Rannsókn dánarvottorða þar sem COVID bóluefni var tilgreint sem þáttur í dánarorsök
27. janúar 2026
Í dánarmeinaskrá fyrir árið 2023 voru fjögur andlát skráð vegna bólusetninga við COVID-19. Þar sem engar viðbótarupplýsingar bárust embættinu voru vottorðin skráð með þessum upplýsingum.

Í 2. gr. laga um dánarvottorð, krufningar o.fl., nr. 1998/61 segir að „læknir skoðar lík og athugar hvernig andlát hefur borið að, dauðaskilmerki og líklega dánarorsök.“ Viðkomandi lækni er þannig falið, með lögum, að skrá dánarorsök með réttum hætti.
Í kjölfarið var ákveðið að biðja óháða sérfræðinga að skoða skráningu á þessum andlátum vegna þess að þetta var í fyrsta skipti svo langt sem skrár ná hér á landi sem bólusetning var skráð sem dánarorsök auk þess sem andlátin áttu sér stað á tiltölulega stuttu tímabili.
Embættið leitaði til óháðra sérfræðinga til að leggja mat á dánarvottorðin. Þetta voru þau Anna Björg Jónsdóttir, sérfræðingur í öldrunarlækningum og yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og Ólafur Þór Gunnarsson, sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum, yfirlæknir endurhæfingarhluta öldrunarlækninga á Landspítala. Bæði eru með áratuga reynslu innan öldrunarþjónustu, bæði á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum.
Úr skýrslu óháðra sérfræðinga um málið segir: „Það er mat undirritaðra að engin leið sé að fullyrða að andlát neins íbúa hafi verið í beinu orsakasamhengi við bólusetningu.“ Það kemur einnig fram að allir íbúar hjúkrunarheimilanna teljist með mikinn eða mjög mikinn hrumleika og allir íbúar séu með einn eða fleiri langvinna sjúkdóma og á fjöllyfjameðferð. Var samband bólusetningar og andláts í hverju tilviki talið ólíklegt en allir einstaklingarnir höfðu fengið bæði bólusetningu gegn inflúensu og COVID-19 á sama tíma.
Eftir að þessi niðurstaða lá fyrir áttu fulltrúar embættis landlæknis fund með lækninum sem gaf út umrædd vottorð. Þar var skýrslan kynnt og rædd. Í kjölfarið yfirfór læknirinn dánarvottorðin og uppfærði þau hvað dánarmein varðar án aðkomu embættisins.
Það skal tekið fram að embætti landlæknis á oft samskipti við lækna varðandi skráningu dánarmeina og hafa þau samskipti án undantekninga gengið vel. Sama á við um samskipti við útgefandi lækni í þessu máli. Allar sjúkdómsgreiningar sem skráðar eru á dánarvottorð eru kóðaðar samkvæmt ICD-10 og reglum WHO um skráningu dánarmeina. Upp koma tilvik þar sem það vantar upplýsingar á vottorð til kóðunar eða þar sem upplýsingar um dánarmein eru ekki fullnægjandi samkvæmt reglum um skráningu. Við þessar aðstæður vinnur embættið með viðkomandi lækni svo hægt sé að ganga frá skráningu.
Í niðurstöðu óháðra sérfræðinga er einnig nefnt að ástæða sé til að hugleiða hvort ástæða hafi verið til að bólusetja umrædda einstaklinga á þessum tíma enda voru sumir með bráð veikindi og allir hrumir eða mjög hrumir. Þá er bent á að einstaklingsmiðað mat ætti að fara fram á því hvort að bólusetning sé viðeigandi hjá íbúum hjúkrunarheimila með hliðsjón af heilsufari þeirra annars vegar og hins vegar samanber ráðleggingar sóttvarnalæknis og landlæknis varðandi bólusetningar eldri og hrumari einstaklinga.
Í þessu samhengi bendir embættið á að almennt skal fresta bólusetningu hjá einstaklingum með bráð veikindi, hita eða bráða sýkingu og endurmeta þegar ástand viðkomandi er orðið betra. Þetta á við um alla aldurshópa en ekki síst þá sem eldri eru. Varðandi eldri og hruma einstaklinga þarf að vega og meta í hverju tilviki hvort eigi að bólusetja, einkum þá sem eru taldir nálægt lífslokum. Og ef ástand einstaklings er versnandi þarf að fara fram einstaklingsbundið mat á hvort rétt sé að fresta eða hætta við bólusetningu. Í ljósi ábendinga óháðra sérfræðinga hyggst sóttvarnalæknir brýna þessi tilmæli við hjúkrunarheimili.
Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is