Nýtt meistaranám í Velsældarfræðum hlýtur myndarlegan styrk
17. desember 2024
Nýtt meistaranám í Velsældarfræðum, Wellbeing Science, var eitt 19 verkefna sem hlaut styrk úr Samstarfssjóði háskóla, eða 61 milljón króna. Um er að ræða samstarfsverkefni HR, HÍ, HA, embættis landlæknis og Surrey háskóla á Englandi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla- og nýsköpunarráðherra kynnti úthlutunina.
Velsældarhagkerfi er notað til að lýsa sýn sem er frábrugðin hinni hefðbundnu nálgun á hagkerfið út frá eingöngu efnahagslegum mælingum. Þess í stað eru velsæld og lífsgæði metin út frá fjölmörgum félagslegum og umhverfislegum þáttum jafnt sem efnahagslegum.
"Nýja meistaranámið í Velsældarfræðum er frábært tækifæri til að þjálfa næstu kynslóð leiðtoga í opinbera-, einka- og þriðja geiranum. Við þurfum nýtt hagkerfi og nýja sérfræðiþekkingu þar sem áhersla er lögð á velsæld fólks og umhverfis á sjálfbæran hátt. Með áherslum sínum á velsældarhagkerfið er Ísland því leiðandi í þeirri umbreytingu sem nú er að eiga sér stað," segir Lorenzo Fioramonti prófessor við háskólann í Surrey á Englandi og fyrrverandi menntamálaráðherra Ítalíu, en Surrey háskóli er einn þeirra háskóla sem standa að nýja meistaranáminu.
Frekari upplýsingar
Elín Hirst, verkefnastjóri velsældarhagkerfis
elin.hirst@landlaeknir.is