið að afmörkuðum verkefnum erlendis í samstarfi við þarlenda háskóla eða aðrar viðeigandi stofnanir.

Alison P. Footman er sérfræðingur frá Bandaríkjunum á sviði kynsjúkdóma. Hún starfar sem yfirverkefnastjóri kynsjúkdóma hjá AVAC, stofnun í New York, sem í alþjóðlegu samstarfi vinnur að skilvirkum forvörnum gegn HIV. Alison situr í stjórn samtakanna American Sexually Transmitted Diseases Association og International Society for Sexually Transmitted Diseases Research.

Alison er menntuð í heilbrigðisvísindum í Bandaríkjunum, með doktorspróf í heilbrigðisfræðum og heilsueflingu frá University of Alabama School of Public Health í Birmingham og mastersgráðu í lýðheilsu og faraldsfræði smitsjúkdóma frá Yale University School of Public Health, Connecticut. Þá stundaði hún rannsóknir eftir doktorspróf varðandi HPV bólusetningar við St. Jude Children´s Research Hospital í Memphis, Tennessee.

Tilgangur með heimsókn Alison er að fá utanaðkomandi sérfræðing til að rýna með sóttvarnalækni í málefni kynsjúkdóma, sérstaklega háa tíðni klamydíu og aukningar á lekanda og sárasótt hérlendis undanfarin ár. Alison mun, ásamt starfsfólki sóttvarnasviðs, hitta hagaðila innan og utan heilbrigðisþjónustunnar, m.a. fulltrúa samtaka.

Markmið verkefnisins er að:

  • fara yfir mögulegar orsakir nýlegrar aukningar kynsjúkdóma

  • finna leiðir til að efla forvarnir og auka aðgengi að prófum

  • styrkja samskipti við hagaðila og almenning

  • bæta aðferðir við upplýsingamiðlun

Væntanlegur árangur af heimsókninni er að auka skilning á orsökum vaxandi tíðni kynsjúkdóma á Íslandi, stuðla að markvissari og árangursríkari aðgerðum til forvarna og að efla samstarf lykil hagsmunaaðila til lengri tíma.

Sóttvarnalæknir